26.02.1982
Efri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umfjöllunar, innsiglar í rauninni getuleysi ríkisstj. í efnahagsmálum. Hv. þm. deildarinnar minnast þess væntanlega, að eftir harðvítugar deilur í stjórnarliðinu um efnahagsaðgerðir, mikið yfirlýsingastríð og heitstrengingar, einkum á síðum dagblaðsins Tímans, sem stóð vikum saman, birtist að lokum svonefnd skýrsla ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum. Efnisinnihaldið reyndist rýrt og yfirlýsingarnar og heitstrengingarnar því marklausar. Allar götur síðan þessi skýrsla birtist hefur ríkisstj. burðast við að búta þetta lítilræði niður í sem flest frv. og sem mestan málatilbúnað, eins og hún haldi að þessar svonefndu aðgerðir vaxi þá af sjálfu sér af niðurbútuðu efni. Það er nú orðið svo smátt brytjað að efnisinnihald einstakra frumvarpa er fulltalið í fáeinum orðum.

Efni þessa frv. er fyrst og fremst álagning á nýju afbrigði tolla til mótvægis og vel það við nýsamþykkta tollalækkun og svo í öðru lagi lækkun launaskatts um 1% hjá vissum atvinnugreinum, sem óvissa hefur þó ríkt um fram á þennan dag hverjar væru og er kannske ekki séð fyrir endann á því. Í launaskattsmálinu hefur þjóðin horft upp á hin furðulegustu vígaferli stjórnarliða síðustu dagana, en þeim lyktaði eins og venjulega með uppgjöf framsóknarmanna. Er það nú orðið að lögmáli í þessari ríkisstj., að þeir framsóknarmenn gali hæst, en sætti sig við ákaflega lítið.

Í Dagblaðinu og Vísi í gær birtist grein eftir einn upphlaupsmanninn, hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson. Þar lýsir hann því yfir, að hann hafi verið svikinn í þessu launaskattsmáli. Hann segir: „Ég gerði það að tillögu minni að launaskattur lækkaði um 1% í fiskvinnslu og iðnaði, en ekki í verslun og þjónustu. Þetta varð að samkomulagi.“

Í skýrslu ríkisstj. var þetta einmitt orðað svona. Þegar frv. kom fram hafði það þrengri takmörk. Þessi takmörkun kom mér í opna skjöldu, segir hv. þm. í grein sinni. Þar með fellur t.d. byggingariðnaðurinn undan að verulegu leyti. — Og hann heldur áfram: „Ég tel að hér sé um að ræða verulega breytingu frá samkomulaginu um aðgerðir í efnahagsmálum.“

Þm. er að verja tillöguflutning sinn um að lækkun launaskattsins um 1% eigi að ná til alls iðnaðar. En hann tiltekur bara eina grein iðnaðar sérstaklega, byggingariðnaðinn. Síðan gerist það, að einmitt þessari einu grein, sem þm., framsóknarmaðurinn hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, ber sérstaklega fyrir brjósti, er sleppt. En Guðmundur G. Þórarinsson fylgir auðvitað fordæmi Framsfl. og kyssir vöndinn. Þetta er nú saga í hnotskurn af þessari uppákomu varðandi launaskattinn.

Það er kannske ekki úr vegi í þessu sambandi að rifja aðeins upp að einmitt í þessari grein talar þm. líka um það fjálgum orðum að stjórnmálamenn haldi gjarnan ræður við hátíðleg tækifæri um að efla beri iðnaðinn, en raunalega lítið miði áfram. Og hann spyr sjálfan sig: Hvernig stendur á því að ekki næst samstaða um að breyta þessu? Hann segir: Við höfum ekki staðið okkur nógu vel og meðan ræðurnar og tillögurnar eru fluttar inn í alþingishúsið um öflugan iðnað í landinu veslast iðnaðurinn upp utan dyra. — Þetta eru orð þm.

Þetta ritar hann um það að skilja byggingariðnaðinn, sem hann ber sérstaklega fyrir brjósti, eftir úti í kuldanum, það sama og hann síðan samþykkti með atkv. sínu í Nd.

Það er meira að segja dæmisaga í þessari grein, og ég held að það sé rétt að ég reki hana vegna þess að hún er orðin enn dæmigerðari eftir þá atburði sem gerðust í Nd. Höfundur greinarinnar segir: „Þetta minnir mig á rússnesku hefðarkonuna, sem tárfelldi yfir sorgaratriði í leikhúsinu meðan ekillinn hennar fraus í hel utan við dyrnar við að bíða eftir henni.“ Ekki veit ég hvort hv. þm. Framsfl., Guðmundur G. Þórarinsson, hefur tárfellt þegar hann greiddi atkv. sitt, en sú atvinnugrein sem hann bar fyrir brjósti frýs jafnillilega eftir sem áður eftir þá meðferð sem málið fékk í Nd. með stuðningi þessa sama hv. þm.

