03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur verið stefna Alþb. og Alþfl. á undanförnum árum að kosningaaldur í landinu væri miðaður við 18 ár. Í þessu skyni hafa þm. þessara flokka flutt hér á undanförnum árum frumvörp til breytinga á stjórnarskránni, en þessi frv. hafa ekki fengið nægilegan stuðning.

Í því frv., sem hér liggur fyrir um breytingar á sveitarstjórnarlögum, er farið inn á þá braut að heimila fólki, sem ekki er íslenskir ríkisborgarar og uppfyllir ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um kosningarrétt til Alþingis, að kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Þessi till. er í samræmi við þróun kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum í nágrannalöndum okkar og reyndar víðar í Evrópu, þar sem rýmri ákvæði eru um kosningarrétt í sveitarstjórnum en í þingkosningum. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, þegar frv. um breytingu á sveitarstjórnarkosningalögunum er hér til umr. og stigið er skref í þá veru sem ég var hér að lýsa, að útvíkka kosningarréttinn til sveitarstjórnarkosninga, að þá sé um leið notað tækifærið til að reyna á það, hvort þm. eru reiðubúnir til að stíga fyrsta skrefið til lækkunar á kosningaaldri í 18 ár með því að láta það taka gildi nú í sveitarstjórnarkosningum.

Hv. þm. Guðmundur Vésteinsson flutti hér ítarlega greinargerð fyrir þeim meginrökum sem Alþfl. og Alþb. hafa flutt á undanförnum árum fyrir því, að kosningarréttur sé miðaður við 18 ár, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þau rök hér. Það er sjálfsagt að hv. alþm. fái tækifæri til að skoða þessa brtt. og nefndir fái tækifæri til að fjalla um hana. Okkur flm. er fyllilega ljóst að hér er um veigamikla breytingu að ræða og nauðsynlegt að Alþingi athugi vel sinn gang áður en hún verður samþykkt. En ég get ekki fallist á að það séu óeðlileg vinnubrögð, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að sýna þessa brtt. hér við 2. umr. til þess að gefa mönnum til kynna alvöru málsins og ítreka með þeim hætti stefnuatriði sem þessir tveir flokkar hafa haft á undanförnum árum, þegar jafnframt er orðið við þeirri ósk að gefa mönnum tækifæri til að skoða þessa till. þar til 3. umr. fer fram.