03.03.1982
Efri deild: 51. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með að taka undir allt sem hv. 11. þm. Reykv. sagði um mikilvægi Sinfóníuhljómsveitarinnar og þess hlutverks sem hún hefði gætt í menningarlífi landsins. Það var að mínu viti ekkert ofsagt í þeim efnum. Ég sé ekki ástæðu til að fara að fjölyrða um það, en vek athygli á því, að starf Sinfóníuhljómsveitarinnar í 30 ár er merkilegt eins og hv. þm. gat um. Þó hafði hljómsveitin engin lög. Þess vegna er það, eins og ég gat um við 1. umr., mikil spurning hvort nokkur ástæða sé til að setja Sinfóníuhljómsveitinni nokkur lög, með tilliti til þess, hversu vel hefði tekist í þau 30 ár sem hún hefur starfað án þess að nokkur lög væru um starfsemi hennar.

Það eru mörg dæmi þess, og ég skal ekki fara að rekja það, að ýmis starfsemi í ýmsum löndum, merkileg starfsemi í merkilegum löndum, hefur verið við lýði mörg ár, áratugi og jafnvel aldir án þess að nokkur lög væru sett. Það hefur verið byggt á hefð og venjum. Skoðun mín er sú, að við gerum of lítið í þessu landi í því efni að byggja á hefð og venjum þar sem vel hefur tekist til. Okkur hættir við að hlaupa með málefni um of inn í Alþingi til að setja lög um þau. En ég segi núna, eins og ég sagði við 1. umr. málsins, að ég ætla ekki að hafa á móti því, að sett verði lög um Sinfóníuhljómsveitina, ef það er eins sterkur vilji fyrir því hjá þeim sem fara með þessi mál og ummæli þeirra hafa bent til. Ég mæli þess vegna með því, að frv. verði samþykkt, eins og öll hv. menntmn. gerir og hv. frsm. n. hefur greint frá. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt.

En ef við erum að setja lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands ber okkur að vanda þá lagagerð svo sem kostur er, og við megum ekki falla í þá gröf að halda að þar þurfi allt að vera fullkomið þó að það standi í því stjfrv. sem hér er lagt fram. Það er ákaflega margt sem kemur til álita í þessum efnum. Þessi skoðun kom líka fram í hv. menntmn. því að allir hv. nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. Ég tel að það hafi ekki verið nákvæmlega skýrt frá afstöðu einstakra nm. af hv. frsm. n. þegar hann sagði að það hefði verið skoðun meiri hl. n. að ekki ætti að breyta neinu í þessu frv. Hins vegar má segja að það hafi ekki komið fram meiri hluti um neinar ákveðnar breytingar.

Ég skal nú víkja að þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 373 af okkur hv. 4. landsk. þm. Hv. frsm. n., hv.11. þm. Reykv., er að vísu búinn að tala um þessar till. að sumu leyti áður en ég hef mælt fyrir þeim, en mér fannst það sem hv.þm. sagði ekki draga á neinn hátt úr nauðsyn þess, að ég mæli í nokkrum orðum fyrir þessum tillögum.

1. brtt. er um að 2. gr. frv. orðist eins og þar segir. Þar er um að ræða umorðun á 2. gr. frv. og auk þess bætt við málsútlistun og greinin öll ítarlegri og fyllri. Mér virtist á hv. frsm. n., hv. 11. þm. Reykv., að þrátt fyrir allt teldi hann að þessi brtt. væri til bóta, og ég verð að segja að mig mundi furða mjög á afstöðu þeirra sem greiddu atkv. gegn þessari breytingu, brtt. er þess eðlis. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja frekar eða orðalag eða efni brtt. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái mismuninn á 2. gr. frv. og þessari brtt. þegar þeir líta á þskj.

Þá kem ég að 2. brtt. Þar er um að ræða efnisbreytingar í nokkrum veigamiklum atriðum. Þá er það fyrst, að í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að aðild að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar skiptist í ákveðnum hlutföllum eins og þar segir milli ríkissjóðs, Ríkisútvarps, borgarsjóðs Reykjavíkur og bæjarsjóðs Seltjarnarness. Við gerum þá brtt. að bæjarsjóður Seltjarnarness verði ekki beinn aðili að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, eins og frv. gerir ráð fyrir og á að vera sem nemur 1 %. Við leggjum til að þetta verði fellt niður, en aðild ríkissjóðs verði hækkuð á móti um 1%, úr 56 í 57%.

