26.02.1982
Neðri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem þegar hefur verið rætt nokkuð í hv. deild. Er því óþarfi að lýsa því nákvæmlega nú við þessa framhaldsumræðu, en rekja má þrjá meginþætti í frv.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að „samkeppnisnefnd“ í lögunum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti falli niður, en í staðinn verði sett á laggirnar þriggja manna nefnd verðlagsstjóra og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv., að 8. gr. laganna um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti breytist lítils háttar, en þó hvergi nærri í það horf sem sú grein var í þegar lögin voru samþykki á Alþingi vorið 1978.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í frv. að herða reglur um skil og viðurlög vegna verðútreikninga.

Það er áhorfsmál, hvort það sé rétt stefna sem kemur fram við skipun hinnar svokölluðu þriggja manna nefndar í þessu frv., hvort taka eigi svo mikið tillit til aðila vinnumarkaðarins sem þar er ráð fyrir gert. En slíkt sýnist staðfesta þá trú sem menn hafa haft hingað til, að verðlagsmál á Íslandi séu fyrst og fremst eftirlit með vísitólum en ekki raunhæft verðlagseftirlit.

Í þessu sambandi má benda á mál sem um hefur verið skrifað í blöð að undanförnu, þar sem eigast við keppinautar á sviði ferðamála. annars vegar Útsýn. sem er einkafyrirtæki, og Landsýn, sem er fyrirtæki í eigu samvinnufélaga og verkalýðsfélaga, um tilboð á utanlandsferðum. Þingmenn hafa fengið bréf frá fyrrnefnda fyrirtækinu þar sem segir svo m.a., með leyfi forseta: „Í öðru lagi óskast rannsókn á því, hvort svonefndur aðildarafsláttur Samvinnuferða-Landsýnar sé að einhverju eða öllu leyti greiddur úr sjóðum launþega, og ef svo er, hvort launþegar, er greiða í orlofssjóði, sem jafnframt eru lögum samkvæmt fjármagnaðir af atvinnurekendum, eigi þess kost að nota slíkan ferðastyrk úr orlofssjóði til ferðar með annarri ferðaskrifstofu en Samvinnuferðum Landsýn, eða hvort sú ferðaskrifstofa sé á einhvern hátt ríkisstyrkt eða vernduð sérstaklega til að veita launþegum slíka fyrirgreiðslu. Sé um hvorugt að ræða, hverjir greiða þá hinn svonefnda aðildarfélagsafslátt? Komi þetta fjármagn ekki einhvers staðar að í formi beinna fjárframlaga er hér um auglýsingablekkingu að ræða og upphaflegt verð hefur verið ofreiknað í því skyni að veita falsaðan afslátt. Í því tilfelli óskast kannað hvort hér sé einnig um brot að ræða á lögum um viðskiptahætti og samkeppnishömlur.

Þar eð hæstv. Alþingi fjallar þessa dagana um frv. um viðskiptahætti og samkeppnishömlur leyfi ég mér að vekja athygli yðar á máli þessu.“ — Undir þetta bréf ritar Ingólfur Guðbrandsson forstjóri Útsýnar.

Auðvitað er hér á ferðinni mál sem snertir ekki Alþingi beint, en með óbeinum hætti þó þegar rætt er um verðlagseftirlit og eftirlit með ólögmætum viðskiptaháttum, ekki síst vegna þess, að samkv. þessu frv. situr í þriggja manna nefndinni, sem kemur í stað samkeppnisnefndarinnar, fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar sem á að hafa eftirlit með verðlagi í landinu, en ég tel að sé þarna fyrst og fremst til þess að taka þátt í hinum margrómaða og margumtalaða vísitöluleik.

