25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að koma á framfæri þeirri skoðun minni, að hér sé á ferðinni bæði gagnmerk og vönduð tillaga. Frágangur till. er á allan hátt flm. til hins mesta sóma. Ég vil ítreka það, sem raunar kom fram í ræðu hv. 1. flm., að brýna nauðsyn ber til að efla að mun alla rannsóknastarfsemi hér á landi, sem hefur verið satt að segja í lamasessi undanfarna áratugi, og á ég þar einkum við háskólarannsóknir. Hér á landi eru útskrifaðir á hverju ári með ærnum kostnaði tugir og hundruð hvers konar vísindamanna á ýmsum sviðum. Það er dýrmæt menntun sem þessir menn hafa aflað sér með mikilli vinnu og ærnum tilkostnaði sem þjóðfélagið ber auðvitað að hluta. En síðan gerist það, að vettvangur þessara manna er harla takmarkaður þegar þeir koma út í atvinnulífið, og við glötum þeim þá oft og tíðum til annarra þjóða, sem kunna að meta hæfileika þeirra. Þetta er einn þáttur þessa merka máls sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gat um.

Þá er annar merkur þáttur í þessu máli og það er, eins og hv. flm. vék að, nýting á þeim sjávarafla sem hér um ræðir. Ég held að það hafi verið öllum hugsandi mönnum til nokkurs ama á undanförnum árum og raunar áratugum og allt frá upphafi nútímalegra fiskveiða hér á landi, hvernig við höfum farið með aflann, þennan dýrmæta afla sem við komum með hér að landi. Við seljum hann nánast eins og þær þjóðir sem kallaðar eru vanþróaðar í daglegu tali, — seljum þetta meira og minna sem hráefni, en aðrir nota það svo aftur til að margfalda verðmæti vörunnar bæði með frágangi á henni til neyslu og öðru í þá veru. Það er líka hörmulegt til þess að vita, að í heimi, sem kannske skortir eggjahvítuefni umfram flest önnur efni, skulum við nota allan fiskúrgang í dýrafóður. Það þyrfti að gera gangskör að því að reyna að nýta t.d. fiskmjölið betur en við höfum gert. Tilraunir voru gerðar með þetta hér á árum áður og gáfu tiltölulega góða raun, en síðan varð ekkert meira úr þeim.

Ég er líka sammála hv. flm. um að það er ekki vansalaust að ríkisvaldið og þá þingið skuli ekki veita meira fjármagn til þessarar rannsóknastarfsemi. Það hefur verið svo á undanförnum árum, að rannsóknir hafa veríð unnar meira eða minna í sjálfboðaliðsvinnu og menn, sem hafa haft áhuga á málefnum utan raunverulegs verksviðs, hafa orðið að ganga um eins og beiningakarlar biðjandi um fjármagn til hinna merkustu rannsókna sem þeir hafa verið að vinna að.

Það þarf ekkert að ítreka að þau efni, sem hv. flm, gat um áðan, eru mjög verðmæt, t.d. þau efni sem fara í lyfjaiðnaðinn. Aðrar þjóðir hafa af því mjög umtalsverðar tekjur að framleiða þessi efni, enda er þarna um geysilega mikinn iðnað að ræða, og væri mjög merkilegt ef við gætum orðið þátttakendur í því að framleiða eitthvað af þeim efnum sem notuð eru í lyfjaiðnaði.

Ég vil líka taka undir það með hv. flm., að ef þessi þáltill. nær fram að ganga, eins og vona að verði, og eftir henni verður farið, þá er verið að stofna hér á landi til smáiðnaðar eða létts iðnaðar sem við höfum mikla þörf fyrir. Ég er þeirrar skoðunar, að menn liti kannske allt of mikið og hafi einblínt um of á hina svokölluðu stóriðju sem einhverja allsherjarlausn á þeim vanda sem við blasir í sambandi við að skapa ný atvinnutækifæri hér á landi. Þessi till. gæti orðið til þess, ef hún kemst í höfn og að henni verður unnið rösklega og því sem hún stefnir að, að skapa slíkan smá- eða léttiðnað.

Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjáíða að láta þessa skoðun mína í ljós vegna þess að þetta er að mínu mati með merkari till. sem hafa komið fram hér á þingi í vetur, þó svo,eins og oft er, að hún kunni kannske ekki að vekja eins mikla athygli og ýmis smámál sem hér eru rædd og miklar deilur rísa út af. Það er oft reglan að mál af þessum toga spunnin vekja ekki mikla athygli vegna þess að um þau blása ekki harðir vindar. En engu að síður vil ég leggja þessu máli það lið, sem ég get, og lýsa því yfir, að ég tel þetta vera gagnmerka till. og flm. til mikils sóma.