02.03.1982
Sameinað þing: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

357. mál, tilraunageymir til veiðarfærarannsókna

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég kem hér upp nánast til að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir greinargerð hans fyrir þessari skýrslu, sem honum barst í hendur, eins og hann sagði, rétt fyrir hádegi. Ég er sannfærður um það, eins og kom reyndar fram í máli hans, að hér er mjög merku máli hreyft, og ég held að við verðum að leggja okkur fram um að reyna að hrinda því í framkvæmd.

Ég ætla ekki að fara að stofna hér til umr. um þetta frekar. Ég fagna því, að sjútvrh. ætlar að sjá til að þessari skýrslu verði dreift á meðal okkar þingmanna og efna síðan til umr. um skýrsluna við sjútvn. beggja deilda. Þá gefst betra og heppilegra tækifæri til þess að skiptast á skoðunum um þetta mál.

Sjálfur er ég ekki svartsýnn þó að mönnum finnist í fljótu bragði að hér sé verið að tala um háar tölur hvað varðar byggingarkostnað þessa tilraunatanks. Í sjálfu sér finnast mér þetta ekki mjög háar tölur, og ég er sannfærður um að þeir aðilar, sem þarna eiga mestra hagsmuna að gæta, muni vissulega vilja koma þarna til og létta undir og gera þetta mögulegt.

Ég endurtek þakkir mínar til sjútvrh.