Þetta bréf er athyglisvert og sýnir að oft er langt seilst í samkeppni á milli fyrirtækja. Væri vissulega fróðlegt að heyra, ef hæstv. ráðh. talar síðar í þessari umr., hvaða álit hann hefur á slíkum boðum eins og koma fram hjá því fyrirtæki sem hér um ræðir. Það skal hins vegar tekið fram, að með því að taka þetta mál hér upp á hinu háa Alþingi er ekki verið að fella neinn dóm í þessu máli, heldur bara benda á hvers konar mál getur borið fyrir svokallaða þriggja manna nefnd og Verðlagsstofnunina. Það væri vissulega þess virði að spyrjast fyrir um það vegna skýringar á sjálfu frv., hvert sé álit hæstv. ráðh. á þessu máli, sem ég veit að hann er gjörkunnugur eins og aðrir hv. alþm.

Við höfum, fimm hv. þm. Sjálfstfl., leyft okkur að gera brtt. við það frv. sem hér er til umr. Þær brtt. eru á þskj. 375 og í örstuttu máli má segja að þær séu þess efnis að færa 8. gr. og 12. gr. laganna um verðlag og samkeppnishömlur til upphaflegs horfs, til sama horfs og hæstv. viðskrh. greiddi atkv. með þegar hann sat á þingi vorið 1978. Sú ríkisstj., sem þá sat, lagði fram það frv. og það var samþykki bæði af Sjálfstfl. og Framsfl.

Hér er um að ræða fortakslaust ákvæði í 8. gr., þar sem segir að verðlagning skuli vera frjáls þegar um næga samkeppni sé að ræða. Það viðhorf, sem kemur fram í brtt. okkar sjálfstæðismanna, er byggt á margyfirlýstri stefnu Sjálfstfl. sem enginn ágreiningur er um innan flokksins og undirstrikuð var rækilega á síðasta landsfundi hans. Á það var bent réttilega, bæði af þeim, sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., og eins af hinum, sem eru í andstöðu við hæstv. ríkisstj., að enginn ágreiningur er innan flokksins um þetta mál.

Hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, gerði glögga grein fyrir sjónarmiðum sjálfstæðismanna þegar umræður hófust um þetta mál fyrr í þessum mánuði. Þá var á það bent í umræðum, að allar breytingar á skipan mála í átt til meira frjálsræðis væru af hinu góða. En það, sem auðvitað skiptir langmestu máli í þessu máli — eins og reyndar mörgum öðrum málum — er að framkvæmdin dragi dám af þeirri tilætlan sem kom m.a. fram i framsöguræðu hæstv. viðskrh., þ.e. að leitast við að efla samkerfis en verið hefur hér undanfarin ár.

Sem það hefur verið í mörg undanfarin ár.

Það er óþarfi að rifja upp í löngu máli forsögu þessa máls. Eins og flestir hv. alþm. vita náðist ekki á sínum tíma, árið 1969, fram hið svokallaða Sonne-frv. vegna afstöðu eins af ráðh. Alþfl. En gera má ráð fyrir að Alþfl. sé nú einhuga í afstöðu sinni til frjálsara verðmyndunarkerfis en verið hefur hér um undanfarin ár.

Þegar frv. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti var til umr. á sínum tíma hér á hv. Alþingi talaði fyrir nál, í Ed. hv. þm. Jón Helgason, 3. þm. Suðurl. og núv. forseti Sþ. Í ræðu sinni sagði hann, með leyfi forseta, m.a.:

„Það á að reyna að fá fram þá kosti sem frjáls samkeppni um verðmyndun kann að geta skapað, án þess að taka þá áhættu að afleiðingin verði gagnstæð, því að með öflugu eftirliti á að fylgjast með verðlagsþróuninni og grípa í taumana ef ástæða verður til. Það er því alger firra að halda því fram, að með þessu frv. sé stefnt að því að gefa kaupsýslumönnum og milliliðum tækifæri til að skammta sér laun. Það á að gefa þeim tækifæri til að sýna kosti frjálsrar samkeppni fyrir neytandann, en misnoti þeir það hefur verðlagsráð víðtækar heimildir til aðgerða.“

Hér lýkur tilvitnun í framsöguræðu frsm. fjh.- og viðskn. Ed. vorið 1978, en það var hv. 3. þm. Suðurl. Með þessum orðum hefur hv. 3. hm. Suðurl. tekið undir þann málflutning sem korn fram hjá hv. 1. þm. Reykv. í umr. sem urðu hér fyrr um þetta mál. Vil ég taka undir þessi ummæli. En þau verða auðvitað dálítið sérkennileg þegar til þess er horft, að ekki er nú tekin ákvörðun um að færa lögin til hins upprunalega búnings.