Hitt atriði þessa frv., sem rétt er að gera í fáeinum orðum að umtalsefni, fjallar um nýtt tollafbrigði. Um það er það að segja, að með því á að leggja á almenning tvöfalda til þrefalda þá upphæð sem tollar voru lækkaðir um hér um daginn. Í skjóli úreltrar vísitölumælingar má launafólk axla þessar byrðar bótalaust, en svona vísitöluleikfimi, sem bitnar á launafólki án þess að sjást í opinberri skýrslugjöf um verðlagsþróun og kaupmátt vegna þess hvernig vísitalan er saman sett, er nú eins og fyrr ær og kýr Alþb.

Í skýrslu ríkisstj. varðandi þessar svonefndu aðgerðir í efnahagsmálum er einn kafli, inngangskaflinn, sem má segja að sé svolítið vit í. Þar er talað um að horfur hafi breyst til hins verra frá því sem ætlað hafi verið á s.l. ári að því er þjóðarbúið varðar. Þar segir:

„Nú eru hins vegar líkur á, að útflutningstekjur Íslendinga vaxi ekki í ár“ — þ.e. 1982. „Þjóðartekjur Íslendinga og þjóðarframleiðsla munu því standa í stað eða jafnvel dragast saman á þessu ári, en það hefur ekki gerst síðan árið 1975.“

Og síðan segir: „Vegna þessarar versnandi stöðu i þjóðarbúskapnum og til þess að koma í veg fyrir vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla ber til þess brýna nauðsyn að gerðar verði sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálum.“

Það er rétt að horfur séu á miklum viðskiptahalla. Það er meira að segja staðfest núna að viðskiptahallinn á s.l. ári hafi verið 946 millj. kr. En þær aðgerðir, sem ríkisstj. hefur gripið til, taka á enga hátt á viðskiptahallanum. Við því, sem á að vera grundvallarforsenda aðgerðanna, við því sem knýr á um nauðsyn þess að gripið sé til aðgerða, er ekkert gert, ekki nokkur hrærandi hlutur. Í staðinn standa menn í þessum lítilfjörlega vísitöluleik. Það er föndrað fram og aftur með tolla og niðurgreiðslur, það er föndrað með afkomu ríkissjóðs með útkomunni núll, en það er ekkert gert í viðskiptahallanum og skuldavanda þjóðarinnar.

Fulltrúar OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, voru hér á ferð nýlega. Þeir lásu þennan inngangskafla í skýrslu ríkisstj. með athygli, en héldu að þeir hefðu ekki skilið framhaldið. Þeir leituðu skýringa um hvað væri verið að gera, og þeir létu ekki segja sér það einu sinni og ekki tvisvar, heldur þrisvar, hverjar aðgerðirnar væru sem menn væru að grípa til. Þeir trúðu ekki að aðgerðir ríkisstj. væru svo marklausar sem raun ber vitni með tilliti til þess, hvernig horfurnar eru og staða þjóðarbúsins. Það var kannske kaldhæðni örlaganna, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skyldi tala um það sérstaklega áðan að staða þjóðarbúsins út á við væri sterk. Þessir fulltrúar OECD voru svo undrandi á aðgerðaleysi ríkisstj. að þeir trúðu ekki eigin augum og þeir fóru aftur úr landi.

Í blöðunum í gær birtust fréttir um að hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds væri að fara til London til að skrifa undir lán upp á 750 millj. kr. Þetta lán er til 10 ára, en það er sömu náttúru eins og önnur lán sem þessi hæstv. ráðh. eða ríkisstj. hefur verið að taka að undanförnu. Það á ekki að byrja að borga fyrr en eftir dúk og disk. Í fyrra átti ekki að fara að borga fyrr en eftir um 20 ár, ef ég man rétt. Af þessu láni þarf ekki að byrja að borga fyrr en 1987. Það er einkennileg árátta hjá þessari ríkisstj. að treysta sér ekki einu sinni til að greiða fyrstu afborganir af þessum lánum, heldur ávísa öllum afborgununum gersamlega á framtíðina. 750 millj. kr., það eru 75 milljarðar gkr. Þetta er þó nokkur upphæð. Ég held að það sé rétt að líta á að þessi upphæð er hærri en verðið á öllu íbúðarhúsnæði í bæjum og kauptúnum í kjördæmi Ragnars Arnalds.(ÓRG: Er þm. á móti orkuframkvæmdum?) Þessi upphæð er hærri en verð á öllu íbúðarhúsnæði í kjördæmi Ragnars Arnalds. Hvað á að mæta þessu? Hvað er það sem hann er að veðsetja? Það dugar ekki allt íbúðarhúsnæði í kjördæmi Ragnars Arnalds. Hann verður að fleygja inn Höfn í Hornafirði til viðbótar. Ég segi þetta til þess að menn átti sig á hvers konar fjárhæðir það eru sem hér er um að ræða. Við gætum líka tekið dæmi úr öðrum landsfjórðungum. Þetta er jafnmikils virði og allt íbúðarhúsnæði í Akranesi, Borgarnesi, Ólafsvík og Búðardal. Þetta eru engar smáræðis fjárhæðir. Haldið þið að það sé munur fyrir hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds að fá að veðsetja þessar eignir með undirskrift sinni, því að það er hann að gera, og þurfa ekkert að hugsa um borgunina? Um þetta hugsar ríkisstj. ekki neitt. Um þetta vill hún ekkert tala.

