04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

38. mál, fangelsismál

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt öðrum þingmönnum Vestfirðinga að bera fram till. til þál. um rannsókn og hagnýtingu surtarbrands á Vestfjörðum. Þar er gert ráð fyrir að Orkustofnun og Rannsóknaráði ríkisins verði falið að rannsaka surtarbrand á Vestfjörðum og kanna leiðir til nýtingar hans til orkuframleiðslu og iðnaðar. Er gert ráð fyrir að þessu verki sé hraðað svo sem verða má og að haft sé samband við þann aðila á Vestfjörðum sem hefur með orkumál Vestfirðinga að gera, Orkubú Vestfjarða.

Hér er um að ræða eitt af orkumálunum og ekki eitt þeirra sem þýðingarminnst eru. Hér er um að tefla ákaflega þýðingarmikið og mikilvægt orkumál. Það kemur til m.a. af þeirri þróun sem hefur orðið í orkumálunum á undanförnum áratug, eða allt frá því að olía hækkaði í verði í október 1973, því að síðan hafa flest lönd heims reynt að finna eldsneyti sem gæti komið í stað olíu.

Augu manna hafa æ meira beinst að kolum. Það er til gífurlega mikið af kolum í heiminum, en þar sem olíu var áður mjög ódýr hafði ekki verið lögð nein veruleg áhersla á þróun tækni til nýtingar kola.

Nágrannar okkar Danir voru með þeim fyrstu sem fóru að nota kol í stað olíu, enda var löng hefð hjá þeim í notkun kola. Fyrstu viðbrögð þeirra voru að breyta öllum sementsverksmiðjum í kolakyndingu. Nú standa yfir miklar breytingar í Danmörku á þeim rafstöðvum sem ekki voru kolakyntar. Það er verið að breyta þeim í kolakyndingu. Einnig hafa verið gerðar miklar ráðstafanir til að tryggja innflutning kola þar í landi með tilliti til þessarar þróunar.

Aðrar Norðurlandaþjóðir leggja mikla áherslu á þróun kolanýtingar, einkum Finnar, sem hafa þó stór kjarnorkuver. Liður í þessari viðleitni var ráðstefna, sem haldin var í Finnandi í október s.l. á vegum NORDEL um „Fluidized bed“ kolakyndingu sem hefur verið nefnd á íslensku svifbrunakynding.

Þessi tækni er ekki ný af nálinni og hefur verið notuð síðan 1922 í iðnaði, en eftir olíuverðshækkunina var fyrir alvöru farið að þróa þessa tækni. Þessi tækni felst í því, að lofti er blásið inn í ofninn að neðan og eldsneytinu haldið svífandi inni í eldholinu þannig að mjög góður bruni fæst. Saman við er blandað kalksteini sem dregur í sig brennistein úr kolunum. Er þá reykurinn laus við brennistein sem annars er mjög erfitt og dýrt að losna við með venjulegri kyndingu.

Með „Fluidized bed“ tækninni opnaðist ný og áður óþekkt aðferð til að nýta eldsneyti með lægra brunagildi en venjuleg kol, svo sem brúnkol (surtarbrand), sag, viðurkurl, mó o.fl., eins og víða er gert. Nú þegar er hægt að fá keypta á almennum markaði ofna sem gerðir eru til að nýta þessa nýju tækni.

Í Þýskalandi á þessi tækni sér merka sögu og miklar tilraunir eru gerðar víða um lönd, svo sem í Englandi og Bandaríkjunum. Athygli vekur að í Kína voru þegar árið 1981 komnir 60 gufukatlar með þessari tækni og er nú gert ráð fyrir að taka 10 slíka katla í notkun árlega þar í landi. Í Kína eru notuð kol með lágu brennslugildi eða um 9–20 Mj/kg. Surtarbrandurinn okkar liggur á þessu sviði eða í kringum 16 Mj/kg.