Haustið 1978 varð núv. hæstv. félmrh. viðskrh. í stjórn Ólafs Jóhannessonar. Hinn 25. okt. það sama haust flutti hann ræðu á Alþingi og sagði þá m.a., með leyfi forseta: „Það eru fleiri ástæður en tímafrekur undirbúningur sem leiða til þess, að lengja verður gildistökufrest þessara laga. Í samstarfsyfirlýsingu þeirra stjórnmálaflokka, sem mynda núv. ríkisstj.“— ég skýt því inn í, að það er ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar — „er kveðið á um að gildistöku 8. gr. laganna skuli frestað.“ Og ég skýt hér enn inn í og endurtek: frestað. „Þá hefur athyglin beinst undanfarið að innflutningsversluninni vegna óeðlilega hás innkaupsverðs. Fer nú fram sérstök rannsókn á starfsháttum innflutningsverslunarinnar af þessu tilefni. Kann að reynast nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum í samræmi við niðurstöðu rannsóknarinnar. Enn fremur verður til athugunar hvort aðrar lagfæringar ber að gera á lögunum, t.d. á 8. gr. þeirra.“

Þegar Ólafslög svokölluð, lög nr. 13 frá 1979, voru samþykkt kom afstaða Þjóðviljans, málgagns hæstv. félmrh., í ljós. Þar sagði þá í leiðara m.a., með leyfi forseta: „Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir að frjáls álagning yrði grundvallarregla í viðskiptalífinu. En því hefur nú fyrir tilstilli Alþb. verið umsnúið á þann veg, að sú regla er nú í fyrsta sinn numin á brott úr íslenskum lögum og íhlutunarréttur og úrslitavald Verðlagsstofnunar og ríkisstj. í verðlagsmálum skýlaust viðurkennt.“

Þessi viðhorf voru ítrekuð af hæstv. félmrh. við umr. sem fóru fram fyrir nokkrum dögum. Sýnir það hverjir það eru sem telja sig hafa tögl og hagldir í núv. hæstv. ríkisstj. Mér er nefnilega ljóst að hæstv. viðskrh. er allt annarrar skoðunar en hæstv. félmrh., og hann hefur margoft gefið yfirlýsingar í þá átt, að hann telji að frjálst verðmyndunarkerfi sé af hinu góða.

Þegar nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. fluttu frv. til breytinga á þessum lögum sem gengur í nákvæmlega sömu átt og brtt. okkar sjálfstæðismanna nú, flutti hæstv. viðskrh. Tómas Árnason ræðu í Ed. og sagði þá m.a., með leyfi forseta: „Ég fer ekkert leynt með það, enda leggur það fyrir í skjölum Alþingis, að ég var á sínum tíma fylgismaður hinna nýju verðlagslaga sem sett voru í maímánuði 1978, og ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum síðan. Hins vegar er það annað sem við verðum auðvitað allir að hafa í huga, og það er að við lifum við samsteypustjórnarfyrirkomulag. Við verðum að gera það upp við okkur þegar við tökum þátt í stjórnarsamstarfi, hvað það er af stefnumálum okkar sem við viljum gefa eftir til að ná fram öðru sem við teljum þá e.t.v. meira virði. Ástæðan fyrir því, að ég stóð að breytingu á verðlagslögunum á árinu 1979, var sú, að það var liður í stjórnarsamstarfi sem ég átti þátt í. Það er sú skýring sem ég gef á afstöðu minni þá.“

Þetta voru sjónarmið hæstv. ráðh. Tómasar Árnasonar þegar hann sat í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. En allir vita að nú situr hæstv. viðskrh. í annarri ríkisstj. og í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstj. mátti lesa allt annað um þennan málaflokk heldur en ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hafði komið sér saman um.

