02.03.1982
Sameinað þing: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

141. mál, Kolbeinsey

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um Kolbeinsey. Till. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um, að sjómerki verði sett upp sem allra fyrst á Kolbeinsey. Athuganir fari einnig fram á því, hvort og á hvern hátt megi sem best tryggja að eyjan standist heljaröfl stórviðra og ísa.“

Megintilgangur þessarar þáltill. er að auka öryggi sjófarenda. Jafnframt því verði athugað hvort koma megi í veg fyrir að eyjan hverfi í sæ.

Kolbeinsey er lítil óbyggð eyja rúmar 36 sjómílur NNV. af Grímsey, 37° 8° n. br., 18° 34° v.I. Í kringum eyjuna eru sker, einkum til VNV. Þar ná skerm allt að 600–700 m út.

Kolbeinsey er nyrsti oddi grynningar er rekja má alla leið til Víkurhöfða á Flateyjardal. Flatey á Skjálfanda og Grímsey standa því á sama hryggnum og Kolbeinsey. Margt bendir til að eyjan, sem er úr mjög eldbrunnu basaltshrauni, hafi myndast við neðansjávareldgos. Jarðvegur er þar enginn né jurtagróður af neinu tagi.

Með mjög aukinni sókn skipa til sjávarfangs á þetta hafsvæði hefur þörfin orðið brýnni en áður á að komið verði upp sjómerki á Kolbeinsey til öryggis sjófarendum.

Vissulega eru aðstæður til þeirra framkvæmda, sem hér er rætt um, erfiðar, en á engan hátt ómögulegar. Fyrir nokkru voru ratsjármerki sett upp í Kolbeinsey, en stóðust ekki þann veðraham er þar geisar. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar voru við athuganir á Kolbeinsey 25. apríl 1978 og segja þá m.a.:„Undirstöður undir ratsjármerki virðast standa sig vel, en merkin sjálf hafa brotnað við steinsteypu.“

Þótt svo hafi farið sem hér segir er engin ástæða að ætla að nú sé ekki hægt að ganga hér tryggilega frá, þannig að sem mest öryggi fáist með þeim búnaði sem þarna yrði upp settur.

Fiskiþing hefur gert samþykktir í mjög svipaða átt og hér er lagt til. Hér er vissulega um mikið öryggismál sjófarenda að ræða, og eins og ég sagði hér fyrr er engin ástæða til annars en að álíta að þannig megi ganga frá þeim búnaði er upp yrði settur, að hann standist og nái tilgangi sínum, þótt þarna norður frá blási vissulega svalir vindar.

Á Kolbeinsey sannast það að dropinn holar steininn. Heljaröfl hafs og hafíss hafa í áranna rás haft betur í fangbrögðum sínum við þennan útvörð í norðri. Ef svo heldur fram sem horfir hverfur þessi klettaeyja og skerið eitt verður eftir, ef ekki verður brugðið við og reynt að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón.

Elstu mælingar, sem mér eru kunnar á Kolbeinsey, eru trúlega frá 1580. Þá var eyjan frá norðri til suðurs 753 m og frá austri til vesturs 113 m. Eyjan var þá einnig 113 m á hæð. Árið 1932 fara aftur fram mælingar á Kolbeinsey. Þá er hún komin úr 753 m ofan í 113 m og breiddin úr 113 m í 75 m, og hæðin ekki orðin nema 10 m. Árið 1978 er Kolbeinsey enn mæld. Þá mælist hún frá norðri til suðurs 37.7 m, frá austri til vesturs 42.8 m og hæðin ekki orðin nema 5.4 m.

Þessar mælingar segja merkilega sögu um það sem hér hefur verið að gerast. Þó svo að einhverju kunni að skeika í elstu mælingum er mjög greinilegt hvert stefnir. Ber því vissulega að leita allra tiltækra ráða til verndar Kolbeinsey ef nokkur kostur er. Ekki er ótrúlegt að Veðurstofa Íslands muni notfæra sér að koma upp veðurathugunum á Kolbeinsey ef aðstæður til slíks mundu skapast.

Með þessum tillöguflutningi er m.a. leitast við að fá menn til að staldra við og átta sig á því sem hér hefur verið að gerast í tímanna rás og hvort forða megi hér frá slysi. Eftir að sjómerki hefur verið sett upp í Kolbeinsey verður nánar fylgst með því sem þar er að gerast, og ýmsar upplýsingar munu þannig fást. Ég veit að hv. alþm. er ljóst hversu mikilsvert það er að takast megi að hamla gegn frekari eyðingu á Kolbeinsey.

Þótt ég hafi ekki í þessari till. til þál. minnst á þann rétt, sem eyjan gefur okkur á hafinu til fiskveiða, er ljóst að hann er mikill. Með aukinni tækni hafa líkurnar aukist á úrvinnslu margs konar efna af hafsbotninum. Styrkir það enn þá skoðun mína, að hér beri að leita allra leiða til að koma megi í veg fyrir að eyjan hverfi í sæ.

Hér skal ekki lagður dómur á hvernig að skuli staðið. Eðlilegt verður að teljast að hið opinbera standi fyrir þeim framkvæmdum og athugunum, sem nauðsynlegar verða taldar, og greiði þann kostnað, sem af þeim kann að hljótast.