14.10.1981
Efri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta frv. var flutt hér á síðustu dögum þingsins í fyrra og var þá rætt hér við 1. umr. Umræðunni lauk og málinu var vísað til nefndar, en hins vegar varð ekki nein lokaafgreiðsla á málinu. Ég flyt málið nú í sama formi og áður, frv. er samhljóða því sem ég lagði það fyrir á síðasta þingi.

Um aðdragandann að þessu frv. get ég rifjað það upp, að hann er nú orðinn býsna langur. Ég minni á að í þessu frv. má heita að séu í öllum höfuðatriðum sömu ákvæði og voru í frv. sem flutt voru á þingunum 1978–1979 og 1979–1980, á þeim árum sem Ragnar Arnalds var menntmrh. og Vilmundur Gylfason. Hitt er annað mál,

að það hefur verið breytt nokkuð 3. gr. sem varðar það hverjir standi að rekstri og greiði rekstrarkostnað Sinfóníuhljómsveitarinnar. Um það var talsverður ágreiningur á sinni tíð, hverjir standa skyldu að þessu, og þess vegna taldi ég nauðsynlegt að láta endurskoða 3. gr., fá það á hreint hvaða sveitarfélög vildu standa að rekstrinum og hvaða aðilar aðrir. Niðurstaðan varð sú, að þeir aðilar, sem taldir eru upp í 3. gr. nú, eru aðilar að þessum rekstri og vilja vera það. Aftur á móti eru nokkur sveitarfélög hér í grennd við Reykjavík sem reynt var að fá til rekstraraðildar, en höfnuðu því algerlega. Að þessu leyti er hér verið að flytja frv. sem hefur að efni til og allri meginstefnu verið sýnt á mörgum þingum áður.

Sinfóníuhljómsveitin er að verða mjög gömul stofnun. Hún er yfir 30 ára gömul, stofnuð 1950, og sá aðili, sem lengst hefur verið viðriðinn rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar, er Ríkisútvarpið. Jafnframt hefur Reykjavíkurborg frá upphafi verið rekstraraðili. Ríkissjóður sem slíkur kemur ekki inn í þessa mynd fyrr en nokkrum árum eftir stofnunina þannig að Sinfóníuhljómsveitin hefur aldrei verið eiginlegt ríkisfyrirtæki, heldur sameignar- eða samrekstrarfyrirtæki ríkissjóðs, Ríkisútvarps og borgarsjóðs Reykjavíkur. Það er sá grundvöllur sem hefur verið undir rekstri þessarar Sinfóníuhljómsveitar í meira en 30 ár.

Margir hafa auðvitað talið að það væri mikill ágalli á þessu skipulagi að það hefði engan fastan lagagrundvöll. Þess vegna hafa menntmrh. undanfarin mörg ár leitast við að fá Alþingi til að samþykkja lög um Sinfóníuhljómsveitina, lögfesta sem sagt þær reglur sem hún starfar eftir. Og þar er nú komið að ég flyt eitt af þessum frv. og er óhætt að segja að það er í alveg sama anda og verið hefur á undanförnum þingum, eins og fyrirrennarar mínir á menntmrh.-stóli hafa lagt málið fyrir.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum um þetta. Mönnum er yfirleitt vel kunnugt um efni þessa frv., um tilgang þess og um þörf þess. Ég held því að það sé óþarfi að eyða mjög mörgum orðum til að rökstyðja það. Sinfóníuhljómsveitin hefur, eins og ég segi, starfað í 30 ár. Hún starfar enn með miklum blóma. Hún hefur að mörgu leyti sótt sig nú upp á síðkastið, og óhætt er að segja að einmitt nú þessa dagana starfar Sinfóníuhljómsveitin af miklum þrótti og myndarskap. Sinfóníuhljómsveitin fór ágæta ferð til Austurríkis á s. l. sumri, og ég hygg að það sé óhætt að fullyrða að hún gerði þar góða ferð og sýndi að hljómsveitin stendur vel fyrir sínu. Þess vegna held ég að nú sé tími til kominn að við hér í Alþingi mönnum okkur upp og lögfestum reglur um starfsemi þessarar hljómsveitar sem svo lengi hefur starfað, er staðreynd í okkar þjóðfélagi og músíklífi og ég held að flestir hljóti að viðurkenna að full þörf sé fyrir og eigi fullan rétt á sér.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð. Þegar þessari umr. er lokið vænti ég þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.