28.10.1981
Efri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

37. mál, söluskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, fór nokkrum orðum um þetta frv. Get ég ekki annað sagt en að fram hafi komið jákvæð afstaða af hans hálfu til frv. og fagna ég því. En hann bar upp nokkrar spurningar og einnig komu fram spurningar í máli hv. þm. Salome Þorkelsdóttur. Ég vil nú víkja að þeim nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi var bent á þann vanda, að vörur væru oft seldar með greiðslufresti og þá lentu kaupmenn í vandræðum með að standa skil á söluskatti, einkum þeim sem ekki væri búið að greiða. Það er einföld, almenn regla hjá ríkissjóði, að hann veitir alls ekki greiðslufrest á söluskatti. Frá því eru ekki undantekningar gerðar. Og ég held að það verði ekki heldur hægt að gera undantekningar í þessum tilvikum. Að svo miklu leyti sem um greiðslufrest er að ræða getur reyndar kaupmaður ekki veitt greiðslufrest á öðru en andvirði vörunnar. Hann verður þá að láta kaupandann greiða a. m. k. söluskattinn og getur þá staðið skil á honum. Treysti hann sér til þess að lána líka hlut ríkissjóðs í verði vörunnar er það auðvitað algerlega á hans ábyrgð. Ég býst við að flestir skilji að það væri æðiflókið og vandasamt fyrir ríkissjóð að sætta sig við það, að hinir ýmsu innheimtuaðilar söluskattsins geti veitt gjaldfrest á skattinum og þannig haft veruleg áhrif á það frá einum tíma til annars, hverjar tekjur ríkissjóður hefur af söluskattinum, hvenær hann kemur til skila. Ég held að reglan geti ekki verið önnur en sú sem nú er, einföld og hrein og bein, að það sé algerlega á ábyrgð viðkomandi kaupmanns. Ef hann afhendir vöruna án staðgreiðslu, með greiðslufresti, þá er það hans mál hvort hann treystir sér til að lána líka þann hluta af verði vörunnar sem á að falla í hlut ríkissjóðs, þ. e. söluskattinn. Ég býst við að almennt sé reglan sú. Ég sé því ekki neina sérstaka lausn á þeim vanda.

Hv. þm. Lárus Jónsson vakti athygli á því, að í frv. væri gert ráð fyrir að væru brot ítrekuð eða sakir miklar að öðru leyti, þá mætti auk sekta beita varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum. Mér heyrðist á honum að þetta þætti honum nokkuð þung viðurlög. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þetta eru óbreytt ákvæði núgildandi söluskattslaga. Þessi setning er alveg óbreytt tekin upp úr núgildandi söluskattslögum, 25. gr. Það, sem gert er í þessu frv., er að sameina 25. og 26. gr. og samræma ákvæði þeirra, og það mun vera í núverandi 26. gr., ekki 25. gr. eins og ég sagði áðan, sem þetta ákvæði er: Ef um ítrekað brot eða miklar sakir er að ræða má auk sektar koma varðhald eða fangelsi allt að 6 árum. Það er engin breyting hvað þetta atriði snertir.

Hv. þm. vakti athygli á því, að smásöluaðilum væri lögð sú skylda á herðar í mörgum tilvikum að koma sér upp sjóðvélum sem væntanlega væru dýrar. Aukinn kostnaður væri því lagður á þessa aðila. Það er alveg rétt, lögin fela það í sér að miklu fleiri aðilar en nú er munu fá sér þessar vélar og auðvitað mun það hafa nokkurn kostnað í för með sér fyrir þá. Ég vil hins vegar benda á að mjög margir smásöluaðilar eiga vélar af þessu tagi. Slíkar vélar eru mjög algengar í notkun nú. Það, sem verið er að gera með þessum lagabreytingum, er að stuðla að því að enn fleiri fái sér þessi tæki.

