26.02.1982
Neðri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég flutti allitarlega framsöguræðu fyrir þessu máli fyrr í umr., þannig að ég skal ekki lengja mjög mál mitt nú. Þó eru nokkur atriði, sem ég vildi gera að umræðuefni, sem hafa komið fram í umr.

Hv. þm. Friðrik Sophusson gerði að umræðuefni skipan svokallaðrar þriggja manna nefndar sem gert er ráð fyrir samkv. 2. gr. frv. að verði sett á fót, og virtist mér hann misskilja nokkuð það atriði því að hann taldi að nefndin kæmi í stað svokallaðrar samkeppnisnefndar sem starfar samkv. núgildandi lögum, en það er ekki rétt. Þessari nefnd er ætlað annað verksvið, en verðlagsráðið sjálft tekur yfir verksvið og verkefni samkeppnisnefndarinnar. Það er misskilningur að hún komi í staðinn fyrir samkeppnisnefndina. Formaður nefndarinnar verður verðlagsstjóri. Hinni er ætlað að vinna að því að hraða meðferð mála hjá verðlagsráðinu þannig að mál séu betur undirbúin þegar þar að kemur. Mér er það ekkert launungarmál að auk þessa meginverkefnis er þessi nefnd sett á fót til að reyna að skapa meiri einingu um þessi umdeildu mál sem verðlagsmálin eru og hafa jafnan verið.

Það er rétt að vekja athygli á því, að nefndin hefur ekki tillögurétt, flytur ekki tillögur inn í verðlagsráð, heldur gerir verðlagsstjóri það, enda er ekki gert ráð fyrir því í frv., að hinir tveir nefndarmennirnir í þriggja manna nefndinni verði nauðsynlega fulltrúar í verðlagsráði. Þeir gætu orðið aðrir.

Það er gert ráð fyrir að nefndin geti í vissum tilvikum afgreitt mál til bráðabirgða þegar þörf er skjótrar úrlausnar. Þeir, sem hafa kynni af störfum verðlagsráðs í gegnum tíðina, vita eflaust að stundum þarf að afgreiða mál með forgangshraða af ýmsum ástæðum, og þá hefur það stundum gerst að málin eru raunar afgreidd í samtölum milli verðlagsráðsmanna eða gegnum síma og síðan staðfest á næsta fundi ef allir eru sammála afgreiðslunni. Það getur verið allt að því nauðsynlegt að taka ákvarðanir til bráðabirgða þegar sérstaklega stendur á og erfitt að koma við að kalla saman jafnfjölmenna nefnd og verðlagsráð er með örstuttum fyrirvara. Hér er því í raun og veru varnagli sem á að auðvelda framkvæmd þessara mála. Síðan getur verðlagsráð falið þessari nefnd og Verðlagsstofnun ákvörðunarvald sitt eftir afmörkuðum reglum sem ráðið setur. Þetta er algjörlega í hendi ráðsins. Það metur það á hverjum tíma hvort ástæða sé til einhverra ráðstafana af þessu tagi.

Hv. þm. Friðrik Sophusson spurði hvort stjórnarsáttmálinn væri ekki lengur í gildi. Jú, hann er í gildi og það er ekkert fararsnið á stjórninni, þannig að það er e.t.v. ekki eðlilegt að hún hafi framkvæmt stjórnarsáttmálann lið fyrir lið á þessu stigi málsins. Það eru viss ákvæði í stjórnarsáttmálanum um verðlagsmál, og þetta frv., sem hér er flutt, er byggt. á þeim. Ég viðurkenni að þetta frv. er skref í áttina. Þetta er ekki fullt skref í þá átt að lögleiða 8. gr. verðlagslaganna, eins og frá henni var gengið á árinu 1978. Þetta er áfangi í áttina til framkvæmdar nýju verðlagslaganna. Það kom raunar fram hjá Ólafi Davíðssyni forstjóra Þjóðhagsstofnunar á dögunum, þannig að það er engin mótsögn í þessu frv. eða hvernig mælt hefur verið fyrir því og því sem Ólafur Davíðsson sagði í sinni ræðu fyrir skemmstu.

