26.02.1982
Efri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

214. mál, framhaldsskólar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um framhaldsskóla og það er ekkert smáræðis frv. Það er ákaflega þýðingarmikið mál og þarf raunar ekki að taka það fram. Það eru komin 8 ár, að ég hygg, síðan sett var nefnd á vegum menntmrn. til að vinna að þessu máli. Ég hygg að það séu komin 6 ár síðan fyrsta frv. kom fyrir Alþingi. Hæstv. ráðh. sagði áðan að fjórum sinnum hafði verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um framhaldsskóla. Og nú er þetta frv. lagt fram.

Ég vil segja það, að mér finnst ekkert óeðlilegt við það, að við fáum að sjá þetta frv. En mér kom nokkuð á óvart það sem hæstv. menntmrh. sagði, að hann gerði ráð fyrir eða óskaði eftir að þetta frv. yrði afgreitt sem lög á þessu þingi. Mér kemur mjög á óvart að svo vandasamt mál og margþætt sem þetta skuli vera lagt fram þegar hefur sigið svo mjög á seinni hluta þessa þings sem raun ber vitni og ekki er komið fram frv. um fjármál skólanna sem hefði þurft að fylgja þessu frv., eins og hæstv. ráðh. benti sjálfur á. Ég hefði haldið að ef hefði átt að vera einhver von til að afgreiða þetta frv. á þessu þingi með skaplegum hætti þannig að það fengi þá meðferð á þingi sem það verðskuldar, svo þýðingarmikið mál, þá hefði þetta mál þurft að koma fram í byrjun þings eða a.m.k. fyrir hátíðar. Ég sagði að ég ætti erfitt með að skilja þetta og þeim mun fremur þar sem ég þekki ekki hæstv. menntmrh. að því að vera neinn flaustrari í þýðingarmiklum málum. Það hefur aðeins skotið upp þeirri hugsun hjá mér, að kannske væri þetta nýtilkomið og einhverjir aðrir aðilar hefðu verið að líta á málið með þeim árangri, að það hafi verið nú lagt fram svo síðla á þingi í þeirri von að það fengi afgreiðslu á þinginu.

Nú hef ég ekkert á móti því, að sett sé rammalöggjöf um framhaldsskóla. Það þarf að sjálfsögðu að gera slíkt. En það er mikil spurning hvernig þau lög eiga að vera í ýmsum efnum. Það er engin tilviljun að 8 ár eru síðan farið var að vinna að þessari frumvarpsgerð. Það er engin tilviljun að 6 ár eru síðan fyrsta frv. var lagt fram. Og það er engin tilviljun að lögð hafa verið fram fjögur frumvörp og nýjar breytingar hafa verið i öllum þessum frumvörpum. Spurningin er: Erum við nú allt í einu komin á leiðarenda? Auðvitað hlýtur að draga að því og ég vona að við séum á réttri leið. Ég vil segja það strax, að mér virðist að þetta frv. sé að ýmsu fremra því síðast var lagt fram.

Hvers vegna þarf að gá svo vel til veðurs í þeim efnum sem hér er um að ræða? Það er af því, sem við erum öll okkur meðvitandi um, hve þýðingarmikil skólamálin og menntunarmálin eru þjóðinni. Í því sambandi er á margt að líta. Ég vil við þessa umr. draga fram nokkrar hugleiðingar í þessu sambandi.