Það er að sjálfsögðu engin tilviljun að við gerum þessa brtt. Í fyrsta lagi er hún í samræmi við það sem við hefur gengist í 30 ár, þ.e. að beinlínis að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar stæðu einungis ríkissjóður, Ríkisútvarpið og borgarsjóður Reykjavíkur. Í öðru lagi virðist vera mjög óeðlilegt að taka eitt sveitarfélag út úr, svo sem Seltjarnarneskaupstað þó að í næsta nágrenni sé við Reykjavík, því að það verður ekki í þessu efni greint á milli Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogskaupstaðar, Garðabæjar, Hafnarfjarðar eða Mosfellshrepps, og mætti telja upp fleiri sveitarfélög. En það, sem er kannske aðalatriðið í þessu, er að okkur finnst ekki ástæða til að hafa neitt sveitarfélag utan Reykjavíkur beinan aðila að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, hvort sem sveitarfélagið er nær eða fjær. Vegna hvers? Vegna þess að Sinfóníuhljómsveit Íslands er stofnun sem varðar alla þjóðina jafnt og Háskóli Íslands og aðrar hliðstæðar menntastofnanir. Ríkissjóður á að vera aðili að rekstrinum af því að þetta er mál Íslendinga allra. Ríkisútvarpið á að vera aðili af því að Ríkisútvarpið er útvarp allra Íslendinga. Reykjavík að vera aðili vegna þess að Íslendingar allir eiga sína höfuðborg.

Ég skal ekki lengja rökstuðning okkar fyrir þessari brtt. Ég vil aðeins segja, af því að ég nefndi Ríkisútvarpið, að ég tel mjög þýðingarmikið að það sé áfram aðili að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, eins og það hefur verið frá byrjun. Ég segi þetta vegna þess að stundum heyrist því fleygt, að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera aðili vegna þess að slíkt sé baggi á Ríkisútvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé ekki um að ræða bagga eða byrði fyrir Ríkisútvarpið, heldur sé hagur Ríkisútvarpsins, ef við mælum þetta á fjárhagslegan mælikvarða, að vera aðill að Sinfóníuhljómsveitinni, ef það er á annað borð ætlunin að Ríkisútvarpið gegni því menningarhlutverki á vettvangi tónlistarmála sem það hefur gert frá byrjun.

Þá vil ég koma að annarri breytingu sem felst í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. við 3. gr. frv.

Í frv. er talað um að efna megi til samvinnu Sinfóníuhljómsveitar Íslands við Þjóðleikhúsið og aðra aðila á viðskiptagrundvelli um uppfærslu. Við teljum, að ekki sé nægilega að gert varðandi þetta efni í frv., og leggjum þess vegna til að þessi mgr. hljóði svo, að efna megi til samvinnu á viðskiptagrundvelli ekki einungis milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Þjóðleikhússins, heldur og Íslensku óperunnar, Íslenska dansflokksins og annarra aðila hins vegar um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast til og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir.

Það er mikil gróska í tónlistarlífi landsins og framfarir örar. M.a. er nýbúið að stofna íslenska óperu og starfsemi hennar varðar mjög Sinfóníuhljómsveitina. Stofnun Íslensku óperunnar er menningarviðburður hjá okkur og hefur sjálfstæða þýðingu í tónlistarlífi okkar á svipaðan hátt og Þjóðleikhúsið hefur sjálfstæða tilveru í leiklistarlífi okkar. Eðlilegt er að gera þessari nýju stofnun formlega jafnhátt undir höfði og öðrum menningarstofnunum sem nefndar eru í þessari frvgr.

Þá vil ég víkja að þriðju breytingunni sem er í þessari brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. Það er tekið upp nýtt ákvæði á þá leið, að heimilt sé að semja um hlutdeild sveitarfélaga í beinum staðbundnum kostnaði við tónleikahald hljómsveitarinnar utan Reykjavíkur. Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið að setja inn þetta ákvæði, það gæti beinlínis stutt að því, að hljómsveitin gæti betur en ella gegnt hlutverki sínu gagnvart landsbyggðinni og landsbyggðin lagt sitt af mörkum til að efla þá starfsemi í þeim farvegi sem við leggjum til með þessari brtt. okkar. Ég verð að segja það, að ég hef ekki heyrt og býst naumast við að heyra rök gegn brtt. sem þessari.

Þá hef ég lokið að gera grein fyrir helstu breytingunum í 2. lið brtt. okkar á þskj. 373, nema síðustu breytingunni, og henni má ég ekki gleyma.

