26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hér í hv. deild og einnig í Nd. er þetta frv. eitt af mörgum frv. sem hér hafa verið flutt til að hrinda í framkvæmd hinum fjölþættu aðgerðum ríkisstj. í efnahagsmálum sem ákveðnar voru í upphafi árs. Þessar aðgerðir stuðla að því, að verðbólgan í landinu haldi áfram að minnka, full atvinna verði með þjóðinni og atvinnurekstur í landinu verði með traustara móti. Það má lengi deila um hve stór skref eigi að stíga í þessum efnum, en aðalatriðið er að það miði áfram hægt og bítandi í rétta átt. Við teljum að með þessu frv. og öðrum, sem hér eru til meðferðar, hafi verið lögð drög að því, að á þessu ári muni verðbólgan halda áfram að fara niður á við, en full atvinna vera i landinu og traust staða þjóðarinnar út á við. Það er allverulegur árangur, ef miðað er við efnahagsástandið í ýmsum nágrannalöndum okkar, en ekki ástæða til að fara nánar út í það hér.

Við í 1. minni hl. n. mælum með að þetta frv. verði samþykkt í þeirri mynd sem það kom frá hv. Nd., en rétt er að geta þess, að vegna fjarveru einstakra nm. voru myndaðir tveir minni hlutar í nefndinni, 1. og 2. minni hl.