Í raun gæti ég lesið upp margar fleiri ræður eftir hæstv. viðskrh. og rifjað upp fyrir honum, eins og full ástæða er til, hver afstaða hans hefur verið til þessara mála. Nægir að nefna í því sambandi ræðu sem hann flutti t.d. á aðalfundi Verslunarráðsins árið 1980 um þessi mál. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem þar komu fram, en óþarfi er að lesa þau upp, svo augljóslega hefur hæstv. viðskrh. gefið í skyn og sagt fullum fetum hver hans sjónarmið eru i þessu máli.

Ég minntist áðan á stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. og vil rifja það jafnframt upp, að á það var lögð áhersla af ýmsum þeim sem sitja nú í þeirri hæstv. ríkisstj.. að í kaflanum í málefnasamningnum, 4. tölul.. segir m.a. að unnið verði að lækkun vöruverðs. Svo kemur orðrétt, með leyfi forseta: „Að hin nýju verðlagslög komi til framkvæmda undir eftirliti verðlagsráðs, sem fái bætta aðstöðu til að gegna hlutverki sínu.“ Þetta rifja ég upp vegna þess að með þessu orðalagi var fyllilega gefið í skyn að núv. hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að breyta lögum þannig, að gömlu lögin um verðlag og samkeppnishömlur yrðu óbreytt eins og þau voru samþykkt á Alþingi á sínum tíma. Samkv. orðanna hljóðan er ekki nokkur vegur að skilja þessi ummæli stjórnarsáttmálans með öðrum hætti. Og þess má geta, að hér var reyndar jafnframt um að ræða eina af helstu og bestu rósum í hnappagati þeirra sjálfstæðismanna sem tóku þátt í þessari hæstv. ríkisstj., því að þeir hældu sér af því að hafa komið þessu til leiðar í málefnasamningnum.

Hins vegar er í því frv., sem hér liggur fyrir, ekki lengur vitnað til málefnasamningsins. Nú er vitnað til nýju efnahagsskýrslunnar eða „þorrabakkans“ sem svo hefur verið kallaður, og er sagt frá honum í athugasemdum. Þess vegna er full ástæða til að spyrja hæstv. viðskrh.: Er ákvæðið í stjórnarsáttmálanum niður fallið, eða hefur stjórnarsáttmálinn alls ekki lengur gildi allur, eins og sumir virðast nú álita, því að lítið er til hans vitnað á undanförnum árum?

Það mætti líka spyrja að því, hvort Alþb. hafi aldrei samþykkt þennan stjórnarsáttmála, því Alþb.-menn tala nú þvert á þau orð sem koma skýrt fram í málefnasamningnum. Eða hafa hæstv. ráðh. Sjálfstfl. og Framsfl. skipt um skoðun í þessu máli? Þeir greiddu allir frv. atkv. sitt vorið 1978, eins og hér hefur áður verið rakið.

Hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh. gerðu báðir að umtalsefni könnun Verðlagsstofnunar á sínum tíma, sem var mikið til umræðu 1979 og 1980, og ræddu þá skýrslu í löngu máli. Það er ljóst að þær umr. leiddu nokkur atriði mjög skýrt í ljós. Við ég í fyrsta lagi benda á að það kom fram í þeim umr., að álagning, sem leyfð er á Íslandi, er lægri en sem nemur dreifingarkostnaði á þeim tíma, í öðru lagi, að verðlagseftirlit á Íslandi er eftirlit með reiknitölum vísitölunnar, en ekki til að tryggja neytendum lágt vöruverð, í þriðja lagi, að verðlagshömlur á Íslandi leyfa ekki hagkvæm innkaup án þess að innflytjandinn tapi á þeim, í fjórða lagi, að verðlagskerfið hefur leitt til hærra vöruverðs og þannig skaðað neytendur, í fimmta lagi, að sú verðhaftastefna, sem þá ríkti og ríkir að nokkru leyti enn, hefur skert lífskjörin hér á landi, og í sjötta lagi hafa verðlagshömlur gert verslunarfólk á Íslandi að einni lægst launuðu stétt landsins.

