08.03.1982
Efri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

220. mál, fóðurverksmiðjur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka það fram vegna þeirra aths. sem fram komu hjá hæstv. forseta, hv. þm. Helga Seljan, að þegar frv. þetta var samið af, eins og ég greindi frá, starfsmönnum úr landbrn. og fjmrn. með aðild landnámsstjóra. og raunar fengu þeir til liðs við sig Benedikt Sigurjónsson fyrrv. hæstaréttardómara, var stuðst við drög að frv. sem fyrir hafa legið um þetta efni frá fyrri tímum. Ég tek það fram. að ég tel að mjög komi til álita að þrengja þá heimild, sem er í 2. gr., þannig að ef einstaklingar hafa áhuga á að kaupa þau fyrirtæki, sem hér um ræðir, geti þeir allt að einu myndað um það hlutafélag eða eitthvert félagsform, þannig að í greininni mætti þess vegna standa að heimilt væri að selja félögum og félagasamtökum þær fóðurverksmiðjur, sem nú eru í eigu ríkissjóðs, og lána með sömu kjörum og jarðakaupalán Stofnlánadeildar landbúnaðarins, eins og þar segir. Það er því ekkert frá minni hálfu sem hindrar að tekið verði fullt tillit til aths. hæstv. forseta við meðferð málsins.

Varðandi skipulag þessara mála að öðru leyti, sem hæstv. forseti gerði nokkuð að umtalsefni, er rétt að þar er um álitamál að ræða. Hér er þessu stillt upp þannig að ein fimm manna stjórn fari með málefni ríkisverksmiðjuna. Gert er ráð fyrir að fimm menn sitji í þessari stjórn til að gefa svigrúm fyrir að þeir séu skipaðir af nokkuð dreifðu svæði, þ.e. að þau héruð, sem hafa mestra hagsmuna að gæta varðandi rekstur þeirra ríkisverksmiðja sem nú eru í gangi, geti átt þar fulltrúa. Líklegt væri að landbrh. mundi hverju sinni skipa a.m.k. formann slíkrar stjórnar annað tveggja úr landnámsstjórn eða þá landnámsstjóra, en landnámsstjóri og Landnám ríkisins hafa til þessa borið hita og þunga af því að fjalla um rekstur og uppbyggingu þessara fyrirtækja í eigu ríkisins. Þessi skipulagsatriði getur auðvitað þurft að taka til nánari athugunar. Verði menn ekki um þau atriði á eitt sáttir mundi ég óska eftir að þau atriði verði fremur látin liggja um kyrrt en það yrði til þess að frv. í heild næði eigi fram að ganga. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni er í rauninni mjög brýnt að l. kafli frv. nái afgreiðslu Alþingis að þessu sinni. Ef ágreiningur er eða skiptar skoðanir um aðra þætti þessa máls væri unnt að geyma þá kafla frv. til nánari athugunar til næsta Alþingis.

Ég þakka hv. þm. Jóni Helg,syni fyrir innlegg hans í þessa umr. Ég rakti ekki í minni ræðu ítarlega það sem fram kemur í grg. frv. Þar er bent á að nú sé vaxandi áhugi á aukinni kornrækt í landinu. Þegar hefur Stórólfsvallarverksmiðjan malað korn, sem framleitt er hjá bændum. og blandað það grasmjöli, og hefur þessi framleiðsla gefið góða raun. Er sannarlega vonandi að orðið geti aukninga á slíkum þætti í þessum málum og að það geti orðið raunhæf leið til að draga úr innflutningi okkar Íslendinga á fóðurkorni.

Varðandi fjölgun þessara fyrirtækja umfram það sem þegar eru í raun ákvarðanir til um og í raun og veru hefur verið ákveðið fyrir 10 árum að stofna tvær grænfóðurverksmiðjur á Norðurlandi, sem getið hefur verið um, verður að huga að frekari uppbyggingu þessara fyrirtækja með hliðsjón af markaðshorfum og öðrum möguleikum til sölu á framleiðslu þeirra. Afgreidd var á Alþingi í fyrra ályktun þess efnis að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á hagkvæmni þess að reisa graskögglaverksmiðju eða fóðurverksmiðju í Borgarfirði. Hefur verið unnið þar verulega að undirbúningi af hálfu heimamanna, en slík hagkvæmniathugun er í raun að hefjast og þá væntanlega í því skyni að þar verði hægt að stofna hlutafélag á grundvelli þessara laga ef það sýnist hagkvæmt.

Ég er ekki í neinum vafa um að ræktunarskilyrði eru hvergi betri á landinu en í Mýrdal. og ég hygg að þar sé sprettutíminn einna lengstur. A.m.k. vorar þar snemma. Sprettutíminn hefur, eins og hér hefur komið fram, afgerandi áhrif á afkastagetu verksmiðjunnar. þ.e. hvað framleiðslutíminn getur verið langur. Þess vegna eru þar auðvitað mjög ákjósanleg skilyrði frá náttúrunnar hendi til að reisa verksmiðju af þessu tagi og getur þurft að taka það mál til athugunar, en heildarafköstin verða að vera í einhverju samræmi við það sem menn telja líklegt að markaðurinn þoli. Ég vil þó láta það koma hér fram, að allajafna er það svo að þrátt fyrir að ræktunarskilyrði séu góð og vinnslutími sé langur á t.d. Rangárvöllum hefur á sumum öðrum svæðum landsins verið a.m.k. meira próteinmagn í grasi og í fóðri en í því grasi sem vex á sandjörðinni á Rangárvöllum og sums staðar annars staðar á Suðurlandi. Þetta er atriði sem einnig þarf að taka tillit til. Ég er ekki þar með að segja að það gild um Mýrdalinn, þar sem önnur náttúrleg skilyrði eru en t.d. á Rangárvöllum. En meginmálið er að taka til athugunar hagkvæmni þess og möguleika að reisa fleiri fyrirtæki en í raun hefur þegar verið ákvæðið. Ég tel sjálfsagt að landbrn. hlutist til um það, ef þess verður óskað, að slík athugun verði gerð.