04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

224. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Við flytjum hér sex þm. till. til þál. um aðgerðir til þess að tryggja eðlilega byggðaþróun í Árneshreppi í Strandasýslu. Till. fjallar um að fela ríkisstj. að láta framkvæma undirbúning og hönnun að hafnarframkvæmdum í Árneshreppi í Strandasýslu og gera kostnaðaráætlun um þessar framkvæmdir og tillögu til fjáröflunar til að standa undir þeim, verði stefnt að því, að vinna geti hafist vorið 1983, og jafnframt að þessar aðgerðir verði þær fyrstu af hálfu ríkisvaldsins til þess að treysta og efla byggð í nyrsta hreppi Strandasýslu, Árneshreppi.

Það mun ekki þekkjast annars staðar að meginhluta árs sé ekki hægt að skipa upp vörum nema á smábátum úr skipum sem koma veð varning í hreppinn eða flytja frá honum, en mikinn hluta ársins er þessi hreppur ekki í sambandi við akvegakerfi landsins vegna þess að þar eru niðurgrafnir vegir sem lokast snemma að hausti og eru að verulegu leyti lokaðir fram eftir öllu vori og jafnvel fram á sumar. Hins vegar hafa átt sér stað allmyndarlegar framkvæmdir í vegagerð innan hreppsins á síðustu árum, jafnframt því að ýmislegt hefur verið unnið til hagsbóta fyrir þennan hrepp sem er sjálfsagt að geta um. Aldrei má gleyma að geta þess sem vel er gert. Samt er eftir stórátak í vegagerð til að tryggja nýtingartíma þessa vegar til hreppsins, og sömuleiðis er óumflýjanlegt að framkvæmdir verði í hafnarmálum.

Ef við lítum á byggðaþróunina í þessum hreppi á liðnum árum, þá var þar á árinu 1910 431 íbúi en árið 1920 479. Á næsta áratug fækkar íbúum nokkuð og eru árið 1930 434. En á áratugnum 1930–1940 verða miklar framfarir í hreppnum. Þá er byggð þar síldarverksmiðja á Djúpuvík og um eða eftir 1940 önnur á Eyri í Ingólfsfirði. Hefst þá mikið blómaskeið í hreppnum og á áratugnum 1930–1940 fjölgar fólki þar verulega, eða um 18.7%. Íbúar verða þar flestir 515 á árinu 1940. Síðan verður þarna veruleg fólksfækkun eftir að þessi mikilvægu atvinnufyrirtæki leggjast niður ásamt síldarsöltun, sem átti sér stað, og vegna minnkandi fiskgengdar í Húnaflóa á þessum árum. Svo er komið á árinu 1971, að íbúatalan er komin niður í 215. Hefur fólki þá fækkað frá því sem það var flest um 300, úr 515 í 215. Og áfram heldur fækkunin á síðasta áratug. Fæstir verða íbúarnir 168 árið 1978, en voru á s.l. ári 175. Heldur hefur því rétt við, en engan veginn svo að hægt sé að segja að búseta standi þar traustum fótum.

Ef við litum í örstuttu máli yfir fjölda býla í hreppnum, þá voru þau árið 1958–1959 35, en voru á árunum 1974–1975 komin niður í 20. Ærgildi voru flest árin 1962–1963, 5428 alls og ærgildi á býli 181. Til samanburðar við þetta má taka árin 1974–1975, þá eru ærgildi alls 3258 og eru aðeins 163 á hvert býli í hreppnum.