Þetta, sem ég hef nú rifjað upp, það er það sem kom helst út úr umr. um þá skýrslu sem Verðlagsstofnun lét gera á sínum tíma.

Í umr. hér um daginn sagði hæstv. viðskrh. m.a., með leyfi forseta: „Hið opinbera verðmyndunarkerfi hefur í ýmsum tilvikum þjappað saman einstaklingum úr einstökum starfsgreinum til að þrýsta sameiginlega á um hækkun verðtaxta og dregið þannig úr samkeppni. Reynsla yfirvalda er sú, að kröfur þessara hópa um verðhækkanir miðist gjarnan við að rekstur, sem er lakari en í meðallagi, geti starfað áfram án tillits til þess, hvort það er þjóðhagslega æskilegt. Hér hefur vantað hvatningu til hagkvæms rekstrar og góða stjórnun fyrirtækja.“

Síðar sagði hæstv. viðskrh.: „Hin ströngu verðlagsákvæði hafa slævt verðskyn neytenda. Neytendur telja, að hið opinbera verðlagseftirlit verndi þá betur en það í raun gerir, og halda því ekki vöku sinni sem skyldi. Neytendur hafa að vissu marki trú á hinum opinbera stimpli. Það þarf mikinn fjölda, allt að því herskara eftirlitsmanna til að tryggja að hinni opinberu álagningu sé fylgt í reynd.“

Og enn síðar sagði hæstv. ráðh.: „Stefnumörkun ríkisstj. um að draga úr beinum opinberum afskiptum af verðlaginu og það frv., sem hér hefur verið lagt fram, eru veigamiklir þættir í að koma hinni breyttu skipan á, en það þarf ekki síður að hyggja að sjálfri framkvæmd laganna.“

Ég vil taka undir öll þessi atriði sem hæstv. ráðh. lét koma fram í þeim orðum sem ég hef vitnað til í hans ræðu. En spyrja má þeirrar spurningar í framhaldi af því: Hvers vegna beitti hæstv. viðskrh. sér ekki fyrir því að fara að þeim sjónarmiðum sem hann telur að séu best í þessu máli, en það er að hafa frjálsa verðlagningu þar sem samkeppni er næg? Þessari spurningu hefur hæstv. ráðh. ekki svarað nægilega skýrt.

Hæstv. ráðh. lýsti því í sinni ræðu, að erfitt væri að koma við frjálsri verðlagningu vegna hinnar miklu verðbólgu hér á landi, og sagði að þess vegna væri ástæða til að feta brautina í átt til sveigjanlegra verðlagskerfis. Þetta atriði hefur margoft komið fram í umr. um verðlagsmál og ýmsir hafa gripið til þess ráðs að segja: Því miður, við getum ekki haft sama verðlagskerfi og gengur og gerist í nágrannalöndum, því að hér á landi er svo mikil verðbólga.

Um þetta fjallaði á sínum tíma Ólafur Davíðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar, og hann sagði á fundi, sem haldinn var hér í bænum fyrir rúmu ári, þegar hann var spurður að því, hvort verðbólga kæmi í veg fyrir að verðlagskerfinu væri breytt í frjálslegra horf, með leyfi forseta:

„Það er ekki margt sem bendir til þess, að breytingar hefðu afgerandi áhrif á verðlagsþróunina. Það færi að vísu eftir því, í hvaða efnahagsástandi það gerðist. Kerfið hefur e.t.v. reyrt menn fasta i ákveðið mót og það tæki sennilega tíma að aðlagast breytingum í þessum efnum. En ég hef þó ekki trú á að kerfið rígbindi menn þannig að ekkert svigrúm sé til breytinga“.