Það verður að leggja áherslu á að skólarnir þjóni þörfum einstaklinga en lúti jafnframt aðstæðum í atvinnu- og þjóðlífi. Til þess að svo megi verða er nauðsyn að stjórnunarvaldi í skólakerfinu sé dreift svo sem nokkur kostur er, þannig að nánustu nágrannar hvers skóla, þeir sem njóta þjónustu hans, og þeir, sem nota hana, hafi sem beinustu stjórnunarleg tengsl við hann. Þegar settar eru reglur um opinbera stofnun eða stofnanir hlýtur ævinlega að vera álitamál hversu nákvæmar reglurnar skull vera, hvort rétt sé að reyna að binda allan rekstur og alla stjórnun stofnunarinnar í einstökum atriðum fyrir fram eða hvort rétt sé að láta reynslu og störf ráða rekstri og stjórnun að mestu, en setja aðeins grófan regluramma er marki stofnun umsvifasvið og komi reglu á helstu tengsl stofnunarinnár við aðra aðila. Því einfaldari, hnitmiðaðri og óbreytilegri sem tilgangur stofnunarinnar er, því áleitnari verður sú tilhneiging að setja henni nákvæmar reglur. Því fer fjarri að tilgangur skóla eða skólakerfisins sé einfaldur, hnitmiðaður og óbreytanlegur. Þvert á móti eru skólarnir með þeim stofnunum hins opinbera sem eru flóknastar, margbreytilegastar og breytanlegastar. Dreifð stýring og þar af leiðandi víðar rammareglur um rekstur, framkvæmd og samskipti við aðra aðila falla því betur að starfi skólanna og skólakerfisins en mjög fastar og bindandi reglur um einstök atriði. Með tilliti til þessa þarf að set ja skólakerfinu, eins og það er í dag, reglur sem kerfið getur starfað eftir, en ekki binda rekstur og framkvæmd í einu og öllu, eins og frv. það, sem við nú ræðum, tvímælalaust stefnir að.

Samkv. almennum stjórnunarlegum rökum ber að gjalda varhug við þessu frv., en að auki má í rekstri fjölbrautaskólanna, sem á síðustu árum hafa verið stofnaðir í tilraunaskyni, finna ýmis sérstök rök er mæla gegn því, að fjölbrautaskólarnir verði einir gerðir að fyrirmynd allra framhaldsskólanna. Námsskrár þessara skóla eru víða enn mjög ófullkomnar og óvíst um örlög nemenda sem þar sækja nám. Og enn er engin sérstök rök að finna er styðji það, að skipulag fjölbrautaskólanna sé það sem best hentar alls staðar við íslenskar aðstæður. Það er engin opinber greinargerð til fyrir þessu efni né heldur hefur nokkurs staðar verið gerð skipuleg tilraun til að gera grein fyrir þeirri reynslu sem þegar hefur fengist hér á landi af fjölbrautaskólum, og voru þeir þó stofnaðir i tilraunaskyni. Reglur, sem settar væru skólakerfinu nú, ættu að vera í víðum lagaramma sem gerði kleifan rekstur framhaldsskóla, sem nú eru starfræktir, í núverandi formi, en miði jafnframt að því, að skólarnir verði skipulega skoðaðir þannig að setja mætti nákvæmari lög án þess að raska þó þeim víða ramma sem nú væri settur. Í slíkum rammalögum ættu að vera almenn ákvæði, svo sem um réttindi nemenda, verkefni nemmtmrn. og fjármál, án þess að skoðaðar séu þar sérstakar aðstæður eða sérstök vandkvæði einstakra skóla, héraða eða tegunda framhaldsnáms. Mikilvægt er að raunverulegar kunnáttukröfur við nám eða við starf að loknu framhaldsskólanámi ráði því, hvað nemendum er kennt í framhaldsskóla og þá jafnframt hvaða réttindi nemendur hafi að framhaldsskólanámi loknu, — og þá jafnframt að þeir, sem taka við nemendum úr framhaldsskóla, ráði sem mestu um það, hvað nemendum er kennt í framhaldsskólunum. Þetta miðar að því að skólinn taki mið af ytri aðstæðum, af því sem gengur og gerist í atvinnulífi og frekara námi.

Í frv., sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að námskröfur og námsefni á hverju sviði séu ákvörðuð af menntmrn. eða beinlínis á vegum þess. Frv. miðar að því að einskorða frumkvæði við rn. og þar með í menntakerfinu sjálfu. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess, að innri viðmiðanir skólakerfisins ráði að mestu ákvörðunum um einstök atriði.

