04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2864 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

225. mál, úttekt á svartri atvinnustarfsemi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég stend upp til að lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, með þeim fyrirvara þó, að hvað sem gert er í þessu er af hinu góða.

Það er vissulega ánægjulegt að Landssamband iðnaðarmanna skuli sjálft verða hvati til þess að reyna að hreinsa til á eigin heimili. Það mættu vissulega fleiri gera. Gallinn er hins vegar sá, að það er mörg „svört atvinnustarfsemi“ í þessu þjóðfélagi. En eins og ég sagði áðan: Ég held að hvað lítið sem gert er sé af hinu góða. Því miður hafa verkalýðsfélögin oft tekið á þessu máli af feimni og vandræðaskap og ekki verið í stakk búin að ræða það af neinni alvöru.

Ég held að í litlu þjóðfélagi eins og við erum að reka hér sé fátt nauðsynlegra en að kostnaður við rekstur þjóðfélagsins skiptist með eðlilegum hætti á þá sem í landinu búa. Ég vil minna hv. þm. á, að ég tók hér til máls utan dagskrár fyrir ári, að mig minnir, út af óvenjulegum auði sem skilað var til þjóðfélagsins og vissulega var arður af atvinnustarfsemi. Við hálaunafólkið í þjóðfélaginu hljótum að undrast hvernig slíkur auður verður til. Viðbrögðin við þessum orðum mínum hér í þingi voru enn einn vandræðagangurinn, eins og ævinlega þegar talað er um auðsskiptinguna í þjóðfélaginu.

Manni verður stundum hugsað hvernig á því standi, að við hv. þm., sem erum ákaflega hálaunað fólk í þjóðfélaginu, erum ekki að heldur efnað fólk og búum við góðan og öruggan fjárhag. Ef við gerum það ekki, hverjir gera það þá? Ætli við teljumst ekki til launahæstu launþega landsins? En ég hygg að það sé með fleiri hér á hinu háa Alþingi en mig, að við sjáum litinn mun á hag okkar frá þeim launum sem við áður fengum greidd fyrir okkar störf. Skýringin er auðvitað ofureðlileg. Við greiðum þeim mun hærra skatthlutfall. Ef við síðan lítum í kringum okkur í þessu þjóðfélagi, sem við erum að reyna að stjórna, og oft gengur það alla vega, sýnist efnahagur manna vera algjörlega utan við allt hlutfall um yfirlýst laun í þjóðfélaginu. Við þurfum ekki annað en aka gegnum nýbyggð húsahverfi til þess að undrast hvaða fólk það sé sem getur byggt þessi hús. Annað eins sést ekki nema í auðmannahverfum erlendis. Þetta segir okkur auðvitað ekkert annað en það sem hv. þm. Vilmundur Gylfason er hér að segja, að það viðgengst í þessu þjóðfélagi allt of mikið af svokallaðri svartri atvinnustarfsemi sem nú hefur hlotið það nafn.

Ég held að það sé ákaflega erfitt að stjórna þjóðfélagi sem við þorum ekki að greina. Fyrst er að vita hvernig þjóðfélagið, sem við búum í, er til þess að vita hvernig við viljum breyta því. Ég held að engum sé greiði gerður með því að forðast að ræða slíkt. Við verðum að vita, hvað launþegarnir í landinu hafa milli handanna, áður en við getum farið að berjast fyrir breytingum. Stundum þarf e.t.v. engra breytinga með, en sumir þarfnast aukinna tekna. Við könnumst við þetta eftir kjarasamninga. Sé gerð tilraun til að leysa vanda hinna launalægstu í landinu kemur allur skarinn á eftir. Þetta nær auðvitað engri átt. Þörfin er ekki sú sama. Ef við viljum vinna að launajöfnun í þjóðfélaginu er þetta ekki leiðin.

Ég vil fagna hverri þeirri tilraun, sem gerð er til þess að komast til botns í tekjum hinna ýmsu stétta þjóðfélagsins, og mun því styðja þessa þáltill. En ég held að við gætum flutt margar slíkar. Það eru ekki einungis iðnaðarmenn sem stunda „svarta atvinnustarfsemi“. Það gera ótalmargir aðrir. Við þekkjum frumskóg viðskiptalífsins. Á fullkomlega löglegan hátt geta menn mokað að sér fé með ýmsum — ég vil segja: brellum, án þess að leggja fram minnstu vinnu. Það má minna á takmarkaða ábyrgð manna á heilum viðskiptafélögum sem stofnuð eru. Þau má gera gjaldþrota í dag, en sömu menn geta stofnað nýtt fyrirtæki á morgun. Það er eins víst að það verði svo líka gjaldþrota. En eftir stendur að einhver greiðir þetta — og ætli það séu þá ekki við sem greiðum okkar skatta og skyldur af því sem við höfum í laun. Svo einfalt er það mál. Það er ekki einkamál eins samfélagsþegns hvort hann skýtur sér undan þjóðfélagslegri ábyrgð sinni. Það gerist nefnilega á kostnað okkar hinna. Þess vegna held ég að þessi tiltekt sé til fyrirmyndar. Ég neita því ekki, að ég varð nokkuð undrandi þegar ég sá að í stefnuskrá Landssambands iðnaðarmanna er vikið að þessu. Í ýmsum öðrum samtökum hefur aldrei mátt á þetta minnast. Þá hefur verið talað um það sem næstum landráð við verkalýðinn í landinu.

Ég vil hvetja hv. þm. til að láta ekki hér við sitja. Ég held að við ættum að snúa okkur að fleira. En orð eru til alls fyrst. Hér er í öllu falli byrjað á þeirri greiningu þjóðfélagsins sem ég held að hljóti að vera undirstaða þess að við getum stjórnað því.

Ég er mjög sammála ívitnaðri grein í OECD-tíðindum, þar sem lögð er áhersla á hve hagtölur séu oft misvísandi. Við getum lesið í Hagtíðindum hvað þjóðin hafi í meðaltekjur. Ekki man ég nú hvað það var — 11 gamlar millj.? — á síðasta ári. Þetta segir okkur auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég þekki fullt af fólki sem hafði alls ekki þessar tekjur og langt frá því. Vel má vera að þetta sé meðaltal sem huggulegt sé að horfa á, en það bjargar ekki þeim sem höfðu miklu minna.

Ég fagna fram kominni þáltill. og mun styðja hana.