Nú er það stefna okkar Íslendinga að gera okkur sem óháðasta innflutningi orkugjafa. Þess vegna viljum við hagnýta eigin orkulindir. Það gerum við með því að virkja fallvötnin og jarðvarmann. En orkan, sem fæst eftir þessum leiðum, verður ekki af tækni- og hagkvæmnisástæðum notuð til allra þarfa. Þannig verður rafmagn ekki enn hagnýtt til rekstrar þurrkara fiskmjöls- og loðnuverksmiðja og Sementsverksmiðjunnar, þó svo að slík notkun sé nú á rannsóknarstigi. Þess vegna á Sementsverksmiðjan ekki annars úrkosti en að taka upp kolanotkun þegar horfið er frá notkun olíu, eins og nú er ákveðið að gera. En með þessari breytingu hjá Sementsverksmiðjunni er ekki um að ræða að hagnýta innlendan orkugjafa í stað erlends. Það er verið að breyta um erlendan orkugjafa.

Það hlýtur að vera eitt af stóru verkefnunum í framkvæmd orkumálastefnu okkar að hagnýta innlenda orkugjafa sem eldsneyti. Þar er um að ræða hagnýtingu surtarbrandsins.

Gísli Júlíusson verkfræðingur flutti erindi á Orkuþingi á síðasta ári, þar sem hann vakti athygli á því, hvernig rannsóknum á surtarbrandi hefði verið háttað hér á landi. Hér var um merkilegt erindi að ræða. Rannsóknir þessar hófust þegar um síðustu aldamót. Rannsóknirnar hafa aðallega beinst að því að finna, hvar surtarbrandslög eru, og að efnasamsetningu brandsins og brennslugildi, en ekki að því, hversu mikið magn er til af surtarbrandinum. Þó eru til ágiskanir sem gerðar hafa verið eftir aðstæðum á þeim stöðum þar sem surtarbrandslög hafa fundist.

Það er rétt að taka hér fram að ýmsir mætir menn hafa komið við sögu í þessum surtarbrandsmálum. Ætla ég mér ekki þá dul að fara að telja þá upp, en mér þykir rétt að láta þess getið, að fyrr á árum, þegar rannsóknir fóru einkum fram í þessum efnum, létu mjög til sín taka jarðfræðingarnir Guðmundur G. Bárðarson og Jóhannes Áskelsson. Fleiri merkir menn komu við sögu þeirra rannsókna, svo sem Jón Þorláksson verkfræðingur, hinn kunni maður, sem á sér nú stærri sögu en í þessum surtarbrandsmálum. Svo er reyndar um aðra þá menn sem ég nefni hér. Það eru einnig menn nú á meðal okkar sem hafa sérstaklega unnið að athugunum á þessum málum. Ég hygg að ég geri engum rangt til þó að ég nefni í því sambandi Þórodd Th. Sigurðsson vatnsveitustjóra, sem hefur mjög sinnt athugunum á þessum málum.

Það var á sínum tíma mjög mikið rætt um þessi mál í fjölmiðlum, eins og nú mundi vera sagt. Þeir fjölmiðlar, þar sem mest var rætt um þetta og ritað í á sínum tíma, voru Andvari og Tímarit Verkfræðingafélags Íslands. Í þessum ritum er að finna margs konar fróðleik um þessi efni.

Þessi till. miðast sérstaklega við Vestfirði. Það er vegna þess að Vestfirðir hafa sérstöðu í þessum efnum. Þar fyrirfinnast surtarbrandslög víðs vegar. Má þar nefna surtarbrandslögin á Barðaströnd, Patreksfirði, Arnarfirði, Súgandafirði, Bolungarvík, Steingrímsfirði, Hrútafirði og Kollafirði í Strandasýslu og er þó hvergi nærri allt upp talið. Ef menn líta á kort yfir surtarbrand á Vestfjörðum, sem fylgir þessari þáltill., sjá menn að surtarbrandurinn er á miklu fleiri stöðum en ég hef hér nefnt. Það hefði t.d. mátt nefna Önundarfjörð, Dýrafjörð, Skutulsfjörð og Álftafjörð, svo að eitthvað sé nefnt til viðbótar við það sem ég hef áður sagt. En sá staður, sem athyglin hefur beinst helst að, er Stálfjall í Vestur-Barðastrandarsýslu. Þar hefur farið fram lauslegt mat og var það gert árið 1917 af sænska verkfræðingnum Ivar Svendberg, sem áleit að þar væru um 180 millj. tonn af surtarbrandi og mundi það nægja 600 mw. rafstöð í 60 ár. Hér er um að ræða álíka mikið uppsett afl og nú er samtals í öllum vatnsvirkjunum landsins. Þegar þetta er haft í huga er kannske skiljanlegri fullyrðing sem sett var fram 1917, að í þessu eina fjalli væri til orka sem mundi nægja Íslendingum til eilífðar. En þetta var mælt á mælikvarða þeirra tíma. Við höfum nú allt annan mælikvarða í þessum efnum. En hvernig sem á þetta er litið má augljóst vera hvílíkar gífurlegar orkulindir er hér um að ræða ef þær eru hagnýtanlegar.

