02.03.1982
Sameinað þing: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

141. mál, Kolbeinsey

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir mjög eindregnum stuðningi við þá till., sem hér er til umr., og þeirri von, að hún fái greiðan gang í gegnum þingið og helst að þm. allir sameinist um afgreiðslu hennar og samþykkt.

Hv. flm. hefur gert grein fyrir aðstæðum á Kolbeinsey og Kolbeinseyjarhrygg. Þarf ég litlu við það að bæta. Þarna er í fyrsta lagi um náttúruverndarsjónarmið að ræða: að viðhalda þessum hluta Íslands en láta ekki brjóta hann niður. Við erum öll náttúruverndarmenn og viljum forðast landbrot, hvort sem er uppi á landi eða til sjávarins. Þess er einnig að gæta, að þó að nafnið Kolbeinsey bendi til þess, að í þjóðarétti mundi þetta vera talin eyja, þá er eftir skilgreiningum hafréttarsáttmálans, eins og hann er nú, varla þess að vænta að Kolbeinsey mundi öðlast réttindi sem eyja, heldur miklu frekar sem klettur. Engu að síður er mjög mikilvægt að viðhalda þessum kletti vegna fiskveiðiréttinda og annarra réttinda okkar á þessu hafsvæði, eins og hv. flm. raunar gat um. Ég tel ekki vansalaust að menn skuli ekki hafa sinnt þessu máli betur og miklu, miklu fyrr. Það er ánægjulegt að það er þó fram komið núna. Endurtek ég óskir mínar og vonir um að þessi till. verði samþykkt.