Þá er og mikilvægt að aðferðir við ákvörðun sérgreinds námsefnis séu líklegar til að sneiða hjá blindgötu í námsskipulagi og námsvali. En frv. lofar ekki góðu í þeim efnum. Í fjölbrautaskólunum, sem nú starfa, hefur það borið við, að stofnað hefur verið til sérgreinds náms án samráðs við atvinnulífið og án þess að tryggt sé að nemendur geti fengið nokkur réttindi að námi loknu. Blindgötur gagnvart atvinnulífi eða gagnvart frekara námi eru miklu alvarlegri en blindgötur innan framhaldsskólanna sjálfra. Úr hinum síðari vandræðum geta skólarnir auðveldlega ráðið sjálfir, einkum ef þeir hafa hæfilega frjálsar hendur um daglega framkvæmd. Á vissum sviðum kann sá sveigjanleiki, sem einingaskipting námsins gefur, að vera eftirsóknarverður einmitt til að leysa slík vandræði innan skólanna. Þó er einingaskiptingin alls ekki nauðsynleg forsenda þess, að slík vandamál verði leyst. Þaðan af síður er einingaskiptingin í sjálfu sér og ein nokkur lausn á þessu vandamáli.

Verkefni menntmrn., sem varða framhaldsskólana, má greina eftir tveim meginsjónarmiðum: annars vegar að rn. séu aðeins fengin verkefni sem það veldur, svo fáliðið sem það er, en hins vegar að því sé falin sérstök umsjón með því námsefni í grunngreinum sem öllum ætti að vera sameiginlegt. Það er greinilegt, að til eftirlits með framkvæmd eftir settum reglum þarf minni umsvif en til frumkvæðis um framkvæmd í þessu efni. Rn. getur greinilega ekki af eigin rammleik gert öllum nauðsynlegum eða æskilegum námsbrautum framhaldsskólanna nægileg eða sæmileg skil frá grunni, þótt það gæti vel lítið eftir því, að settum reglum sé framfylgt. það eru nokkrar námsgreinar, fremur fáar, sem eru grundvöllur þess, að menn geti með eðlilegum hætti tekið þátt i þjóðlífi eða nýtt sér það sem í þjóðlífinu er á boðstólum. Þar sem þessar greinar ættu að ná til allra og vera sameiginlegur grunnur alls náms er eðlilegt að einn aðili hafi forsjá þeirra á hendi, enda eru þær svo fáar að einn aðili getur þetta vel. Jafnframt þarf rn. að koma á, halda við og greiða fyrir sambandi milli skólastiga. Á þetta hefur mjög skort. Skólastigin þrjú hafa að mestu verið ein um sín mál og horft í eigin barm. Eins hefur skólunum verið skipt formlega eftir skólastigum. Vafalaust er þetta eðlilegt í ýmsu tilliti þar sem skólastigin fylgja nokkuð eðlilegri skiptingu á þroska nemenda. En þótt þannig sé eðlilegt að mismunandi viðmiðun sé höfð á skólastigunum þremur er hitt fráleitt, að skólarnir skuli ekki hafa nein samskipti milli skólastiga. Þessi skortur á eðlilegu sambandi milli skólastiga er án efa ein meginorsök þess, að nú þykir nauðsyn að löggjafinn láti framhaldsskólana sérstaklega til sín taka.

Framhaldsskólarnir hafa vegna sambandsleysis við hin skólastigin tvö hvorki getað lagað sig að breytingunum, sem orðið hafa á grunnskólunum, né heldur skilað eigin breytingum upp á háskólastig. Löggjafinn ætti vafalaust fyrst og fremst að huga að skólakerfinu í heild og við það ætti hann einkum að horfa til þess, að mismunandi starfseiningar gefi gengið saman að verki og gert það í raun.

