03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eftir síðustu orð hv. síðasta ræðumanns hefði ég e.t.v. ekki þurft að kveðja mér hljóðs og koma upp í ræðustólinn, vegna þess að ég ætlaði fyrst og fremst að standa hér upp til að óska eftir frestun á þessu máli. Af því að ég er hér kominn og hef kvatt mér hljóðs vil ég taka það fram, að ég er samþykkur því frv., sem hér er til umr., og þeirri brtt. sem hv. allshn. hefur borið fram.

En um brtt. á þskj. 402 gegnir allt öðru máli. Ég vil í sambandi við hana byrja á því að óska hv. þm. Guðmundi Vésteinssyni til hamingju með hans jómfrúrræðu hér á þingi. Ég hef ekkert sérstakt út á hans ræðu að setja eða hans málsútlistun. Hins vegar hef ég mikið við það að áthuga, ef það hefði verið ætlunin — sem nú er komið fram að er ekki — að við gengjum til atkv. um brtt. á þskj. 402 við afgreiðslu þessa máls til 3. umr. Í raun og veru er það svo, að mér finnst algerlega óeðlileg vinnubrögð að kasta fram, ef svo mætti segja, brtt. um svo veigamikið atriði sem hér er um að ræða, grundvallaratriði, þ.e. kosningaaldurinn.

Ég ætla ekki að ræða hér efnislega um það, hver kosningaaldurinn á að vera, ég er ekki kominn hér upp til þess, heldur til að leggja áherslu á það, að mér finnst það óeðlileg vinnubrögð, ef við ætlum að afgreiða svo veigamikið mál sem kosningaaldurinn, breytingu á honum, við afgreiðslu þess frv. sem hér er til umr. Þessa till. ber svo brátt að, að mér skilst, að efni hennar hafi ekkert verið rætt í þeirri nefnd sem fjallar um þetta frv., hv. allshn. Það er margt sem þarf að athuga í sambandi við breytingu á kosningaaldrinum, m.a., eins og hv. 1. flm. þessarar brtt. gat um áðan, hlýtur málið að snerta spurninguna um það, hver kosningaaldurinn á að vera við kosningar til Alþingis, og við gerum ekki út um það mál við afgreiðslu þessa frv.

Ég hefði talið eðlilegast að till. hefði verið endanlega tekin til baka, en hún hefur verið tekin til baka við þessa umr. Ég legg áherslu á það, að hv. allshn. fái til að byrja með tækifæri til að athuga málið áður en til 3. umr. kemur, ef ætlunin er að halda þessari till. til streitu, eins og komið hefur fram að er ósk og vilji 1. flm. þessarar brtt.