04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

225. mál, úttekt á svartri atvinnustarfsemi

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál., sem ég flyt ásamt hv. þm. Karvel Pálmasyni og Benedikt Gröndal á þskj. 406 og er 225. mál þessa 104. löggjafarþings. Till. fjallar um skipan nefndar til þess að gera úttekt á því, sem þar er kallað „svört atvinnustarfsemi“, og tillögur til úrbóta. Með leyfi hæstv. forseta er till. svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skipuð skuli sjö manna nefnd til þess að gera úttekt á „svartri atvinnustarfsemi“, þ.e. atvinnustarfsemi þar sem ekki eru greidd opinber gjöld, og koma með tillögur til úrbóta. Nefndina skipi fjórir einstaklingar tilnefndir af þingflokkum, tveir tilnefndir af stjórn Landssambands iðnaðarmanna og einn tilnefndur af forsrh. og sé hann formaður nefndarinnar. Nefndin skili tillögum sínum fyrir árslok 1982.“

Nú er þar frá að greina, að ástæða eða öllu heldur hvati að því, að þessi till. er flutt, er að skömmu fyrir síðustu jól var haldið 39. Iðnþing Íslendinga, eða í nóv. s.l., og á því Iðnþingi var samþykkt stefnuskrá, en lokakafli þeirrar stefnuskrár ber yfirskriftina Svört atvinnustarfsemi og er því það hugtak notað hér og stuðst við skilgreiningu Iðnþings Íslendinga á því, hvað hér er um að ræða. Iðnaðarmenn segja svo í sinni stefnuskrá, með leyfi hæstv. forseta, en það er jafnframt tekið upp í grg. með þessari till.:

„Svört atvinnustarfsemi er það rekstrarfyrirbrigði, þar sem fjármunum er velt án þess að staðið sé skil á opinberum gjöldum né staðið við aðrar þær atvinnurekstrarreglukvaðir, sem hinn almenni atvinnurekstur verður að hlíta. Slíkt „neðanjarðarhagkerfi“ er ekki síður landlægt hér á landi en meðal nágrannaþjóða okkar.“

Síðan er haldið áfram og vísað í stefnuskrá Iðnþingsins um það, þvílíkur vandi sé hér á ferðinni, en þeir segja, og ég vísa aftur í stefnuskrána, með leyfi hæstv. forseta:

„Svört atvinnustarfsemi snarbrenglar samkeppnisgrundvöll milli annars vegar þeirra aðila, sem hana stunda, og hins vegar þeirra, sem reka fyrirtæki sín eftir settum reglum og standa skil á sköttum og skyldum. Fyrirsvarsmenn þessara fyrirtækja krefjast þess, að samkeppnisaðstaðan verði í þessu efni jöfnuð.“

Og þeir halda áfram: „Ríkisvaldið, sveitarfélög og fleiri aðilar, sem reka alls konar þjónustu, t.d. viðhalds- og viðgerðarþjónustu, í tengslum við starfrækslu ýmissa stofnana sinna og fyrirtækja, ættu að meta hagkvæmni þessara eigin þjónustudeilda út frá því, að skatta og skyldur bæri að greiða af þeim. Af þessari „eigin þjónustu“ er litið sem ekkert greitt í skatta, t.d. í söluskatt. Sé þessi þjónusta hins vegar veitt af hinum almennu fyrirtækjum, sem sérhæfa sig í slíkri þjónustu, er hún margskattlögð. Hér má því segja að fjölmargir aðilar, m.a. úr hópi stofnana, leggi stund á nokkurs konar svarta atvinnustarfsemi.“ — Lýkur þar tilvitnun í stefnuskrá hins síðasta Iðnþings Íslendinga, en kaflinn um þessi efni er mun lengri og er hann allur rakinn í grg. með þessari tillögu.

