08.03.1982
Efri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir að flytja þetta frv. því að ég held að það sé nauðsynlegt að lagaákvæði um þá starfsemi, sem það fjallar um, séu á hverjum tíma í sem æskilegustu formi. Það leiðir af sjálfu sér, að eftir svo langan tíma frá þeirri lagasetningu sem nú er í gildi og miðað við hvað þessi starfsemi hefur verið í uppbyggingu hefur ýmislegt komið í ljós sem vafalaust má betur fara.

Ég mun ekki fjalla um þetta mikið efnislega þar sem ég á eins og hv. síðasti ræðumaður sæti í landbn. sem mun taka málið til athugunar. Ég vil þó aðeins í sambandi við ákvæðin um eignaraðildina láta þá skoðun mína í ljós, að ýmislegt mælir vitanlega með því, að hún sé að einhverju leyti í höndum þeirra sem búa á hverjum stað. Við vitum að það er viss ávinningur að slíku, þó svo vitanlega komi þar fleira til sem hefur áhrif á æskilega eignaraðild.

En það, sem ég vildi sérstaklega koma hér á framfæri, er að ég veit að áhugi er viðar fyrir byggingu svona verksmiðja en hæstv. ráðh. minntist á. Er mér þá sérstaklega kunnugt um að hann er fyrir hendi í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu. Það er tvennt sem hlýtur að ráða staðarvali þessara verksmiðja: Annars vegar að þær séu nokkuð dreifðar um landið til að reyna að draga úr flutningskostnaði á framleiðsluvörunni til notendanna, til bændanna. Það er sjónarmiðið sem ég held að hafi ráðið miklu um uppbyggingu þeirra verksmiðja sem nú eru annaðhvort í undirbúningi eða áformaðar, þ.e. á Norðurlandi og Vesturlandi. En hitt, sem ég held að hljóti að hafa mikil áhrif líka, eru hinar náttúrlegu aðstæður. Þar held ég að Mýrdalurinn hafi mjög mikinn ávinning fram yfir flesta aðra landshluta þar sem sprettutími er þar lengri en víðast hvar annars staðar. Þar byrjar að gróa miklu fyrr á vorin, og einnig er þess að vænta, að gras geti staðið þar lengur fram á haustið en víðast hvar annars staðar. Með dýra verksmiðju með tiltölulega stuttan nýtingartíma á hverju ári hefur vitanlega mikið að segja að hann sé þó sem lengstur. Það hlýtur að muna allmiklu um hverja vikuna sem þar er hægt að vinna. Land fyrir verksmiðju. sem er ákjósanlegt í þessu skyni, stendur til boða í Mýrdal. T.d. er kal þar nærri óþekkt. Sprettuöryggið er einnig meira en víðast hvar annars staðar á landinu.

Svo er eitt atriði enn sem ég vildi koma á framfæri í sambandi við þá auknu fjölbreytni í framleiðslunni sem hæstv. landbrh. minntist á. Á undanförnum árum hefur lítils háttar verið byrjað á því í verksmiðjunni á Hvolsvelli að taka á móti innlendu korni og þurrka það og mala og blanda saman við grænfóður, þannig að það er að jöfnu grænfóður og korn. Þessi fóðurbætir hefur reynst mjög góður þeim sem hann hafa notað. Þeir telja að hann jafnist á við bestu fóðurblöndur sem völ er á. Ég tala nú ekki um ef hægt væri síðan að blanda í fóðrið fleiri efnum, eins og sláturúrgangi eða einhverju slíku. Einmitt í Mýrdalnum og þar í grennd eru tvímælalaust þau svæði þar sem mestar líkur eru á að kornrækt geti verið árviss. Þar er vaxandi áhugi á að reyna þetta. Ég hygg að á komandi sumri verði allmargir til viðbótar við þá, sem gert hafa tilraunir síðustu árin, sem hafa hug á að reyna kornrækt. Sumir gera sér vonir um að þarna geti orðið um verulega framleiðslugrein hjá bændum að ræða. Eitt vandamálið við þá framleiðslu er þurrkun og verkun kornsins, en þá hefur verksmiðjan á Hvolsvelli leyst vanda þeirra sem þar eru í grennd. Ef á að selja kornið langt frá framleiðslustað er e.t.v. nauðsynlegt að þurrka það, enda þótt e.t.v. geti verið um aðra möguleika að ræða fyrir þá sem nýta kornið til eigin nota.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál að sinni þar sem ég mun fá tækifæri til að fjalla um málið í landbn.