Það má líka velta því fyrir sér, hvort tæki af þessu tagi séu ekki í raun og veru óhjákvæmileg og nauðsynleg í öllum verslunarrekstri. Og þau koma auðvitað fleirum að gagni en ríkissjóði einum. Þau koma auðvitað viðkomandi kaupmanni að gagni, bæta hans bókhald og eru sjálfsagt bráðnauðsynleg tæki í nútímaviðskiptum. Ég tel hins vegar að ekki væri nein fjarstæða að ríkið veitti þeim, sem þurfa að kaupa slíkar vélar og þurfa sérstaklega á þeim að halda, einhverja lánsfyrirgreiðslu til að auðvelda þeim það. Ég vil alls ekki útiloka að sú yrði niðurstaðan ef sérstaklega yrði farið fram á það. Ég held að ég geti hins vegar fullyrt að á þetta atriði er ekki minnst í áliti nefndarinnar sem undirbjó frv. Ég vil sem sagt taka það fram, að ef það er mat manna að erfitt muni reynast fyrir kaupmenn að fjárfesta í svona vélum, þá geti vel komið til greina að veita sérstaka lánsfyrirgreiðslu í því sambandi. Eins og ég hef sagt, þetta eru vélar sem allur venjulegur atvinnurekstur þarf að hafa og þess vegna er ekki verið að gera hér neinar óraunhæfar eða óeðlilegar kröfur. Ef menn hins vegar treysta sér ekki til að kaupa svona vélar er ekki lögð skylda á þá að gera það. Þeir verða þá að handfæra viðskiptin, eins og áður hefur komið fram.

Spurt var að því, hvort ekki hefði verið hugsað til þess við undirbúning þessa máls að veita kaupmönnum einhverja þóknun fyrir þá innheimtu í þágu ríkissjóðs sem þeir inna af hendi, á það bent, að innheimtan væri að sjálfsögðu nokkurt starf, sem kaupmenn og starfslið þeirra yrðu að inna af hendi, og spurt hvort ekki væri eðlilegt að þeir fengju greiðslu fyrir þessi störf. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég tel alveg ótvírætt að kaupmenn fái í dag greiðslu fyrir þessi störf. Þá greiðslu fá þeir með þeim hætti, að þeir fá að hafa söluskattinn í veltunni í rúman mánuð. Það getur í vissum tilvikum verið lengri tími en að jafnaði má segja að söluskattur sé í veltunni hjá kaupmönnum í rúman mánuð. Með þeim háu vöxtum, sem eru á rekstrarfé nú á dögum, er þetta ekki nein smáþóknun fyrir þessi störf. Það er sem sagt tólfti hlutinn af innheimtu söluskattsins sem er stöðugt í veltunni hjá kaupmönnum, og þeir þurfa ekki að greiða vexti af þessari upphæð. Ég hef litið svo á að þetta væri mjög eðlileg og hæfileg innheimtuþóknun og þyrfti ekki að bæta þar neinu við.

Hv. þm. spurði að því, hvort von væri á að flutt yrði frv. um virðisaukaskatt hér í þinginu. Ég vil taka það fram, að slík lagasetning er ekki í undirbúningi af hálfu ríkisstj., a. m. k. ekki eins og sakir standa. Ég hef talið að mikilvægara væri að öðrum breytingum á skattkerfinu yrði komið fram áður en röðin kæmi að virðisaukaskattinum. Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að standa í stórfelldum róttækum breytingum á skattkerfinu á sama tíma og við erum rétt um það bil að ná fullu jafnvægi aftur eftir að gengið hafa yfir stórfelldar breytingar á tekjuskattslögum. Og nú erum við að búa okkur undir staðgreiðslukerfi skatta. Mér sýnist að það muni verða alveg nægilegt viðfangsefni fyrir skattakerfið á næstu mánuðum að undirbúa staðgreiðsluna þó að virðisaukaskattinum sé ekki bætt þar ofan á.

Staðgreiðslukerfi skatta er á stefnuskrá ríkisstj. — Ég vænti þess, að frv. um það efni verði lagt fram hér í þinginu innan skamms.