04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

200. mál, listiðnaður

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við fjórir þm. Sjálfstfl., ég og hv. 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttir, hv. 10. þm. Reykv., Friðrik Sophusson og hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, flytjum á þskj. 330 till. til þál. um eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar og er till. svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig best verði staðið að eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar á Íslandi. Skal nefndin m.a. fjalla um eftirtalin atriði:

1. Hvernig opinberir aðilar í samvinnu við einstaklinga, félög og fyrirtæki geti best örvað listiðnað og listhönnun á Íslenskum iðnaðarvörum.

2. Hvernig staðið verði að því að safna heimildum um þróun listiðnaðar og listhönnunar á Íslandi þannig að hér geti myndast vísir að listiðnaðarsafni.

3. Hvernig unnt sé að fjölga sýningartækifærum fyrir íslenskan listiðnað erlendis.

4. Hvernig haga beri samstarfi við aðila sem vinna að sömu markmiðum hjá nágrannaþjóðum okkar, einkum á Norðurlöndum.

Nefndin skal enn fremur taka til athugunar önnur þau atriði, sem stuðlað geta að markmiði því sem till. þessi fjallar um, og gera tillögur um þau.“

Menn velta oft fyrir sér hvernig á því standi, að þjóð eins og t.d. Danir skuli hafa öðlast heimsviðurkenningu fyrir vandaða vöruframleiðslu og mikinn útflutning á iðnaðarvarningi, — þjóð sem er snauð að hráefnum og orku. Svarið liggur í því fyrst og fremst, að frændur okkar Danir hafa kunnað að nota hugvit og listtengi og góðan smekk til að framleiða góða vöru og þeir hafa kunnað að kynna sína vöru úti um allan heim. Sama má segja um þjóð eins og Finna, sem hafa öðlast heimsviðurkenningu fyrir listfengi, fyrir framúrskarandi hönnun á margvíslegri iðnaðarvöru sem þeir flytja út og hafa fengið markaði fyrir víða um heim.

Í flestum menningarlöndum hefur um langt árabil verið unnið að markvissum viðgangi listiðnaðar og hönnunar iðnaðarframleiðslu. Hér hefur fyrst og fremst verið um hvetjandi og samræmandi starfsemi að ræða og þá af hálfu opinberra aðila, jafnframt því að mikil áhersla hefur verið lögð á kynningu á vel hönnuðum vörum. Listiðnaður hefur verið talinn eðlilegur tengiliður milli hinnar frjálsu myndlistar og iðnhönnunar, þar sem fellt er saman listrænt handbragð og útlit annars vegar og þarfir neytenda og tækni framleiðsluiðnaðarins hins vegar. Það er löngu viðurkennt, að án góðrar og listfengrar hönnunar eiga iðnaðarvörur erfitt uppdráttar á markaðnum og ekki verður deilt um það menningargildi sem góður listiðnaður hefur fyrir hverja þjóð.

Ef litið er til þeirra landa, sem næst okkur standa að menningu, má benda á að allt frá miðri 19. öld hefur verið unnið markvisst að þróun listiðnaðar og iðnhönnunar og skipulagt starf farið fram til hvatningar og kynningar. Í Svíþjóð var fyrsta félag stofnað í þessu skyni rétt fyrir miðja síðustu öld og í Finnlandi var stofnað til sambærilegs félagsskapar 1875, en í Danmörku og Noregi fljótlega eftir aldamótin.

Þessi félög voru upphaflega rekin fyrir framlög frá einstaklingum, og það voru einstaklingar sem höfðu frumkvæði að því að þau voru stofnuð svo og fyrirtæki í skyldum greinum. En þegar fram liðu stundir þróaðist þetta þannig að opinber fjárframlög urðu í ríkari mæli grundvöllur að starfsemi þeirra og þau rekin í beinum tengslum við opinbera aðila.

Við Íslendingar höfum verið æðimikið á eftir okkar nágrannaþjóðum í þessum efnum. Þó að listiðnaður sé aldagamalt fyrirbæri hér á landi sem heimilisiðnaður varð ekki veruleg vakning í þessu sem framleiðslugrein hér á landi fyrr en rétt fyrir upphaf síðari heimsstyrjaldar, en segja má að engin veruleg þróun hafi orðið í þessum efnum fyrr en eftir árið 1950.

Listiðnaður og iðnhönnun og starfsemi sem því er skyld tengjast mörgum þáttum í stjórnsýslunni. Þar má nefna menningarmála- eða menntamálaráðuneyti. Hér er um að ræða iðnaðarmál, sem heyra undir iðnrn., og viðskiptamál, sem heyra undir viðskrn.