Í þessum orðum Ólafs Davíðssonar, sem er einn af helstu sérfræðingum ríkisstj. í þessum málum og öðrum, kemur glögglega fram að í raun og veru er ekkert samband á milli frjálsrar verðlagningar þar sem samkeppni er næg og verðbólgunnar hins vegar. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu það að allt annað er ósatt og sannast best á því, að þegar verðlagshöft hafa verið mest hér á landi og jafnvel verðstöðvun, og þá verðstöðvun jafnvel í einum, tveimur, tvennum eða þrennum lögum, þá hefur verðlag hækkað langsamlega mest. Þess vegna mætti miklu fremur halda því fram, að það væri beint samband á milli fjölda þeirra laga, sem fjalla um verðstöðvun hér á landi, og verðbólgunnar: Því fleiri verðstöðvunarmörk, þeim mun meiri verðbólga. Auðvitað er það ekki mín skoðun, því að það vita allir, sem eitthvað nenna að setja sig inn í þetta mál, að þarna er ekki um samband að ræða. Það, sem skiptir máli, er að samkeppni sé næg. Það er hún sem leiðir til lægra vöruverðs. Það er hún sem gerir neytandann að herranum í þessu máli. Og það er hún sem lækkar vöruverðið öllum til góða.

Ég ætla ekki frekar að vitna til ræðu hæstv. viðskrh. Ég veit að í hjarta sínu vill hann standa við og stendur við þá skoðun sína sem fram kom í atkv. hans vorið 1978, þótt af einhverjum einkennilegum ástæðum, sem hann þorir ekki að viðurkenna telji hann núna að þetta sé það besta sem hægt sé að gera, þvert á þann stjórnmálasáttmála sem núv. ríkisstj. starfa eftir.

Hæstv. félmrh. og fyrrv. viðskrh. flutti ræðu fyrr þegar þetta mál var til umr. hér í hv. deild og fór auðvitað vítt og breitt í málinu, eins og hans er vandi, og hrópaði gamlar fullyrðingar í þessum málum sem sýnir það eitt að Alþb. hefur ekkert lært í þessum málum, þótt hann viðurkenni að vísu að það væri óþarfi að hafa verðstöðvunarlög enn þá í gildi. Ég óska hæstv. félmrh. til hamingju með að hafa rekið augun í að verðbólgan geisar áfram þrátt fyrir verðstöðvunarlögin. Að öðru leyti var hann með gamlar lummur sem óþarfi er að fara út í eða rökræða. En það er eitt atriði, sem kom fram í ræðu hans, sem ég held að sé ástæða til að leggja nokkra áherslu á.

Hann fjallaði um innkaup á vörum með opinberri íhlutun og sagði m.a. með leyfi forseta: „Hæstv. fjmrh. hefur farið þess á leit við Innkaupastofnun ríkisins, að hún kanni þetta mál alveg sérstaklega, og sú könnun hefur verið í gangi nú nokkra hríð. Við teljum að með þessu móti mætti jafnvel veita innflutningsversluninni hér verulegt aðhald og tryggja það, að vöruinnflutningur á stórum og þýðingarmiklum neysluvörum hér í landinu verði hagkvæmari en verið hefur.“ Síðan sagði hann, að þetta væri nauðsynlegt vegna þess að reynslan sýndi að innflutningsverslunin á Íslandi væri baggi á þjóðarbúinu, og hélt áfram í þessum dúr.

Þetta voru athyglisverðar upplýsingar, sem komu fram hjá hæstv. félmrh., og nú er ástæða til að spyrja hæstv. viðskrh.: Vissi hann af þessu? Veit hann um það sem hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. eru að bauka í þessum málum? Er það kannske hæstv. ríkisstj. sem hefur komið sér saman um að efna til opinberra innkaupa með þessum hætti? Þetta kom ekki fram í síðari ræðu hæstv. viðskrh. þegar þetta mál var fyrr til umr., en það væri vissulega þess virði að fá hann til að svara því skýrt og skorinort, hvort hér sé verið að fylgja stefnu hans og annarra aðila í hæstv. ríkisstj., og þar á ég við hæstv. ráðh. úr röðum sjálfstæðismanna.