Áður fyrr, og einkum á heimsstyrjaldarárunum fyrri og síðari, var surtarbrandur nokkuð unninn á Vestfjörðum, svo sem í Súgandafirði, Bolungarvík, Dufansdal og Stálfjall. Með þeirri tækni, sem þá viðgekkst, þótti þetta eldsneyti of dýrt til frambúðar og sérstaklega erfitt að nálgast það. Með nútímaaðferðum við námugröft og flutningatækni og endurbættum brennsluaðferðum eru viðhorf nú gerbreytt í þessum efnum. Vinnsla surtarbrands gæti nú orðið arðvænleg.

Það er með tilliti til þessa sem sú þáltill., sem við hér ræðum, er borin fram. Verður að vinda bráðan bug að því að kanna hverjir möguleikar kunna að vera hér ónotaðir. Svo miklir hagsmunir eru í húfi að vinna verður markvisst og skipulagsbundið í þessu máli. Þess vegna er lagt til að Orkustofnun og Rannsóknaráði ríkisins verði falin rannsókn á surtarbrandi á Vestfjörðum og könnun leiða til nýtingar hans til orkuframleiðslu og iðnaðar.

Nú liggur þegar fyrir mikil vitneskja um staðsetningu surtarbrandslaga og brennslugildi surtarbrandsins. Hins vegar er lítið vitað með vissu um magn surtarbrandsins á hinum ýmsu stöðum. Ekki hefur heldur verið rannsökuð aðstaða til vinnslu surtarbrandsins á hinum ýmsu stöðum miðað við nútímaaðferðir við námugröft og flutningatækni. Þá hefur arðsemi af vinnslu surtarbrands ekki verið metin miðað við þær endurbættu brennsluaðferðir sem nú eru fyrir hendi og tíðkast nú þegar víða annars staðar. Allt eru þetta verkefni sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir að unnin verði af Orkustofnun og Rannsóknaráði.

Hér er um að ræða verkefni sem að ýmsu leyti er hreint vinnslutæknilegt úrlausnarefni. Það þarf að athuga hvað kostar að vinna surtarbrandinn, hvað kostar að flytja surtarbrandinn til væntanlegra notenda. Það þarf að kanna hver er stofnkostnaðurinn við geymslu og brennslu surtarbrandsins. Það þarf að gera samanburð við aðra orkugjafa, svo sem rafmagn, jarðvarma, innflutt kol og olíu. Athugun þessi ætti að svara þeirri meginspurningu sem svar þarf að fást við: Er hagkvæmt nú þegar að nýta íslenskan surtarbrand? Ef svarið skyldi vera neikvætt þarf að koma fram við athugunina hvað forsendur þurfa að breytast mikið og hvernig til þess að hér geti orðið um hagkvæma nýtingu að ræða. Að sjálfsögðu þarf í þeim samanburði að taka tillit til margs konar sjónarmiða, svo sem öryggissjónarmiða vegna olíuflutninga til landsins, ef þeir væru hindraðir af utanaðkomandi ástæðum.

Ég sagði áðan að það yrði að vinda bráðan bug að þessu máli svo mikilvægt sem það er. Þess vegna er gert ráð fyrir því í þessari þáltill., að fjárskortur verði ekki til trafala við þær aðgerðir, sem þarf, og að kostnaður verði greiddur með sérstökum fjárveitingum úr ríkissjóði til þessara verkefna þeim stofnunum sem ætlað er að vinna verkið.