Hv. þm. Albert Guðmundsson spurðist fyrir hvort mögulegt væri að fjölga í þessari þriggja manna nefnd og fulltrúi Verslunarráðsins kæmi þar til viðbótar. Það hefur ekki verið meiningin að það væru fleiri í nefndinni, og eins og ég sagði áður er hugmyndin með henni öðrum þræði að reyna að skapa meiri frið og einingu um þessi viðkvæmu mál. Fulltrúi Verslunarráðsins á sæti í verðlagsráði og getur þar látið til sín taka.

Þegar rætt er um að hvaða leyti þetta frv. og yfirlýsing ríkisstj. í skýrslu um efnahagsmál eru skref fram á við vil ég nefna sérstaklega þrjú atriði:

Í fyrsta lagi verða með þessu frv., ef að lögum verður, verðlagsmálin alfarið tekin af borði ríkisstj. Það verður ekki fjallað um verðlagsmál í ríkisstj. eftir það, og það álít ég að sé talsvert verulegt skref fram á við. Það er í raun og veru óhæfa að það sé verið að fjalla um einstök verðlagsmál í sjálfri ríkisstj. Það eru engir stjórnarhættir að mínu mati.

Í öðru lagi er stefnt að því að gera innkaup til landsins ódýrari, koma við nýjum reglum sem fela í sér meiri hvatningu til ódýrari innkaupa en verið hefur. Það, sem menn eiga við í því efni, er fyrst og fremst að afnema prósentuálagninguna. Ég skal ekki hér vera með miklar vangaveltur um hvernig þær reglur að öðru leyti verða. Verðlagsráð tekur þetta til faglegrar umfjöllunar af sinni hálfu og setur um það reglur.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fella undan verðlagsákvæðum vissa vöruflokka og auka þannig frjálsræði, ef samkeppnisskilyrði eru fyrir hendi, með vissum hætti, þannig að það verður tekin upp rík tilkynningarskylda af hálfu verslunarinnar og það verður sett á aukið eftirlit og verðgæsla. Ég skal ekki heldur vera með neinar tilgátur um hvaða vöruflokkar þetta gætu orðið. Þetta verður tekið til meðferðar í verðlagsráði og það tekur ákvarðanir í þessu efni.

Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, að ég tel að það sé veruleg samkeppni hér í landi á sviði verslunarinnar, milli samvinnuverslunar og einkaverslunar og innbyrðis meðal þessara aðila. Og ég fer ekki í neinn launkofa með mína skoðun í því efni, að ég álit að keppni milli þessara aðila ásamt virkri verðgæslu sé líklegasta fyrirkomulagið til að tryggja sanngjarnt verðlag. Ég álít að það sé mjög þýðingarmikið að koma við virkri verðgæslu og eftirliti, sérstaklega í mikilli verðbólgu þegar verðskyn almennings er mjög sljótt, og auk þess virkum neytendasamtökum, því að þegar allt kemur til alls er það neytandinn í frjálsu þjóðfélagi sem á að eiga völina. Hann á að veita þrýstinginn að versluninni. Ég álit að með þessum hætti séu mestar líkur til að vöruverð verði sanngjarnt og tryggi vörugæði og góða þjónustu.

Hv. þm. ræddi nokkuð um niðurtalninguna. Hann grautaði öllu saman í því efni þegar hann var að vitna í mína ræðu, grautaði saman ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, og ráðstöfunum sem gerðar voru fyrir ári. Ég leiddi rök að því, að niðurtalningaráætlun ríkisstj. frá því um áramótin 1980–1981, sem ég gerði grein fyrir og var fólgin í ýmsum ráðstöfunum, hafi borið ágætan árangur meðan þær ráðstafanir héldust. Ég játa að þær fjaraði út þegar fór að líða á seinasta ár, en meðan niðurtalningaraðgerðirnar héldust minnkaði verðbólgan í landinu. Annað gerðist sem er athyglisvert, að kaupmátturinn jókst meira en hann hefði gert ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar og það mun meira. Þetta er viðurkennt af öllum nú, og ég vil kalla tímabilið frá því um áramótin í fyrra og fram á haust niðurtalningartímabil. Það sannar að stefna Framsfl. um niðurtalningu er skynsamleg stefna. (Gripið fram í.) Það var ákveðið nú að gera skammtímaráðstafanir, eins og hefur verið lýst, og hv. þm. var að rugla þessum skammtímaráðstöfunum saman við áætlunina um niðurtalningu. Þetta er allt annað. Nú er ríkisstj. að vinna að kerfisbreytingum sem ég vona að muni leiða til farsældar, ekki síst í baráttunni við verðbólguna. En það má ekki grauta saman skammtímaráðstöfunum, sem gerðar eru til skamms tíma, og niðurtalningaráætlun sem gerð var í fyrra og skilaði ágætum árangri.

