04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

224. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. 5. þm. Vestf. Því ber vissulega að fagna, að þeir Vestfjarðaþm. skuli hafa orðið sammála og að þeir skuli í sameiningu standa að þeirri till. sem hér er nú til umr. Ég hef reyndar vonast eftir því, að till. sem þessi sæi dagsins ljós hér á hv. Alþingi nokkru fyrr, en þessi till. skal þó ekki vanþökkuð. Ég vænti þess, þó að hún sé seint á ferð, að með samþykkt hennar verði hægt að snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað norður þar á undanförnum árum.

Hv. 1. flm. till., Matthías Bjarnason, gerði allvel grein fyrir stöðu mála í Árneshreppi, en sökum kunnugleika míns á þeim stað langar mig til að bæta þar nokkrum atriðum við.

Hv. þm. Matthías Bjarnason nefndi það, að á áratugnum 1930–1940 voru byggðar síldarverksmiðjur í Árneshreppi, fyrst á Djúpuvík. Sú verksmiðja er byggð 1934–1935 og starfaði af mjög miklum krafti á 4. og 5. áratugnum og var eitt af öflugustu gjaldeyrisöflunarfyrirtækjum landsins á því tímabili. Ingólfsfjarðarverksmiðjan tók til starfa á árinu 1942 og kom þess vegna í enda þess tímabils þegar síldin óð þarna inn á hvern fjörð. Sú verksmiðja starfaði mjög stuttan tíma, sökum þess að síldin hvarf af miðunum, og hún hafði ekki heldur styrkt sig nógu mikið fjárhagslega til þess að geta staðið í baráttunni eins lengi og Djúpavíkurverksmiðjan gerði þó.

Strax á árunum í kringum 1940 fer það fólk, sem stóð að þessum verksmiðjum og byggði þær að miklu leyti upp, þ.e. íbúar Árneshrepps, fram á það við þá aðila, sem ráku síldarverksmiðjuna á Djúpuvík, að þar yrði hafin önnur starfsemi en þessi eina. Gengið var mjög stíft eftir að þetta fyrirtæki kæmi upp öðrum atvinnugreinum, þ.e. að það færi að byggja á öðrum fisktegundum en síldinni einni. Því miður var sá kostur ekki valinn og þegar síldin hvarf var raunverulega ekki um neina atvinnu að ræða á þessum stöðum. Einstaklingar, sem bjuggu á Djúpuvík, tóku sig til og hófu útgerð og gerðu það allmyndarlega nokkurn tíma. En sökum þess að þeir höfðu ekki fjármagn til að standa af sér hin erfiðu ár, sem þá gengu yfir, lagðist útgerð þeirra að mestu niður og þeir fluttust af staðnum.

Ég tel að íbúar Árneshrepps eigi inni hjá íslenska þjóðfélaginu — og kannske fyrst og fremst íslenska einkaframtakinu — allstóran hlut frá því á árunum 1934–1950 er á þessu svæði var eitt öflugasta atvinnufyrirtæki landsins, að það, sem þetta svæði færði þá í þjóðarbúið, hafi ekki verið endurgreitt og vissulega sé kominn tími til þess, að Alþingi og ríkissjóður veiti þessu byggðarlagi stuðning svo að þar megi haldast byggð.

Sú tillaga, sem getið er í grg., að gerð skuli höfn á Norðurfirði, er að mínu áliti mjög góð og sú nauðsynlegasta til uppbyggingar á svæðinu. Það er erfitt fyrir byggð, þegar aðrar samgöngur eru ekki fyrir hendi en flutningar sjávarleiðina, að þar sé engin bryggja til staðar. Það var hægt að notast við bringingarbáta á miðri þessari öld, en alls ekki á þeim tíma sem við lifum nú á.

