04.03.1982
Sameinað þing: 60. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

225. mál, úttekt á svartri atvinnustarfsemi

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri þáltill. sem hér er til umr. um „svarta atvinnustarfsemi“, þingmál 225.

Vissulega velti ég því fyrir mér hvort tilnefning nefndarinnar sé rétt, eins og hefur komið fram. En það er ekki aðalatriði málsins, heldur hitt, að nefnd færustu manna fjalli um þetta mál og leiti leiða til að komast úr þeim vítahring sem við stöndum hér frammi fyrir, eins og segir í grg.: ráðist fremur að orsökum þessa vanda en afleiðingunum.

Það er vitaskuld alveg óverjandi af þeim aðilum, sem með þessi mál fara, að láta sem ekkert sé í þessum efnum. Hér er um hrikalegt vandamál að tefla, sem leiðrétting verður að fást á. Þetta vandamál snýr ekki aðeins að atvinnurekstrinum í landinu, heldur að hverjum og einum þegn þessa þjóðfélags.

Ég skal ekki fullyrða um það sem segir í grg., hvort ósanngjörn og órökræn skattheimta á almenning sé hér orsökin. Það er hins vegar ljóst, að eftir því sem fleiri komast hjá því að greiða þá skatta og skyldur sem þeim samkv. lögum ber að greiða þyngist skattbyrði hinna.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri samþykkt sem gerð var á 39. Iðnþingi, eins og ræðumenn hafa hér gert, þar sem lagt er til að komið verði á sérstöku samstarfi ríkisvalds og samtaka fyrirtækja til að vinna gegn þessari ólöglegu starfsemi sem menn kalla svarta atvinnustarfsemi. Með slíku samstarfi og samvinnu er vissulega verulegs árangurs að vænta í þeirri viðleitni að kveða niður eða a.m.k. draga verulega úr þessari óæskilegu þróun sem orðið hefur.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta mál. Ég endurtek þakkir mínar til flm. og vænti þess, að till. fái góðan byr á þessu þingi, og lýsi fyllsta stuðningi mínum við þetta mál.