Hv. þm. Albert Guðmundsson taldi, að þetta frv. væri til bóta, tók það sérstaklega fram. Í raun og veru hafa allir hv. þm., sem tekið hafa til máls um frv., verið þeirrar skoðunar, að það væri skref fram á við þó að sérstaklega þm. Sjálfstfl. hafi reynt að gera lítið úr frv.

Það hefur orðið í þessum umr. nokkuð almenn umræða um verslunina. Ég er ekki í nokkrum vafa um að tilkoma samvinnufélaganna í landinu hefur átt þátt í að halda niðri vöruverði í landinu. Eins og ég sagði áður er samkeppni milli samvinnuverslunar og einkaverslunar áreiðanlega mjög þýðingarmikill þáttur í því að halda niðri vöruverði í landinu. Það er enginn vafi á því og sjálfsagt eru flestir sammála um það.

Hv. þm. Albert Guðmundsson er ekki hér staddur, en hann kom dálitið inn á peningamálin og taldi að það ætti ekki að loka peningana inni, eins og hann orðaði það. Hann hefur verið settur til þess að stjórna peningamálum í einum bankanum og þess vegna þarf hann ekki að loka peningana inni þar. En ég geri ráð fyrir að hann hafi átt við að peningarnir væru lokaðir inni í Seðlabankanum, þ.e. með þeirri bindingu sem hefur verið sett á. Ég skal ekki fara langt út í þau mál. En það er viðurkennt, a.m.k. í öllum frjálsum þjóðfélögum, að peningamálapólitík er mjög virkt hagstjórnartæki, og það er víða gert til að reyna að draga úr eftirspurn, þegar mikil þensla er og verðbólga, að draga úr framboði á peningum á markaðnum. Hjá okkur er þann veg háttað að við eigum í talsverðum erfiðleikum í sambandi við okkar viðskiptajöfnuð og það er talsvert verulegur halli á honum og hefur verið, þó að hann sé miklu minni en hjá flestum þjóðum í kringum okkur. Það er enginn vafi á að halli á viðskiptajöfnuði stafar m.a. af of mikilli eftirspurn í þjóðfélaginu. Þess vegna væri það óráð að mínu mati, eins og hér er ástatt, að pumpa of miklu fjármagni inn í hagkerfið því það mundi hafa í för með sér aukna eftirspurn sem kæmi fram í vaxandi viðskiptahalla og verðbólgu. Síðan höfum við afurðalánakerfið, eins og kunnugt er, og þarf að sjálfsögðu peninga til að standa undir því án þess að það valdi of mikilli þenslu í hagkerfinu.

Það voru ýmis fleiri atriði, sem hafa komið fram í þessum umr., sem eru raunar óskyld þessu máli í þrengri merkingu. Ég skal ekki blanda mér mikið í þær umr.

Ég vil aðeins að lokum ítreka það, að þeir ræðumenn, sem hafa tekið til máls, eru sammála um að þetta frv. ásamt yfirlýsingu ríkisstj. er skref í rétta átt. Ég held að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að fenginni reynslu af því kerfi sem við höfum búið við um alllangan tíma, að við þurfum að lagfæra það kerfi, það hafi ekki reynst nægilega vel. Ég held að rétta leiðin í þeim efnum sé að fara svipaðar slóðir og farnar hafa verið á t.d. hinum Norðurlöndunum, þar sem menn hafa sannfærst um að frjáls samkeppni ásamt virkri verðgæslu og verðlagseftirliti sé langlíklegasta leiðin til að tryggja sanngjarnt vöruverð.