Svo er því við að bæta, að víða erlendis hefur athygli manna mjög beinst að þessum þætti haglífsins á síðari árum. Þessi starfsemi er reyndar kölluð ýmsum nöfnum, og er þar sá vandi á ferðinni að það er ekki alltaf átt við nákvæmlega það sama, en það skal endurtekið og undirstrikað, að hér er notað það hugtak sem Iðnþingið notaði í þessum efnum. Í grg. með till. er einnig vísað til nýjasta heftis af Tíðindum frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (The OECD Observer), þar sem er að finna allítarlega grein um þennan þátt hagkerfisins í ýmsum aðildarlöndum, og nefnist sú grein „The hidden Economy and National Accounts“ og er eftir mann að nafni Derek Blades. Ég vil almennt vísa til þessarar greinar, hv. alþm. berst þetta tímarit, en þó aðeins vekja athygli á nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi segir höfundur þessarar greinar, en öllum er auðvitað kunnugt að feikilega erfitt er að meta með nokkurri nákvæmni hversu hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu, ef við hana er miðað, hér er um að ræða. Síðan fer hann yfir hin ýmsu lönd og vísar auðvitað í margháttaðar heimildir máli sínu til stuðnings. Til þess að gefa nokkra hugmynd um hvað hér kann að vera, — það skal undirstrikað að þetta er auðvitað ekki hægt að segja með nokkurri vissu, — en hvað hér kann að vera um miklar stærðir að ræða, þá nefnir hann og vísar í heimildir að á Stóra-Bretlandi hafi samkv. heimild, sem í er vísað, verið svo metið að hér kunni að vera um 8% af þjóðarframleiðslu. Tölur nefnir hann frá Svíþjóð. Þar er talað um 10%. Tölur frá Ítalíu eru nefndar, en þar er þekkt og löngu viðurkennt að þetta er gríðarlegt vandamál. Þar er vísað til heimilda, að vísu fjögurra ára gamalla eða frá árinu 1978, og talað um 20%. Það, sem kannske kemur mest á óvart, það eru að vísu líka fjögurra ára gamlar upplýsingar, — það er frá Bandaríkjunum. Þar er samkv. heimild, sem þessi maður vísaði í, metið að þessi þáttur hagkerfisins kunni að vera svo stór sem 27% og þar fari þetta vaxandi. Nú skal undirstrikað að engum getum er að því leitt, að þessar upplýsingar þessa höfundar segi nokkurn skapaðan hlut um hversu stórt umfang kann að vera að ræða hér á landi, enda hefur engin athugun verið gerð á því. En það er einmitt tilgangur þessarar tillögu að menn geti gert sér einhverjar hugmyndir um hversu stórt þetta vandamál er og hvað kunni þá að vera til úrbóta.

Annað vil ég undirstrika rækilega, að í tillgr. er gert ráð fyrir að nefnd skipi annars vegar fulltrúar frá þingflokkum og hins vegar tveir tilnefndir af stjórn Landssambands iðnaðarmanna. Með því er auðvitað ekki með nokkrum hætti verið að gefa í skyn að slík starfsemi sé algengari meðal iðnaðarmanna en annars staðar, heldur er þetta form á tillögunni einvörðungu vegna þess að það er Landssamband iðnaðarmanna sem í stefnuskrá sinni hefur beinlínis óskað eftir samstarfi við ríkisvaldið í þessum efnum. Það, sem hér er verið að leggja til, er að við þessum óskum verði orðið.

Þá skal það líka undirstrikað, að í þessari till. er bæði notað nafn sem Landssamband iðnaðarmanna notar, þ.e. „svört atvinnustarfsemi“, og þeirra skilgreiningu fylgt á því. hvað hér er um að ræða. En þetta er auðvitað ekki einhlítt. Sem dæmi má nefna, og mun það oft hafa verið nefnt á undanförnum árum, að til svona hluta mundu einnig heyra þættir hagkerfisins eins og þeir, sem menn oft telja að sé verulega algengt hér á landi, að eigendur fyrirtækja eða þeir, sem skráðir eru fyrir fyrirtækjum, með einum eða öðrum hætti, hafi haft til þess mjög verulega möguleika að skrá hluta af einkaneyslu sinni, og það meira að segja að mjög verulegu leyti, á rekstrarliði viðkomandi fyrirtækis og hafi þar með getað stóraukið raunverulegar tekjur sínar án þess að það komi fram í sambandi við skattgreiðslur eða mælist að öðru leyti. Þetta einkenni mundi auðvitað vera hluti af þessu falda hagkerfi. Það tekur hins vegar ekki til þess sem nefnt er í þessari till. af ástæðu sem ég þegar hef nefnt. Það er von mín a.m.k. að til þess að tillaga af þessu tagi skili árangri sé rétt að hlíta í einu og öllu þeirri skilgreiningu, sem hér hefur verið nefnd, og vinna þessa frumathugun í samvinnu við þá sem um slíkt hafa beðið, þ.e. Landssamband iðnaðarmanna.