Í frv. segir að Sinfóníuhljómsveitin skuli kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi og stefna að því, að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum hennar. Við hv. 4. landsk. þm. gerum brtt. um þetta. Okkur finnst í fyrsta lagi hæpið að setja ákveðna prósentutölu inn í lög. Það er hliðstætt því að setja lög um að einhver stofnun skuli skila hagnaði. Hins vegar er ákaflega þýðingarmikið að svo vel sé haldið á fjárhagshliðinni sem kostur er. Við leggjum til að frvgr. orðist svo, að Sinfóníuhljómsveitin skuli kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi svo að sem mest af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar. Við viljum gjarnan að það geti orðið meira en 12% og ekki binda það við 12%.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir 2. tölul. í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. Ég kem þá að 3. tölul. og það eru brtt. við 4. gr. frv. En 4. gr. frv. fjallar um stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Okkar breyting er fólgin í því í fyrsta lagi, að við leggjum til að það verði fjölgað í stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar. Við leggjum ekki til að stjórnin verði kölluð hljómsveitarráð, en veigamesta breytingartillaga okkar er fólgin í því, hvernig við leggjum til að hljómsveitarráð verði skipað. Við leggjum ekki til breytingu á því, að þeir fimm aðilar, sem frv. gerir ráð fyrir, hafi fulltrúa í hljómsveitarráði, þ.e. Reykjavíkurborg, Starfsmannafélag hljómsveitarinnar, fjmrn., Ríkisútvarpið og menntmrn. Okkar tillögur gera ráð fyrir að þessir aðilar verði áfram, en að tveir komi í viðbót þannig að talan verði 7, en ekki 5, og að einn verði tilnefndur af Tónskáldafélagi Íslands og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík eigi sæti í ráðinu. Það gefur auga leið hvers vegna við leggjum til að þetta verði á þennan veg. Það er til að tryggja betur en ella að innan hljómsveitarráðsins sé þekking á tónlistarmálum sem telja verður nauðsynlega undir öllum kringumstæðum, en einkum þó með sérstöku tilliti til annarra breytinga sem við leggjum til og ég kem að hér á eftir.

Ég vek einnig athygli á þeirri breytingu í 3. tölul. brtt., að lagt er til að inn í frv. komi setning um að hljómsveitarráð fjalli um og leggi fullnaðarsamþykkt á starfsog rekstraráætlanir hljómsveitarinnar. Ég á erfitt með að sjá hvernig menn geta greitt atkv. á móti ákvæðum sem þessum.

Þá kem ég að 4. tölul. í brtt. og skal geta helstu breytinga sem þar eru. Þar er um að ræða brtt. við 5. gr. frv. Þar er m.a. ný mgr. sem kveður svo á að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á daglegum rekstri hljómsveitarinnar, undirbúi verkefnaval í samvinnu við aðalhljómsveitarstjóra, formann hljómsveitarráðs og aðra þá aðila, sem kvaddir kunna að vera til ráðuneytis, og að framkvæmdastjóri leggi starfs- og rekstraráætlanir fyrir hljómsveitarráð til umfjöllunar og afgreiðslu. Tekið er fram að þessar áætlanir séu gerðar fyrir eitt ár í senn og þær eigi að liggja fyrir eigi síðar en 1. júní ár hvert fyrir næsta almanaksár. Þetta skýrir sig sjálft. Það er til þess að stuðla að því, að stjórn hljómsveitarinnar fari sem best úr hendi, og styrkja stöðu framkvæmdastjórans sem hlýtur að bera höfuðábyrgð í þessum efnum. Ákvæði sem þetta stuðlar að bættum rekstri hljómsveitarinnar og ætti þess vegna að geta stuðlað að því, að rekstrarafkoma hljómsveitarinnar verði betri en ella.

Ég kem þá að 5. tölul. í brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. og skal geta helstu breytinganna. Þetta eru brtt. við 6. gr. frv.

Tekið er fram að hljómsveitarráð ráði hljómsveitarstjóra til tveggja ára í senn og skipi verkum með þeim að fengnum tillögum framkvæmdastjóra. Þetta er mjög svipað því sem nú stendur í frv. og aðeins blæbrigði sem ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í.

Í 2. mgr. 6. gr. frv. stendur nú að stjórnin ráði hljóðfæraleikara að fengnum tillögum framkvæmdastjóra í minnst 65 stöðugildi. Við gerum þá breytingu hér, að inn í þetta mál komi ákvæði um að þetta skuli gert að undangengnum prófum ef ástæða er til.

En meginbreytingin, sem er þó formbreyting ein, er fólgin í því, að í frv. segir í 1. mgr. 6. gr.: „Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra og skipar verkum með þeim.“ Við vitum að það er talað um það í daglegu máli hljómsveitarmanna. Fastur hljómsveitarstjóri á að eiga heimilisfestu á Íslandi, en aðalhljómsveitarstjóri á helst að bera stórt nafn í tónlistarheiminum, getur því ekki verið búsettur á Íslandi, en kemur hingað til að halda hljómleika. Við höfum ekkert að athuga við þá framkvæmd sem nú er, en teljum í hæsta máta óeðlilegt að vera að lögbinda hana á þennan veg. Þess vegna leggjum við til að ákvæði laganna eigi að hljóða á þann veg, að hljómsveitarráð ráði hljómsveitarstjóra til tveggja ára í senn og skipi verkum með þeim að fengnum tillögum framkvæmdastjóra. Þetta getur verið eftir því sem stjórn hljómsveitarinnar og framkvæmdastjóri vilja hafa. Þeir geta kallað það fastan hljómsveitarstjóra eða aðalframkvæmdastjóra. Við teljum að það eigi ekki að binda slíkt í lögum, heldur fari þetta eftir því sem haganlegast er, og orðalag okkar er við það miðað.

