08.03.1982
Efri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75 21. júní 1973, um Hæstarétt Íslands. Nefndin hefur rætt frv. á mörgum fundum og alllöngum. Til viðræðna við nefndina komu m.a. forseti Hæstaréttar, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, fulltrúar Lögmannafélags Íslands, stjórn þess, og formaður réttarfarsnefndar. Allir þeir aðilar, sem á fund nefndarinnar komu, voru sammála um að nauðsynlegt væri að ráða bót á því ástandi sem nú er hjá Hæstarétti vegna þess langa dráttar sem verður frá því að málum er vísað til Hæstaréttar og þar til dómur fellur. En eins og fram kom við 1. umr. málsins hér í deild eru nokkuð skiptar skoðanir um hvaða leið er best að fara og þá um leið um frv. það sem hér er til meðferðar.

Allshn. bárust athugasemdir frá 10 lögmömmum við frv., þar sem dregið var í efa réttmæti þess að fara þessa leið, og vitnað þar til ákvæða stjórnarskrárinnar. En í því skjali var ekki bent á neina aðra leið sem fara skyldi til að leysa þennan vanda. Þegar stjórn Lögmannafélagsins kom á fund allshn. kom í ljós að skiptar skoðanir voru innan stjórnarinnar um þessar athugasemdir tímenninganna og enginn vildi á nefndarfundi fullyrða að með frv. væri verið að stefna að stjórnarskrárbroti. Og a.m.k. hjá sumum stjórnarmanna Lögmannafélagsins kom fram að nauðsynlegt væri að styðja við bakið á Hæstarétti til þess að leysa hinn bráða vanda með því að samþykkja þetta frv.

En til þess að kanna þetta mál eins og allshn. hafði tök á varð það niðurstaða úr viðræðum nm. við forseta lagadeildar Háskóla Íslands að fara fram á það við hann, að hann gerði tillögur um hvaða aðrar leiðir en sú, sem frv. gerir ráð fyrir, gætu að hans mati komið til greina. Hann brást vel við því og sendi nefndinni tvo valkosti í málinu. Við athugun á þeim kostum sá allshn. sér ekki fært að mæla með annarri hvorri þeirra leiða án þess að málið væri athugað miklu betur. Niðurstaðan af athugunum allshn. varð því sú, að nauðsynlegt væri að afgreiða þetta frv. á þessu þingi, en jafnframt beinir nefndin þeirri eindregnu ósk til hæstv. dómsmrh., að hann láti kanna rækilega hvort breytingar á frambúðarskipulagi væru æskilegar í þessum málum. Í þeirri nefnd, sem það mál tekur til athugunar. þyrfti að vera tryggt að fram kæmu sjónarmið þau sem taka þarf tillit til þegar þetta mál er athugað.

Allmikið var á nefndarfundum rætt um 1. gr. frv., hvort fjölga eigi föstum dómurum í 8. Meiri hl. nm. telur að verði gerðar síðar breytingar á dómskerfinu sem muni létta álagi af Hæstarétti, þá sé einfalt aðfækka dómurum aftur og ákvaða þá fjölda þeirra í samræmi við þau verkefni sem líklegt er að Hæstiréttur fái til meðferðar.

Í sambandi við 4. gr. frv., um heimild til að ráða sérfróða aðstoðarmenn, kom það fram í viðræðum við forseta Hæstaréttar. að þar yrði ekki um mikið starfslið að ræða. A.m.k. er það ekki ætlunin nú í upphafi, heldur yrði látið nægja að ráða ein löglærðan mann til að annast það verkefni. En þrátt fyrir það að ekki væri þar um fjölmennara lið að ræða gæti það orðið til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála.

Við 1. umr. málsins kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. ósk um að fá skrár yfir öll þau frumvörp, sem hæstaréttardómarar hafa samið, og önnur störf í dómsmálum utan Hæstaréttar. Dómsmrn. hefur gert slíka skrá um störf á vegum þess að mun hv. þm. hafa fengið hana. Í henni kemur fram að þar er um fá mál hjá hverjum dómara að ræða. eitt eða tvö um örfá atriði, utan hjá einum, sem mun hafa fengið leyfi frá störfum til að sinna a.m.k. sumum þeirra sérstaklega.

Á sérstöku þskj. flytur nefndin brtt. um gildistíma laganna þ.e. að lögin taki gildi 1. júlí 1982 í stað 1. jan. eins og er í frv. Og í nál. á þskj. 386 kemur fram að allshn. leggur til að frv. verði samþykkt, en tveir nm., Eiður Guðnason og Stefán Jónsson, skrifa undir það með fyrirvara og einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja og fylgja brtt.