Ég sagði að það kæmi fram í skýrslu ríkisstj. að það væru horfur á miklum viðskiptahalla. Það er upplýst núna að viðskiptahallinn sé 946 millj. kr. á s.l. ári. Hvað er þetta há upphæð? Hverju samsvarar þessi upphæð, tæpar 1000 millj. kr.? Það er ekki úr vegi að mæla þetta í dagsverkum. Þetta eru árslaun, ársvinna, 13 700 verkamanna í dagvinnu. Þar er mælikvarði sem hægt er að notast við. Við búum sem sagt við það, að landið er rekið með 1000 millj. kr. halla. Það er ekkert gert í því. Það á að halda áfram af enn meiri myndarskap í hallarekstri á komandi ári. Það er bara farið til útlanda og skrifað upp á lán sem fellur eftir 5 ár. (ÓRG: Hvernig stendur á að Alþfl. vill þá láta taka meiri lán?) Það er mjög athyglisvert við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að hann skilur hvorki upp né niður í því sem verið er að tala um. En ég ætla að benda á eitt enn til viðbótar til þess að hv. þm. geti fengið að sjá hvers konar fjárhæðir hér er um að ræða. Þessi viðskiptahalli er jafnhár og öll fjárfesting í íbúðarhúsnæði á Íslandi á árinu 1981. Þetta eru bautasteinarnir fyrir s.l. ár. Þetta eru fjárhæðirnar. Undir þessu er ætlunin að standa með lánum sem á ekki að fara að borga af fyrr en eftir 5 ár eða jafnvel lengri tíma. Ég held að það hefði verið nær fyrir ríkisstj. að huga að þessari hlið mála en standa í slíkum pjattvinnubrögðum sem hér hafa tíðkast að undanförnu. Og það væri hollt fyrir hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að huga að svona atriðum sem skipta verulegu máli, en stunda ekki útúrsnúninga utan úr sal.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það frv. sem hér er til umr. Eins og kom fram í málflutningi mínum áður séum við fulltrúar í 2. minni hl. fjh.- og viðskn. andvígir 1. og 2. gr. frv. um þetta nýja tollafbrigði. Við flytjum brtt. á sérstöku þskj. varðandi launaskattsákvæðið til að ná jöfnuði og taka einmitt tillit til þeirra sjónarmiða sem einn af þm. Framsfl. gerði sérstaklega að umræðuefni í Nd. og í blaðagrein sem ég rakti áðan. Í þriðja lagi erum við andvígir framlengingarákvæðum sérstaks tímabundins innflutningsgjalds samkv. 16. og 17. gr. frv. Það er sett inn undir því yfirskini að það sé stuðningur við íslenskan iðnað, en það er hrein tekjuöflun í ríkissjóð. Það er ekki hugmyndin að láta þetta fé renna til stuðnings íslenskum iðnaði.

Á sérstöku þskj. flytjum við brtt. um launaskattinn og enn fremur brtt. sem varðar heimild fjmrh. til að veita undanþágu varðandi þetta svonefnda tollafgreiðslugjald af vörum sem heimilað hefur verið með öðrum lögum að fella niður aðflutningsgjald af. Það hafa orðið hér nokkur orðaskipti um hvort þessi heimild væri fyrir hendi. Ég vísa til þess, sem þá hefur verið sagt um það, að eins og ákvæðið er orðað í 2. mgr. 2. gr. frv. verður það ekki skilið öðruvísi en undanþágan nái einungis til þeirra vöruflokka sem upp eru taldir í 1. gr. Þess vegna er sjálfsagt, einnig vegna þess að hæstv. fjmrh. óskar eftir að hafa heimild til að fella þetta niður, að það sé tvímælalaust, tekin séu af öll tvímæli um það efni. Sú frvgr., sem við hér gerum ráð fyrir, mundu gera það. Ég tel þess vegna sjálfsagt að deildin taki afstöðu til þess, hvort hún vilji ekki að þessi undanþáguákvæði séu undanbragðalaus.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir afstöðu okkar nm. til þessa frv., en ég hef jafnframt gert að umtalsefni þann voða sem steðjar að íslensku þjóðarbúi, hversu veik staða þess er, hversu glannalega er farið. Ég vil benda á það, að ef menn haga sér þannig í efnahagsmálum, binda sér slíka óráðsíuskuldabagga sem ég hef hér gert grein fyrir, er sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í voða. Ég skora á hv. þm. að hyggja að slíkum málum, og ég skora á ríkisstj. að hyggja að slíkum málum frekar en standa í frekari niðurbútun á því sem ekkert er.