26.02.1982
Efri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

214. mál, framhaldsskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti.

Hv. 4. landsk. þm. ýjaði nú enn rækilega að fjármagnshliðinni, og ég get mætavel skilið að hv. þm. geri það því að þetta er — ég viðurkenni það fúslega — mjög stórt mál. Ég sagði í upphafi ræðu minnar í dag, að ég hefði reynt að vinna mjög að því að ná fram samkomulagi allra þeirra sem um þetta fjalla, til þess að ég gæti flutt samhliða framhaldsskólafrv. einnig frv. að lagabálki um skólakostnaðarlög. Það er búið að vinna ákaflega mikið að þessu, og í raun og veru hef ég talsvert ítarleg drög að slíku frv. á borði hjá mér. Eins og ég sagði er þetta til umfjöllunar í ríkisstj., og ég geri mér nokkrar vonir um að þetta mál kunni að takast að leggja fram á þessu þingi. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, vegna þess að ég veit að hv. 4. landsk. þm. lætur sig sveitarstjórnarmál mjög miklu skipta og hefur unnið lengi í þeim efnum, að ég hef þau misseri, sem ég hef verið á ráðherrastóli, einmitt í þessu tilliti reynt að hafa sem allra nánast samstarf við sveitarfélögin um þetta efni. Ég vil fullvissa hv. þm. um það, að ég hef enga löngun til að ríkið fari á neinn hátt að hlunnfara sveitarfélögin í samskiptum og í samrekstri um skólana. Ég held að það mundi hefna sín, ef eitthvað slíkt gerist. Ég held að það sé ekki skynsamleg stefna af neinum ráðh. að ætla sér að vinna verulega í óþökk sveitarfélaganna og gegn vilja þeirra, heldur verði ríkisvaldið og sveitarfélögin að koma sér sem allra best saman um þau verkefni sem þau taka að sér að sjá um. Þetta er mín persónulega stefna og hana reyni ég að knýja fram eftir því sem mér er unnt. En hinu er ekki að leyna, að þetta mál hefur náttúrlega orðið talsvert mikið umræðuefni innan ríkisstj. og er þar enn til meðferðar. En ég vona að það verði hægt að sýna þetta frv. og þá einmitt þannig að góð samráð og eðlileg hafi átt sér stað við samtök íslenskra sveitarfélaga áður en það verður lagt fram. Ég legg mjög mikið upp úr því.

Hins vegar er ég ekki alveg eins sammála hv. 4. landsk. þm. um það — og reyndar ekki hv. 3. landsk. þm. heldur, að það sé ekki möguleiki á að samþykkja framhaldskólalögin sem rammalög án þess að kaflinn um fjármál sé ítarlega tekinn til endurskoðunar, því að það verður að átta sig á að þrátt fyrir allt gilda skólakostnaðarlög í landinu.Þau eru í gildi, en þau eru vissulega dreifð og þau eru að sumu leyti í andstöðu við frv. sjálft, það viðurkenni ég. En allt slíkt getur staðið til bóta.

Það atriði, sem ég legg mest upp úr, er að það fáist raunverulegur lagagrundvöllur undir þá víðtæku breytingu sem nú er verið að gera á skólakerfinu og segja má að skólamenn og sveitarstjórnarmenn og ríkisvaldið hafi nokkurn veginn sæst á og orðið sammála um að framkvæma. Þetta hefur að verulegu leyti verið drifið áfram á grundvelli laganna um fjölbrautaskóla, og ég er sammála hv. 4. þm. Vestf. um að við getum ekki haft fjölbrautaskólana sem hina aleinu fyrirmynd að framhaldsskólakerfinu í framtíðinni. Það getum við ekki gert. Vil ég þó alls ekki gera lítið úr því, hver árangur hefur orðið í ýmsum fjölbrautaskólum. Ég held að árangurinn þar hafi á margan hátt orðið góður. Fjölbrautaskólarnir hafa óneitanlega opnað mjög leiðir fyrir ungt fólk til náms, eins og hv. 4. landsk. þm. benti mjög ítarlega á. Það er einmitt kosturinn við þetta frv. og þá skólamálastefnu sem rekin hefur verið í anda þessa frv. undanfarin ár, að þetta hefur opnað fleiri unglingum leiðir en áður var. Menn eiga greiðari leiðir til náms en áður var. Þetta er auðvitað höfuðkosturinn og réttlætismál sem við getum ekki horft fram hjá.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það er á vissan hátt dálítið vafasamt atriði að hafa ekki jafnframt þessu frv. gengið fullkomlega frá fjármagnshliðinni. Ég neita því ekki. Hins vegar fannst mér töfin á því að leggja fram þetta frv. til umr. orðin svo löng að rétt væri að freista þess að gera það. Eigi að síður hef ég í huga að halda áfram umræðum um skólakostnaðarlagafrv. og gera mitt besta til að það verði sýnt á þessu þingi.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta núna. Við höfum rætt málið allítarlega, við sem hér höfum tekið þátt í umr., og ég veit ekki hvort ég á að bæta miklu við það sem fram hefur komið, sé ekki ástæðu til þess. Ég ítreka hins vegar að ég vænti þess, að frv. gangi nú til nefndar. Og ég undirstrika það, að ég ætlast ekki til að hv. menntmn. vinni á neinn hátt svo óðslega að hún gefi sér ekki tíma til að kynna sér allar hliðar málsins og kynna það eins og nefndinni þykir eðlilegt. Samt sem áður vil ég nefna það, að þetta mál hefur verið rækilega kynnt nú þegar. Það hefur verið mjög rækilega rætt undanfarin sex ár og umsagnir hafa borist um meginstefnu þess frá fjöldamörgum aðilum í landinu. Ég er því þrátt fyrir allt þeirrar skoðunar, að það sé óþarfi að senda það svo vítt til umsagnar sem áður hefur verið eða hafa umræður eins víðtækar og þær voru á fyrstu stigum málsins fyrir 5–6 árum eða svo.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að málið gangi til. hv. menntmn. þegar umr. er lokið.