Hæstv. viðskrh. tók nefnilega aftur til máls, fyrr þegar þetta mál var til meðferðar, og nefndi þá ekki opinberu innkaupin einu einasta orði. Hann fjallaði þar aðallega um niðurtalningu og reyndi að bera blak af þeirri stefnu framsóknarmanna. En þeir gerast nú færri og færri með degi hverjum sem þora að taka sér þetta orð í munn í þeim flokki af eðlilegum og auðskiljanlegum ástæðu.

Hæstv. viðskrh. lýsti stefnu hæstv. ríkisstj. með þessum orðum, með leyfi forseta: „Það var þá ákveðið, að hafa ríkt aðhald í verðlagsmálum og gjaldskrám þjónustufyrirtækja. Það var ákveðið að lækka skatta á lægri tekjum. Það var ákveðið að lækka aðflutningsgjöld talsvert verulega, m.a. afnám aðlögunargjaldsins og fleira, og það var tvívegis framkvæmd lækkun á vöxtum og það er lækkun á fjármagnskostnaði.“

Hér lýkur tilvitnun í orð hæstv. viðskrh. þegar hann var að lýsa niðurtalningaraðgerðum hæstv. ríkisstj. Hann talaði sem sagt um aðhald í verðlagsmálum og gjaldskrám þjónustufyrirtækja. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að nú eru tekin gífurleg erlend lán til þess m.a. að standa straum af miklum hallarekstri opinberra stofnana og fyrirtækja sem gætu vissulega borið sig ef verðlagning verðmyndunarkerfa væri með öðrum hætti. Má þar t.d. tala um Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. En ef draga á úr erlendum lánum til þeirra fyrirtækja hækkar rafmagnsverð hjá Reykvíkingum líklega um 90% á þessu ári.

Hann talaði um skattalækkanir á sama tíma og skattahækkanir hafa verið með þeim endemum að aldrei áður í sögunni hafa skattar á jafnfáum árum verið hækkaðir jafnrækilega og á valdaárum síðustu ríkisstj. Hann talaði um lækkun á aðflutningsgjöldum nú, einmitt þegar verið er að afgreiða svokallað tollafgreiðslugjald, og benti á afnám aðlögunargjaldsins, rétt eins og hann hefði ekki hugmynd um að ríkisstj. efndi að sjálfsögðu til nýrrar skattlagningar til að koma í staðinn fyrir þá skatta sem fengust með aðlögunargjaldinu. Og hann talaði um framkvæmd á lækkun á vöxtum, á sama tíma og ríkisstj. stendur fyrir því með útgáfu spariskírteina að sprengja það vaxtastig sem hefur verið í gangi í landinu. Það er sérstök ástæða til að benda rækilega á að með aðgerðum sínum við útgáfu spariskírteina nú hefur ríkisstj. í raun tekið fyrsta skrefið í að lækka ekki vexti, heldur hækka þá stórlega því auðvitað verða aðrir aðilar, bankar og sjóðir, að hækka bæði innláns- og útlánsvexti í samræmi við þá stefnu ríkisstj. sem kemur fram í útgáfu spariskírteinanna. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu og spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann trúi því virkilega að útgáfa spariskírteinanna og betri ávöxtunarkjör á spariskírteinunum leiði í raun til vaxtalækkana eða til hins gagnstæða. Ég veit að hæstv. viðskrh. þekkir þetta mál það vel að hann gerir sér glögga grein fyrir að þessi aðgerð leiðir að sjálfsögðu til gífurlegra vaxtahækkana vegna þess að þarna er um að ræða samkeppni um sömu fjármunina.