En það eru aðrar hafnargerðir sem ég tel að séu nauðsynlegar og næstum eins nauðsynlegar og hafnargerðin á Norðurfirði. Það eitt dugar ekki að mínu mati fyrir Árneshrepp að hafnaraðstaða verði byggð á Norðurfirði. Það er vitaskuld mjög gott skref, en þó að það sé tenging við aðalverslunarstaðinn er það ekki nóg. Til þess að halda uppi atvinnulífi í Árneshreppi þarf að vera hægt að sækja sjóinn og hann verður ekki eingöngu sóttur frá Norðurfirði. Til þess að hægt sé að sæk ja sjó úr Árneshreppi þarf að vera hafnaraðstaða á Djúpuvík og á Gjögri. Þegar ég nefni hafnaraðstöðu, þá á ég ekki við að það verði farið að byggja á þessum stöðum hafskipabryggjur, heldur verði sú aðstaða, sem þar er fyrir hendi, löguð mjög og gerð þannig úr garði, að hægt sé að reka þaðan smábátaútgerð. Því miður er aðstaða til þess á hvorugum þessara staða nú. Ef slík aðstaða kemur ekki á allra næstu árum á þessum stöðum er hætt við því í fyrsta lagi, að Djúpavík fari í eyði. Þá hefur allur innri hluti svokallaður eða syðri hluti Árneshrepps farið í eyði og þá er norðursvæðið orðið að nokkurs konar eyju. Þá hefur Árneshreppur farið í eyði frá Kaldbaksvík og norður fyrir Reykjarfjörð. Eftir að slíkt hefur gerst tel ég líkur fyrir því, að byggð haldist í nyrðri hluta hreppsins, vera mjög takmarkaðar. Nákvæmlega sama kemur upp ef ekki verða gerðar einhverjar úrbætur á Gjögri nú á allra næstu tímum. Þá er hætt við að sú byggð, sem þar er, falli niður. Þá kemur það dæmi upp, að bilið á milli þessarar littu vinjar, sem nú er í Djúpuvík, og aðalbyggðarinnar í norðurhluta hreppsins fer að verða of stórt, þannig að jafnvel þó að einhver kraftur væri í byggðinni á Djúpuvík er hætt við að staða þeirrar byggðar yrði mjög veik ef Gjögurbyggðin héldist ekki. Til þess að tryggja að byggð haldist í Árneshreppi tel ég að á næstu árum sé nauðsynlegt að gengið sé í það að endurbæta hafnaraðstöðu á öllum þessum þremur stöðum.

Hv. þm. finnst þetta kannske stórt talað, að fara að byggja þrjár hafnir í Árneshreppi. Ég man eftir því, að fyrir nokkrum árum nefndi ég þessa hugmynd hér á hv. þingi og þá skaut einn þm. Vestf. á mig spurningu: Á að byggja þrjár hafnir í hreppnum? Ég er enn þá við sama heygarðshornið, og ég vona að þm. Vestf. séu á sömu skoðun og ég í því máli.

Í grg. er nefnt að raflína hafi verið lögð norður í Árneshrepp, líkast til um 1977. (Gripið fram í: 1975–1977.) 1975–1977, og tekið er fram að vissulega beri að geta þess sem vel er gert. Það er sjálfsagt. En ég held að það væri líka rétt að geta þess og undirstrika það — vitaskuld var þetta mjög gott verk þó seint væri — að það er ekki fyrr en 1975–1977 sem Árneshreppur fær rafmagn og fáum árum fyrr komst þessi byggð í vegasamband. Ég hef því miður ekki þau ártöl, en ég held að það hafi verið síðast á sjöunda áratugnum sem hreppurinn komst í samband við aðalakvegakerfi landsins. Og eins og hv. 1. flm., Matthías Bjarnason, benti á er sá vegur þannig að hann lokast í fyrstu snjóum.

Tilkoma raflínunnar tryggði það — ég tek undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði — hún tryggði það að byggð héldist jöfn í Árneshreppi á svipuðum tíma og Búnaðarfélagið hafði tekið sig til og hafið mjög öfluga uppbyggingu í hreppnum eftir sérstakri áætlun. En ég vil nefna eitt atriði í sambandi við Árneshrepp sem ég held að hafi fyrst og fremst tryggt þar byggð, en það er hvað Árneshreppsbúar aðlöguðu sig þeirri aðstöðu sem þeir bjuggu við. Sá búskapur, sem þar er rekinn núna, er rekinn af sérstakri hagkvæmni og Árneshreppsbúar hafa verið forystumenn í því að verka sitt hey í vothey. Þeir hafa ekki eins og aðrir bændur í öðrum hlutum landsins verið við erfiðar aðstæður og í rigningartíð að berjast við að þurrka hey. Þess vegna tel ég að þarna sé byggð enn þá. Ég held að það væru ósköp góð verðlaun fyrir Árneshreppsbúa fyrir að hafa einmitt haft forustu í þessu máli og kennt kannske stórum hópi íslenskra bænda hvað þessi verkun er sjálfsögð á Íslandi, að þeir væru nú studdir öfluglega í uppbyggingu á næstu árum. Og ég vil taka undir það sem hv. þm. Matthías Bjarnason sagði í lok ræðu sinnar, að við þurfum að gera okkur grein fyrir því, að það eru kannske síðustu forvöð að sporna við því, að Árneshreppur allur fari í eyði, — ég undirstrika: Árneshreppur allur, það er mikill hluti hans þegar farinn í eyði, bæði nyrðri og syðri hluti, en að Árneshreppur allur fari á svipaðan hátt og Grunnavíkurhreppur og Sléttuhreppur. Ég er alveg viss um að það verða ekki eingöngu við, sem erum þaðan ættaðir, sem munu sjá eftir því, ef slíkt á sér stað, heldur mun þjóðin öll harma það, ef þannig færi að þessi byggð færi í eyði.