Um leið og það er enn undirstrikað, að auðvitað er ekki með nokkurri vissu hægt að slá því fram, hvað stórar upphæðir eða hvað hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu hér er um að ræða, þá er hitt auðvitað alveg ljóst, sem fram kemur í ívitnaðri stefnuskrá Landssambands iðnaðarmanna, og það sér auðvitað hvert mannsbarn, að þegar tvö fyrirtæki eru rekin hlið við hlið, kannske í sömu götu eða sama sveitarfélagi, og sé það svo að þau reki sömu starfsemi að öllu leyti, en sé það hins vegar svo, að annað greiði af einhverjum ástæðum til hlítar skatta og skyldur, en hitt sleppi með að greiða einasta brot af þessum sömu sköttum og skyldum, þá liggur auðvitað í hlutarins eðli að samkeppnisaðstöðu þessara fyrirtækja er ekki hægt að bera saman með einum eða nemum hætti. Það er alveg augljóst að annað fyrirtækið hefur alla möguleika á að bjóða ódýrari þjónustu. Það er eðlilegt að neytandinn, í einhverjum tilfellum a.m.k., freistist til að eiga frekar viðskipti við slík fyrirtæki og hagnaði, sem þannig myndast, sé skipt að einhverju leyti á milli fyrirtækis og þess neytanda sem hlut á að máli. Auðvitað hafa menn oft nefnt þetta og auðvitað vita menn að starfsemi af þessu tagi er liður í hagkerfi okkar. En það má líka segja að starfsemi af þessu tagi rekur rætur sínar langt aftur og það getur verið mjög erfitt að nálgast þetta öðruvísi en að af verði meiri og minni reiði og vandræði hvers konar. Það skal undirstrikað að ekkert slíkt vakir, að ég hygg, fyrir þeim sem þessa till. flytja. Það er verið að reyna að ráða bót á vandamáli og svo friðsamlega sem mögulegt er.

Í grg. er endað á að undirstrika þau sjálfsögðu sannindi, að ef við gefum okkur sem almenna forsendu að niðurstaða slíkrar nefndar verði annars vegar, að þessi starfsemi sé allumfangsmikil hér á landi, og síðan verði tillögur til úrbóta í þá veru, að þetta verði kannske að verulegu leyti upprætt, og ef við getum einhver mið dregið af þeim upplýsingum, sem við höfum erlendis frá í þessum efnum, leiðir auðvitað af sjálfu að niðurstaðan yrði allveruleg skattalækkun fyrir þá sem nú greiða fulla skatta og full gjöld, hvort sem það eru fyrirtæki eða neytendur þjónustufyrirtækja, og til þess er auðvitað einnig þessi leikur gerður.

Ég vil svo að lokum segja það, herra forseti, að ég held að það séu töluverð tímamót í þessum efnum, að svo fjölmenn samtök sem standa að baki Iðnþingi Íslendinga skuli álykta í þessum efnum. Það hafa alltaf öðru hvoru, t.d. hér á hv. Alþingi, orðið umræður um efni þessu skyld. T.a.m. minnist ég þess, að á undanförunum árum hafa hér verið flutt frumvörp um skattadómstól gagngert til að reyna að taka á þessu vandamáli, en slík frumvörp hafa ekki fengið meirihlutastuðning hér á hinu háa Alþingi og af mörgum ástæðum, hygg ég. Í fyrsta lagi er auðvitað með slíku fremur verið að ráðast að afleiðingum þessa vanda en orsök, og í annan stað hafa margir löglærðir menn oft látið í ljós efasemdir um að sérdómstólar séu skynsamlegir. Allt um það hefur þetta vandamál oft verið nefnt í ýmsum myndum, en þó varla á því snert.

Ég tel ekki rétt á þessu stigi málsins að hafa í frammi neinar vangaveltur um hvernig sú nefnd, sem hér er lagt til að skipuð verði, kemur til með að taka á þessu máli.

Ég tel nægilegt að hún verði skipuð, eins og hér er gert ráð fyrir, fjórum mönnum frá þingflokkum, tveimur frá Landssambandi iðnaðarmanna og loks formanni sem tilnefndur sé af forsrh. Ég teldi eðlilegt að störf hennar væru tvíþætt: Í fyrsta lagi að reyna að gera sér einhverjar hugmyndir um umfang þessa vanda, eins og gert hefur verið í löndunum í kringum okkur, og í öðru lagi að gera tillögur til úrbóta, hvort sem það er í formi leiðbeininga fyrir framkvæmdavaldið eða hreinlega lagabreytingar og þá væntanlega helst á skattalögum. Allt þetta væri verkefni fyrir nefndina, en ég held að lokum, herra forseti, að fullyrða megi að hér sé vissulega verk að vinna.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. vill ég leggja til að málinu verði vísað til hv. allshn. og til síðari umr.