Það er saga út af fyrir sig og kannske ekki ástæða til að ræða hana hér, hvernig hæstv. ríkisstj. lítur á bankakerfið í landinu. Fyrir örfáum dögum tekur hæstv. ríkisstj. sig til og gefur út spariskírteini, sem auðvitað hefur þær afleiðingar að fjármunirnir fara út úr bankakerfinu og til ríkisins. Í efnahagsskýrslu ríkisstj. segir hins vegar svo í kaflanum um peningamál, með leyfir forseta: „Lagt verði að innlánsstofnunum að gæta ýtrasta aðhalds í útlánum, þannig að þau verði í samræmi við efnahagsstefnuna“ Og síðan: „Unnið verður að því að draga úr fjármagnskostnaði, m.a. með lækkun vaxta í samræmi við hjöðnun verðbólgu.“ Hvers konar Bakkabræður eru hér á ferðinni? Nei, hæstv. ráðh. þarf að koma hér í ræðustól og gera hreint fyrir sínum dyrum. Hvernig má það vera, að í dag sé hægt að gefa út spariskírteini með mun hærri vöxtum og segja samt annars staðar við svipað tækifæri að það eigi að leggja að innlánsstofnunum að gæta ýtrasta aðhalds í útlánum og síðan eigi að lækka vexti? Þetta er mál sem hæstv. ráðh. verður að gefa skýringu á. Og það er ekki nóg með þetta, heldur segir jafnframt í efnahagsskýrslunni að það eigi að draga úr erlendum lántökum og í því skyni eigi að leita samkomulags við viðskiptabankana um aukna þátttöku innlendra lánastofnana í fjármögnun og framkvæmdum. Enn á ný á að taka peninga úr bankakerfinu og færa þá til ríkisins. Til viðbótar á að leggja sérstaka skatta á banka og sparisjóði. Í þeim kálfi, sem fylgdi efnahagsskýrslu ríkisstj., er síðan sagt að nú eigi að bæta húsbyggjendum upp þann missi, sem þeir hafa orðið fyrir á undanförnum árum, með því að láta viðskiptabankana greiða enn meira en þeir hafa gert fyrir húsbyggjendur.

Menn halda auðvitað að þetta sé tómt grín. Það skil ég vel. En hér er í fyllstu alvöru verið að fjalla um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. Það er verið að sölsa til sín fjármagn á öllum sviðum þjóðlífsins. Og það er alvarlegt með hæstv. viðskrh., sem ég veit að hefur staðgóða þekkingu á þessum málum, maður sem hefur sagt margt gott í ræðu og riti og komið oft fram á mannamótum og talað skynsamlega um þessi mál, að hann skuli standa fyrir þessari endileysu. Það eru sorgleg örlög eins manns.

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til að fjalla ítarlegar um þetta mál og önnur mál í samhengi við það, en ég tel ekki ástæðu til að gera það að sinni. Það er I jóst að það frv., sem hér liggur fyrir, gengur í rétta átt, en allt of skammt. Það er auðvitað framkvæmdin á þessum lögum sem hefur úrslitaþýðingu. Við leggjum þess vegna til, sjálfstæðismenn, að samþykkt verði till. okkar, sem gengur út á að færa orðalag greinanna í lögunum um verðlag og samkeppni til síns upprunalega horfs. Við bendum á að Alþb. er eini stjórnmálaflokkurinn sem er á móti meira frelsi í verðlagsmálum þegar full samkeppni er til staðar. Samt er þessi stjórnmálaflokkur, 11 hv. alþm. af 60, látinn ráða ferðinni meira og minna í þessum málum.

Þá hef ég bent á það í minni ræðu og tel ástæðu til að ítreka að ríkisstj. hefur gefist upp á niðurtalningarstefnunni, ef hún hefur þá einhvern tíma verið sett fram í einhverri alvöru á vegum hæstv. ríkisstj. Tek ég þá fram að ég efast ekkert um heilindi hæstv. viðskrh. og þeirra framsóknarmanna og þeir hafi ætlað að fylgja þessari stefnu fram, en það hefur greinilega mistekist.

Ég tel, herra forseti, að það verði að láta reyna á það á hinu háa Alþingi, hvort höfundar og flm. frv. frá 1978 ætla nú á grundvelli eigin málefnasamnings, að hverfa til þeirrar löggjafar sem þeir sömdu vorið 1978, eða hvort þeir hafa gert baksamning við Alþb. um að fresta gildistökunni eða jafnvel að koma í veg fyrir að frjálst verðmyndunarkerfi verði tekið upp þar sem það á við hér á landi.