Okkur þykir óeðlilegt í löggjöf að tala um fastan hljómsveitarstjóra og aðalhljómsveitarstjóra.

Þá kem ég að 6. tölul. í brtt. okkar. Það er einfaldlega að 7. gr. falli niður, en 7. gr. frv. fjallar um svokallaða verkefnavalsnefnd og hlutverk hennar. Samkv. frv. er verkefnavalsnefnd ætlað að gera áætlun um verkefni hljómsveitarinnar og tillögur í þeim efnum sem sérstaklega lúta að hinu listræna sviði. Við leggjum til að ekki verði lögfest að þessi nefnd skuli vera. Við teljum að það sé varhugavert að gera slíkt, menn eigi ekki að skilja svo mjög á milli rekstrarhliðar og listrænnar hliðar þessara mála, ef það sé gert sé hætta á að framkvæmdastjórn eða ábyrgð á rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar sé dreift um of og raunar geti stefnt í að allir aðilar telji sig meira og minna ábyrgðarlausa varðandi fjárhagslegan rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar, vegna þess að þeir geti alltaf skotið sér undan ábyrgð, sagt að þetta sé hlutverk annars aðila en þeirra sjálfra. Við teljum m.ö.o. hætt við að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar samþykki með minni gagnrýni en ella væri tillögur verkefnavalsnefndar, af því að hún teldi að það væri ekki í hennar verkahring að velja þau verkefni sem hljómsveitin flytur. Þetta er skylt hvort öðru. Að okkar viti á ekki að aðskilja þannig að setja upp tvær stjórnvaldsnefndir til að fara með þessi mál, heldur sameina þetta í einu ráði, sem við köllum hljómsveitarráð, og leitast við að þar séu menn bæði með fjármálalega og rekstrarlega þekkingu og þá tónlistarþekkingu sem með þarf. Í þessu efni skyldu menn, hafa það hugfast, að það þarf ekki að vera neitt lögmál að menn, sem hafa yndi af og þekkingu á tónlist, séu einhverjir fjármálalegir afglapar.

Ég skal ekki tíunda fleiri rök. Það má halda áfram að færa rök fyrir þessari brtt. En ég vil að lokum varðandi þetta atriði segja það eitt, að þó að ekki standi í lögunum að til skuli vera verkefnavalsnefnd getur hljómsveitarráð hvenær sem er skipað sína ráðgjafarnefnd til að sinna þessu verkefni. Það á engin hætta að vera hér á ferðinni. Hefur nokkur hætta verið í þessu efni í þau 30 ár sem Sinfóníuhljómsveitin hefur starfað án þess að hafa lög um starfsemi sína og rekstur? Auðvitað ekki. Hvernig sem litið er á þetta mál sýnist mér að menn ættu að sjá að það eru ekki neinar efnisástæður fyrir því að lögbinda að það skuli vera sérstök verkefnavalsnefnd.

Ég kem þá að lokum að síðustu brtt., sem við hv. 4. landsk. þm. flytjum. Það er 7. tölul. á þskj. 373 í brtt. okkar. Það er aðeins brtt. um að í 8. gr., sem verður 7. gr. ef farið er að ráðum okkar að fella niður greinina um verkefnavalsnefndina, þar verði fellt niður orðalag sem gerir ráð fyrir að það séu fleiri en eitt sveitarfélag aðili að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, eins og frv. gerir ráð fyrir. Þetta leiðir af þeirri tillögu, að við leggjum til að bæjarsjóður Seltjarnarness verði ekki aðili að rekstri Sinfóníuhljómsveitar. Því leggjum við til að talað sé um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í þeirri grein, í stað þess að þar er talað um fjárhagsáætlanir viðkomandi sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þessum ítarlegu brtt. okkar hv. 4. landsk. þm. Það kann að vera að það hafi verið ástæða til að skýra þær ítarlegar en ég hef gert í sumum tilvikum, en ég vænti þess, að það komi ekki að sök. Ég vænti þess raunar, að menn sjái að það mundi mjög styðja og styrkja Sinfóníuhljómsveitina ef þessar brtt. yrðu samþykktar, og þá er ómaksins vert að setja Sinfóníuhljómsveitinni löggjöf ef það getur orðið spor fram á við frá því sem verið hefur.