Það er sjáanlegt af öllu að íbúar í þessum hreppi, sem er mjög strjálbýll, geta engan veginn staðið undir sinum hluta í hafnargerð eins og hafnarlöggjöfin gerir ráð fyrir. Um er að ræða fleiri en einn stað í Arneshreppi þar sem hafnaraðstaða er eða er talin nauðsynleg, eins og t.d. í Djúpuvík. Þar var góð hafskipabryggja sem er fyrir löngu orðin ónýt. Einstaklingar hafa að mestu byggt þar upp bryggju þó að meira þurfi til. Nokkur, en léleg hafnaraðstaða er á Gjögri. Sömuleiðis var góð bryggja á Eyri í Ingólfsfirði, en sá staður er fyrir löngu kominn í eyði. Í Norðurfirði er lítil bryggja., en þar geta strandferðaskipin eða stærri bátar ekki farið upp að svo að skipa verður öllum vörum út og upp á litlum bátum. Þar er aðalverslunarstöð hreppsins því að kaupfélag er á Norðurfirði. Því mun ekki orka tvímælis að þar væri skynsamlegast að byggja upp framtíðarhöfn.

Ég sé ekki annað en nauðsyn sé á því allra hluta vegna að koma einhverjum skrið á þetta mál með því að við þm. Vestf. flytjum þessa till. hér, en til þess liggur m.a. eindregin samþykkt hreppsnefndar Arneshrepps sem gerð var á s.l. ári, 30. ágúst 1981. Í þeirri samþykkt segir:

„Hreppsnefnd Árneshrepps beinir þeirri eindregnu áskorun til samgrh. og annarra þm. Vestfjarðakjördæmis svo og fjvn. Alþingis, að nú þegar verði hafist handa um framkvæmdir í hafnarmálum í sveitarfélaginu. Vill nefndin benda á að ekki hefur verið unnið að þessum málum í hreppnum á vegum Hafnamálastofnunar s.l. 14–15 ár og því fé, sem áætlað hefur verið að leggja fram til þessa, jafnan verið kippt til baka. Hreppsnefndin bendir einnig á að með tilkomu nýrra strandferðaskipa og breyttrar tækni við lestun og losun þeirra mun verða nær óframkvæmanlegt að afgreiða vöruflutningaskip á Norðurfirði nema hafnaraðstaða sé fyrir hendi.

Þá má benda á að þróun atvinnulífs í hreppnum byggist á aukningu útgerðar og er bætt hafnaraðstaða forsenda þess. Einnig bendir hreppsnefndin á að svo háttar til í byggðarlaginu, að samgönguleiðin til Djúpuvíkur að vetrarlagi er eingöngu sjóleiðin frá Gjögri, og er full nauðsyn á endurbótum á bryggjunni á Gjögri, sem mun vera að hruni komin. Einnig er rekin frá Gjögri nokkur trilluútgerð. Hreppsnefndin vill því einróma árétta eftirfarandi:

1. Að á Norðurfirði verði gerð vöruhöfn, sem miðist við að hægt sé að afgreiða strandferðaskipin a.m.k. og mundi einnig vera skjól fyrir smærri báta.

2. Að á Gjögri verði ferjubryggja og verði veitt fé til endurbóta á bryggjunni þar úr ferjubryggjusjóði.“ Þar er átt við framlag til ferjubryggja. — „Lítur hreppsnefndin mjög alvarlegum augum ef þessu brýna hagsmunamáli byggðarlagsins verður ekki sinnt.“

Við þm. Vestfirðinga höfum nokkrum sinnum rætt þetta mál síðan og komist að þeirri niðurstöðu, að til þess að þetta mál njóti einhvers forgangs fram yfir venjulegar hafnarframkvæmdir væri rétt að leggja fram ályktun sem þessa fyrir Alþingi, því að ef, eins og ég vona, Alþingi afgreiðir þessa ályktun eins og hún liggur hér fyrir eða með viðunandi hætti, þá verður að líta svo á að það sé vilji Alþingis að unnið sé markvisst að því að tryggja eðlilega byggðaþróun í þessum hreppi.

Ég tel að það komi fleira til en bein framlög ríkissjóðs á fjárlögum. Það kemur ekkert síður til greina að Byggðasjóður eigi hér hluta að máli. Vil ég í því sambandi vitna í lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins, en í 28. gr. þeirra laga segir:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 10. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Því teljum við flm. þessarar till. það vera hlutverk Byggðasjóðs að koma þarna einnig til aðstoðar.

