02.03.1982
Sameinað þing: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2745 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

357. mál, tilraunageymir til veiðarfærarannsókna

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um tilraunageymi til veiðarfærarannsókna. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

„Hafa farið fram athuganir á uppsetningu tilraunageymis til veiðarfærarannsókna samkv. ályktun Alþingis frá 7. maí 1981?

Ef svo er:

I. Hver verður þá framgangur málsins?

II. Hver er kostnaðaráætlun framkvæmda?

III. Hver er áætlaður rekstrarkostnaður?“

Á 103. löggjafarþingi þskj. 150 var flutt till. til þál. frá þeim Pétri Sigurðssyni, Ólafi Björnssyni, Helga Seljan og Stefáni Guðmundssyni um þetta efni. Till. hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna í samráði við Fiskifélag Íslands og Hafrannsóknastofnunina möguleika þess, að hér á landi verði komið upp tilraunageymi til veiðarfærarannsókna. Skal könnun þessi m.a. beinast að stofn- og rekstrarkostnaði slíkrar rannsóknarstarfsemi, hugsanlegri þátttöku hagsmunaaðila þar að og að stjórnun og staðsetningu slíkrar rannsóknarstarfsemi.“

Hér þarf ekki mörgum orðum við að bæta. Nokkrar umr. urðu hér þegar þessi till. var til umr. á síðasta þingi og voru alþm., er þátt tóku í umr., á einu máli um að hér væri þörfum málum hreyft. M.a. þess vegna er þessi fsp. fram borin.