Það, hversu þetta heyrir undir marga aðila, kann að vera ein meginástæðan fyrir því, hvað erfitt hefur verið að marka þessum málum farveg hér á landi og samræma markmið okkar. Einstök félög hafa þó verið stofnuð í þessum tilgangi hér hjá okkur. Nefna má Félag ísl. teiknara, Félag húsgagna- og innanhúsarkitekta, Textílfélagið og 1.eirlistafélagið, auk Arkitektafélagsins, sem hefur haft áhuga á þessum málum og reyndar samtök annarra listamanna einnig.

Árið 1972 var félagið Listiðn stofnað og var því ætlað að vera einhvers konar samnefnari hinna mörgu greina, en af einhverjum ástæðum hefur því ekki tekist að halda uppi stöðugu starfi.

Þannig má segja að hver vinni í sínu horni án samvinnu eða nokkurra heildarmarkmiða er nýtist til fulls, t.d. í sambandi við þróun hönnunar fyrir okkar iðnað eða til áhrifa á gæðamat neytenda, en í skjóli þess hefur t.d. innflutningur á miðlungsgóðri iðnaðarvöru, sem hægt er að framleiða mun betur hér innanlands, náð undirtökum á markaðnum á allt of mörgum sviðum.

Nokkrar sýningar á íslenskri listiðn hafa verið haldnar erlendis og hafa þær vakið athygli. Þeim þarf að fylgja mun betur eftir með viðskipti fyrir augum.

Norðurlandaþjóðirnar fjórar, Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar, hafa um langt árabil haft með sér náið samstarf og haldið sameiginlegar sýningar og sameiginlegar kynningar á listiðnaði og iðnhönnun víða um heim. Við Íslendingar höfum ekki tekið þátt í þessu samstarfi þó að mér skiljist að við höfum átt þar greiðan aðgang að ef óskaðværi eftir af okkar hálfu. Slíkar kynningar teljast oft til menningarviðburða eð listviðburða, en þeim er engu að síður ætlað að opna augu manna á viðkomandi markaðssvæðum fyrir háþróaðri framleiðslu þjóðanna á sviði nytjalistar. Verulegur hluti þessarar starfsemi hjá Norðurlandaþjóðunum er kostaður eða styrkur með framlögum frá Norræna menningarsjóðnum. Það er okkur enn frekari hvatning til að reyna að taka þátt í þessu samstarfi í ríkari mæli.

Nú er í undirbúningi sameiginleg sýning Norðurlanda í Bandaríkjunum á þessu ári, sem heitir Scandinaia today 82. Þessi sýning hefur reyndar verið umdeild og skal ég ekki blanda mér í þær deilur. En mér er tjáð af þeim, sem hafa með höndum nokkurn undirbúning þessarar sýningar hér á landi, að það hafi komið mjög glögglega í ljós, hvað við erum illa í stakk búnir að því er snertir varðveislu heimilda og ýmissa muna sem segja má að séu stefnumarkandi varðandi þróun listiðnaðar hér á landi síðustu áratugi. Mér skilst að einn þáttur þessarar sýningar sé sá, að Norðurlandsþjóðirnar geri grein fyrir þróun listiðnaðar hver hjá sér á þessari öld, en í lós hafi komið, þegar átt hafi að setja upp slíka sýningu fyrir Ísland, að algjörlega skorti muni og heimildir um þróun þessara greina hér á landi. Ástæðan er sú, að það er engin ein stofnun sem telur sér skylt að sinna þessu verkefni. Ekkert af okkar söfnum, hvorki Listasafn Íslands né Þjóðminjasafnið svo að dæmi séu tekin, telur skyldu sína að sinna þessu verkefni. Því ber brýna nauðsyn til að einhverjum einum aðila innan þjóðfélagsins sé falið það. Á því er m.a. gripið í þessari þáltill.

Það er mat okkar, sem flytjum þessa till., að það sé löngu orðið tímabært að koma á fót hvetjandi starfsemi á þessu sviði, sem tryggt markvissari viðleitni í þá átt að kynna íslenskan listiðnað og iðnhönnun bæði innanlands og utan, stuðla að varðveislu vel hannaðra hluta, fylgjast með því, sem er að gerast erlendis á þessu sviði, og miðla því.

Sem fskj. með þessari till. er prentuð sérstök greinargerð sem á sínum tíma var samin að tilhlutun Iðnþróunarráðs, en hún er eftir þá Gest Ólafsson arkitekt, Stefán Snæbjörnsson húsgagnaarkitekt og Þóri Einarsson prófessor. Þar setja þeir fram sínar tillögur í þessum efnum. Þetta er reyndar orðin æðigömul greinargerð sem þarfnast endurskoðunar í ljósi þeirrar þróunar sem síðan hefur orðið, en engu að síður hefur hún það mikið gildi að rétt þótti að prenta hana hér með sem fskj.

Ég vonast til þess, herra forseti, að þessi till. fái góðan byr hér á hv. Alþingi, og legg til að að loknum fyrri hluta umr. um hana hér í Sþ. verði till. vísað til allshn.