Mér er ánægja að skýra frá því, að margt af því, sem hefur verið gert og vel gert í þessum hreppi á síðustu árum, hefur fyrst og fremst verið fyrir forgöngu heimamanna sjálfra, forgöngu þess fólks sem hefur byggt þennan hrepp og þolað allt það mótlæti sem þetta byggðarlag hefur orðið fyrir af bæði viðráðanlegum og óviðráðanlegum ástæðum. Það var gengið til mikillar og myndarlegrar uppbyggingar í landbúnaðarmálum á nokkurra ára bili fyrir forgöngu búnaðarfélags hreppsins, sem hófst með fundi í búnaðarfélaginu þar 17. ágúst 1973. Síðan var leitað til Landnáms ríkisins um áætlanagerð. Landnámið vann mjög vel að þessum málum ásamt búnaðarsambandi sýslunnar og var þar safnað gögnum um búskaparástand. síðan réðst Búnaðarsamband Strandamanna í kaup á tengimótum. Framkvæmdir drógust þó nokkuð, en með stofnun hinnar svokölluðu „áætlananefndar“ var haldið áfram að vinna að þessum málum á þessum vettvangi. Góður árangur náðist með starfi þessarar nefndar hvað snertir bæði ræktun og einkum uppbyggingu á útihúsum.

Þá ber þess að geta, sem ekki síst hefur haft áhrif á búsetu í Árneshreppi, að þar var lögð raflína. Nam kostnaður við Árneshreppslínu á verðlagi hvers árs fyrir sig 1975, 1976 og 1977 og Trékyllisheiðarlínu á árinu 1977: 95 þús.kr., 263 þús. kr., 331 þús. kr. og 443 þús. kr. Á verðlagi 31. des. 1981 hefur kostnaður alls orðið um 600 millj. gkr., en ég fullyrði að þessi framkvæmd varð til þess að treysta nokkuð byggðina í þessu strjálbýla og einangraða byggðarlagi.

Ég vil minna hv. alþm. á það, að tveir hreppar fyrir norðan og vestan Árneshrepp, Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu og Grunnavíkurhreppur í sömu sýslu, fóru í eyði fyrir liðlega 30 árum vegna þess að þar var ekki hægt að lifa við neitt nálægt því sömu aðstæður og aðrir landshlutar buðu. Þar vantaði öll þægindi. Fólkið flykktist burt úr þessum hreppum til lífvænlegri staða. Meðal þess, sem gerði það að verkum að þessar byggðir fóru í eyði, var samgönguleysið, skortur á hafnarframkvæmdum.

Þegar síðustu íbúarnir fluttust úr þessum hreppum urðu mikil blaðaskrif um að það þyrfti að byggja landið allt. Margir rifu hár sitt og sögðu að það hefði þurft að gera ráðstafanir í tæka tíð. En það var orðið of seint. Þetta fólk fór frá eignum sínum. Að vísu voru þær ekki miklar á mælikvarða dagsins í dag, en þetta fólk fékk engar bætur frá samfélaginu. Það varð að yfirgefa sitt eftir mismunandi langt lífsstarf og yfirgefa þessa staði. Sama er nú uppi í þessum hreppi, Árneshreppi. Ef ekki er gert þar átak frekar en þegar hefur verið gert getur svo farið að sama verði uppi á teningnum og í þessum tveimur hreppum sem ég nefndi áðan. Því treystum við því þm. Vestf., sem stöndum að þessum tillöguflutningi, að hv. Alþingi taki þessari tillögu vel og samþykki hana og að hæstv. ríkisstj. láti framkvæma það, sem till. gerir ráð fyrir, og stefnt verði að því að þessar framkvæmdir geti hafist vorið 1983.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri, því að till. fylgir ítarleg grg. þar sem bent er á margvíslegar upplýsingar sem eiga að verða að gagni fyrir framgang þess máls, sem hér er gert að umræðuefni, og þeirra mála annarra, sem eiga að koma síðar.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.