03.03.1982
Neðri deild: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

216. mál, ábúðarlög

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Í yfirlýsingu ríkisstj. við afgreiðslu kjarasamninga í október 1980 er ákvæði um endurskoðun ábúðar- og jarðalaga með tilliti til hagsmuna orlofsbúða verkalýðsfélaga og að skipuð verði nefnd fulltrúa ASÍ, bændasamtakanna og landbrn. til að fjalla um þetta mál. Í samræmi við þessa yfirlýsingu var skipuð nefnd til að vinna að þessu verkefni 14. jan. 1981. Í nefndinni áttu sæti Árni Jónasson erindreki og Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri af hálfu bændasamtakanna, Jóhannes Siggeirsson hagfræðingur frá Alþýðusambandi Íslands, Arnmundur Backman aðstoðarmaður félmrh. og Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri í landbrn. sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði samhljóða áliti um verkefni sitt, og í samræmi við álit nefndarinnar er flutt það frv. sem hér er á dagskrá um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64 31. maí 1976.

Frv. felur í sér að rýmkað er um heimildir til að undirþiggja jörð byggingarskyldu ef jörðin er vel fallinn til útilífsnota og orlofsheimili stéttarfélaga eru þar starfrækt eða áformuð. Þetta er sú eina breyting sem lagt er til að gerð verði á ábúðarlögum samkv. þessu frv. Frv. er einfalt og þarf ekki nánari skýringa við. Vænti ég þess, að það megi verða afgreitt á þessu Alþingi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.