Herra forseti. Ég hef komið hér með nokkrar hugleiðingar sem mér þótti rétt að setja fram sem almennar athugasemdir við þessa umr. Í almennum hugleiðingum hefði verið eðlilegt að taka eitt veigamikið atriði sem ég hef ekki komið að, og það eru fjármál framhaldsskólanna. En mér þykir ekki ástæða núna til að ræða það mál ítarlega með tilliti til þess, sem hæstv. menntmrh. sagði áðan, að það er frá hans hendi von á frv. um heildarlöggjöf um skólakostnað. Það væri ástæða einnig til að víkja að fleiri grundvallaratriðum sem hljóta að koma inn í þessa umr., en ég skal ekki gera það á þessu stigi málsins. Það er reyndar svo, að það vakna ákaflega margar spurningar varðandi þetta mál og varðandi það sem gerst hefur frá því að síðasta frv. var lagt fram. Þá hafði verið leitað umsagna margra og þýðingarmikilla aðila.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort nú, þegar þetta frv. var samið og er lagt fram, hafi á ný verið leitað umsagnar þessara aðila. Ég spyr ekki að þessu að ástæðulausu. Ég spyr að því vegna þess, að þróunin er ör í þessum málum og viðhorf breytast skjótt. Þó að lögð hafi verið fram umsögn fyrir 3–4 árum, kann nú að vera ástæða til að leita eftir nýrri umsögn, jafnvel frá sömu aðilum. Auk þess hygg ég að það sé rétt hjá mér, að sumir aðilar hafi 1978 óskað eftir að fá að tjá sig frekar um þetta mál en þeir gerðu þá eða höfðu gert þegar frv. var lagt fram. Í þessu sambandi leyfi ég mér að spyrja sérstaklega hvort núna hafi verið leitað umsagnar Háskóla Íslands. Ég spyr hæstv. ráðh. líka um það, hvort við samningu þessa frv. eða við undirbúning að því hafi verið leitað umsagnar samstarfsnefndar framhaldsskóla.

Þá leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh., af því að það varðar mjög þetta mál, hvað líði meðferð á þál. sem samþykki var 19. maí 1981 um athugun á því, hver áhrif breytingar á skólahaldi hafi haft á árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum. Þessi þáltill. var flutt af hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, Halldóri Blöndal og Steinþóri Gestssyni á sínum tíma, fékk hinar bestu undirtektir í þingi og var samþykkt fyrir nálega einu ári. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur sú könnun, sem þarna var gert ráð fyrir, verið gerð? Í þessari þá. segir að Alþingi fell menntmrn. að kanna eða láta kanna svo sem enn er frekast kostur hver áhrif nýlegra breytinga á skólahaldi og skipulagi skóla hafi orðið á ástundun og árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum.

Í raun og veru eru fjölmargar aðrar spurningar sem koma upp í huga mér. En einhvers staðar verður að láta staðar númið, og ég vil fyrst fá svör við þeim veigamiklu spurningum sem ég tel mig hafa borið fram nú þegar. Það er svo sem freistandi að spyrja um ýmsar breytingar sem hafa orðið frá frv. sem lagt var fram 1978. Um sumar breytingarnar er mér ekki algerlega ljóst hvaða ástæður eru fyrir þeim. Það mætti t.d. spyrja að því, hver sé ástæðan til að með þessu frv. eru felldir út úr framhaldsskólakerfinu skólar eins og Leiklistarskóli Íslands og Myndlista- og handíðaskóli Íslands, um leið og teknar eru inn í frv. fávitastofnanir og Samvinnuskólinn. Þetta er e.t.v. ekki ein af erfiðustu spurningunum sem um er að ræða, og ég þykist vita að hæstv. ráðh. eigi gott með að skýra þetta. En mér finnst skýringin ekki liggja á borðinu. Þannig gæti ég, eins og ég sagði áðan, komið með fleiri spurningar, en ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi.

Ég vil aðeins ítreka það, að skoðun mín er sú, að það sé nauðsynlegt að setja heildarlöggjöf um framhaldsskóla, rammalöggjöf í þeim anda sem ég hef komið nokkuð inn á í hugleiðingum mínum. Þegar ég segi að það þurfi að gjalda varhug við þessu frv., þá á ég ekki við að við eigum ekki að setja löggjöf um þetta efni, heldur að við eigum að freista þess að bæta frv., halda áfram á þeirri braut, sem farin hefur verið frá því að fyrsta frv. var lagt fram á Alþingi, og vita hvort okkur gæti ekki miðað eitthvað betur áfram í rétta átt. Ég hygg að allar breytingar fram að þessu — ég vil ekki segja undantekningarlaust — hafi verið til hins betra og svo sé um veigamestu breytingarnar í þessu frv.. að þær séu til bóta frá fyrra frv. En ef við ættum okkur að afgreiða þetta mál svo vel sem vert er, þá óttast ég að það sé of skammur tími til stefnu, vegna þess hve frv. er seint lagt fram og vegna þess að fylgifrv. þess, eins og hæstv. menntmrh. gat um, frv. um heildarlöggjöf um skólakostnað, er ekki enn farið að sjá dagsins ljós.