Ég vil í þessu sambandi víkja nokkru nánar að Vestfjörðum. Ég sagði í upphafi máls míns að þessi till. væri mjög miðuð við Vestfirði. Jafnframt því, að á Vestfjörðum eru aðalsurtarbrandssvæði landsins, hafa Vestfirðir einnig þá sérstöðu að hafa yfir að ráða minni orkulindum en aðrir landshlutar í formi vatnsafls og jarðhita. Er því tvöföld ástæða til að leggja sérstaka áherslu á vinnslu surtarbrands á Vestfjörðum. Árangurinn af slíku gæti líka orðið tvíþættur. Annars vegar væri skapaður möguleiki, sem nú er ekki fyrir hendi, til þess að leysa olíuna af hólmi með innlendum orkugjafa í mjög þýðingarmiklum og orkufrekum iðnaði. Hér dugar ekki að auka raforkuframleiðslu í landinu vegna þess að raforkan verður ekki hagnýtt nú í þessu skyni. Til þess þarf að koma nýr orkugjafi sem við nú ráðum ekki yfir, en gætum fengið með hagnýtingu surtarbrandsins. Hagnýting slíks nýs orkugjafa hefði í för með sér ómetanlegan hag fyrir efnahag landsins í heild. Hins vegar væri skapaður möguleiki með hagnýtingu surtarbrandsins til stórátaks í eflingu byggðar á Vestfjörðum.

Er þá nokkur þörf að efla byggð á Vestfjörðum? Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu. Svarið er augljóst og hlýtur öllum að koma saman um það. Ég ætla ekki heldur að fara hér að halda almenna ræðu um byggðaþróun á Vestfjörðum. Þau mál eru alkunn. Ég vil aðeins árétta það, sem ég sagði áðan um mikilvægi þessa máls fyrir Vestfirði, með því að minna á að Vestfirðir hafa algera sérstöðu meðal allra landshluta í byggðaþróun.

Ég nefni eina staðreynd aðeins til að undirstrika þetta. Í hálfa öld, eða frá 1930–1980. varð um 20

% bein fólksfækkun á Vestfjörðum. Árið 1930 voru þar rúm lega 13 þúsund manns, 1980 um 10 600. Fólki hefur fækkað um 2 600 á þessu tímabili. Það er bein fækkun sem nemur 19.8%. Í öllum öðrum landshlutum, öllum öðrum kjördæmum hefur orðið um tölulega fjölgun fólks að ræða.

Hvers vegna er þessi þróun á Vestfjörðum? Aðeins nokkur orð um það. Það eru að sjálfsögðu margar ástæður og margslungin mál, en ein staðreynd sker sig úr og hefur þýðingu í því sambandi sem um er að ræða hér. Það er einhæfni atvinnulífsins. Vestfirðir skera sig úr öllum landshlutum, öllum kjördæmum í þessu efni. Ég þarf ekki að segja hver er aðalatvinnuvegurinn á Vestfjörðum. Samkv. nýjustu skýrslum um skiptingu mannaflans á Vestfjörðum eru rúmlega 43% sem vinna við fiskveiðar og fiskiðnað. Ef við berum þetta saman við aðra landshluta og önnur kjördæmi er ekkert sem jafnast á við þetta. Aðrir landshlutar eru langt undir þessu og hafa enga eina atvinnugrein sem nálgast þetta.

Það er með tilliti til þessa sem ég legg áherslu á það, að með vinnslu surtarbrands á Vestfjörðum gæti fengist grundvöllur fyrir þeirri fjölbreytni í atvinnulífi sem þar skortir nú mjög á. Þessi hagnýting orkulinda getur skapað beinlínis mjög mikla atvinnu við námugröft og flutninga, auk þeirrar almennu atvinnuuppbyggingar sem óbeinlínis hlýtur að leiða af þessari vinnslu. Með slíkri þróun gæti staða Vestfjarða í orkumálum landsins gerbreyst frá því sem nú er. Í stað þess að hafa litið gildi fyrir orkubúskap þjóðarinnar í heild, þegar einungis er litið á vatnsafl og jarðhita, væru Vestfirðir þýðingarmikill aðili í orkuvinnslu landsins, auk þess að vera með hagnýtanlega orkulind sem er ómissandi en ekki annars staðar að hafa í landinu eða í miklu minna mæli.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú þegar sagt, hygg ég að öllum hv. þm. megi vera ljóst að hér er ekki neitt hégómamál á ferðinni. Það má vera augljóst þegar haft er í huga hve mikil sú orka er sem þarf til þess rekstrar sem notar eldsneyti sem orkugjafa. Í dag eru um 50% af orkugjöfum landsmanna innflutt. Nú eru um 30% af þessum innflutningi svartolía eða 15% af öllum orkugjöfum landsins. Hér erum við að fást við það verkefni að kanna hvort surtarbrandurinn getur komið í staðinn fyrir innflutta svartolíu í veigamiklum atvinnugreinum. Hann getur ekki komið hvarvetna. En það er ákaflega veigamikil atvinnugrein þar sem surtarbrandur gæti leyst erlendan orkugjafa af hólmi ef vinnsla væri hagkvæm.

