08.03.1982
Efri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég fæ tækifæri til að fjalla um þetta mál í nefnd og get þar haft þau afskipti af því sem eðlileg teljast. Hér er á ferðinni frv, sem er allviðamikið þegar betur er að gáð og snertir nokkuð mörg svið. Ég segi strax að það er margt athyglisvert varðandi skipan þessara mála. Það getur vel verið að það sé umdeilt hver skipan mála varðandi fóðurverksmiðjur eigi að vera, en alla vega er það af hinu góða að verksvið þeirra er víkkað mjög um leið. Það þýðir að hvers kyns nýting innlendra aðfanga í stað innflutnings á fóðurbæti er vissulega sjálfsögð og þjóðhagslega nauðsynleg.

Ég mun hafa ýmsa fyrirvara um þetta frv. í nefnd, en þó er sá stærstur sem snertir 2. gr., og vil ég koma því að þegar við 1. umr. Þar stendur að ríkisstj. sé heimilt að selja félagasamtökum eða einstaklingum fóðurverksmiðjur í eigu ríkissjóðs og lána söluverð með sömu kjörum og jarðakaupalán frá Stofnlánadeild landbúnaðarins. Varðandi einstaklingana vil ég halda því fram, að hér sé um of rúma heimild að ræða gagnvart þeim. Ég hygg að það væri eðlilegast, ef þeir eiga að koma inn í þetta mál á annað borð, að koma þyrfti til heimild Alþingis hverju sinni sérstaklega til þess að ríkisstj. mætti selja einstaklingum slíkar fóðurverksmiðjur. Hins vegar finnst mér ekki óeðlilegt, að samtök bænda eða félög þeirra og félagasamtök ættu þess kost að kaupa þessar verksmiðjur með þessum kjörum, og hefði því talið eðlilegast að heimildin næði eingöngu til þeirra. Ég mun vinna að breytingu í þessa átt í nefndinni og vænti samstöðu um það þar.

Sannleikurinn er auðvitað á. eins og hæstv. landbrh. kom inn á áðan, að þetta mál tengist allt þeim verksmiðjum sem fyrir eru í landinu. Þar hljóta auðvitað ýmsar spurningar að vakna sem ég ætla ekki að fara út í hér. Það tilheyrir frekar nefndarstarfinu varðandi mál þetta. Það er varðandi þau hlutafélög sem vitnað er í í aths. við 3. gr. og er kannske undirrótin að þessu frv., að ríkisstj. sé heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags sem eigi og reki nýjar fóðurverksmiðjur. Þar kemur auðvitað að tengslum þeirra við stjórnir fóðurverksmiðjanna. Eins er varðandi tengslin við Landnám ríkisins.

Uppi hafa verið ýmsar hugmyndir um Landnám ríkisins. m.a. jafnvel að leggja Landnám ríkisins niður. Það er auðvitað stærra mál en svo að þar verði rætt hér. Hins vegar hvarflar það að mér varðandi fóðurverksmiðjurnar, að meðan 1.andnám ríkisins er sérstakur þáttur í stjórnkerfinu sé spurning um hvort yfirumsjón og stjórn þessara mála eigi ekki að vera að einhverju leyti eða að miklu leyti þar, sbr. t.d. 5. gr. þar sem sagt er: „Stjórn fóðurverksmiðja ríkisins skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara, sem landbrh. skipar til fjögurra ára í senn:“ — Stjórn þessara verksmiðja er sem sagt alfarið skipuð af hálfu rn. Landbrh. ræður þessari stjórn algerlega.

Varðandi hlutdeild og þátttöku þeirra verksmiðja, sem fyrir eru og stjórn þeirra áfram vakna líka spurningar í mínum huga.

Ég ætla ekki að tala um þetta mál neitt frekar hér nú. Búnaðarþing mun vera að fjalla um þetta mál sérstaklega. Það mun senda álit sitt til þeirrar nefndar sem ég á sæti í og fjallar um frv. Það verður fróðlegt að sjá álit Búnaðarþings. Ég tel að nefndin hljóti mjög að taka mið af þeim sjónarmiðum sem þar kunna fram að koma, þó að ég áskilji mér vitanlega allan rétt til að greina þar á milli þeirra atriða sem ég er samþykkur. En ég hef vissa fyrirvara um frv., sérstaklega varðandi 2. gr., og vil að það komi fram strax, og eins varðandi stjórnunina í 5. gr., sem ég vil líka að sé athuguð betur þegar við á annað borð erum með stofnun eins og Landnám ríkisins í okkar kerfi varðandi landbúnaðinn í heild.