Á árinu 1980 voru flutt inn 171 þús. tonn af svartolíu. Þar af munu hafa farið um 100 þús tonn til fiskmjölsverksmiðja, Sementsverksmiðjunnar og Hvalstöðvarinnar. Ef þessir aðilar notuðu surtarbrand hefði gjaldeyrir verið sparaður á árinu 1980 að upphæð um 21 millj. dollara eða um 210 millj. kr. Útsöluverð hefði verið um 240 millj. kr. Af surtarbrandi samsvarandi að orkugildi mundi hafa þurft um 230 þús. tonn. Þetta mundi svara til um 900 gwst. á ári í rafmagni eða sem svarar 210 mw. í uppsettu afli, sem er jafnmikið og Hrauneyjafossvirkjun fullgerð.

Ég hef hér einungis verið að tala um hagnýtingu surtarbrandsins sem eldsneytis. Slík notkun surtarbrands kemur þó til greina í ýmsum fleiri tilvikum en ég hef hér vikið að, svo sem kyndingar hitaveitna sem ekki hafa jarðvarma sem orkugjafa. Þá kann og að geta verið hagkvæmt að framleiða rafmagn með surtarbrandi í raforkuverum á námustað. En auk þess getur surtarbrandurinn orðið hagnýtur til margs konar efnaiðnaðar.

Af því, sem ég hef nú sagt, má marka hve þýðingarmikill þáttur í þjóðarbúskapnum hagnýting surtarbrandsins gæti orðið fyrir landið í heild og Vestfirði sérstaklega.

Það verður ekkert fullyrt fyrir fram um niðurstöður þessara rannsókna eða kannana. En það eru ákaflega sterkar líkur fyrir því, að hér séum við að ræða um raunhæfa hluti. A.m.k. eru þeir þess eðlis, að það væri óforsvaranlegt ef við legðum ekki kapp á að komast til botns í því máli, hvort nýting surtarbrandsins sé hagkvæm eða ekki. Ég sagði áðan að það mætti ekki standa á fjármunum til að vinna að þessu verkefni. Ég hygg að það geti naumast verið nokkur ágreiningur um slíkt. Auðvitað er ákaflega mikið komið undir því, að Orkustofnun og Rannsóknaráð ríkisins taki þetta verkefni mjög ákveðnum og föstum tökum. Mér er ljóst að báðar þessara stofnanir hafa mörgum verkefnum að sinna og eru hlaðnar verkefnum, en hér er um slíkt verkefni að ræða að mínu viti, að það má ekki gjalda þess. Því verður þetta verkefni að hafa nokkurn forgang. Það er svo mikið í húfi fyrir þjóðarbúið í heild og Vestfirðinga sérstaklega.

Ég vék að því áðan að þessi till. gerið ráð fyrir að þetta rannsóknar- og könnunarverkefni verði unnið í samráði við Orkubú Vestfjarða. Það er eðlilegt vegna þess að Orkubú Vestfjarða fer samkv. lögum með orkumál Vestfirðinga og Orkubúið hefur þess vegna beinna hagsmuna að gæta í þessu máli. Ég vil líka láta það koma hér fram, að mér er kunnugt um að forvígismenn Orkubúsins telja þetta mál vera þess eðlis, að það þurfi að taka þegar föstum tökum. Þess er að vænta, að það samráð, sem ætlast er til að sé haft við Orkubú Vestfjarða, skili þeim árangri, að Orkubúið geti stuðlað að framgangi þessa máls og hvatt til þess að það verði unnið eins fljótt og vel og nokkur kostur er.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að till. þessari verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn.