08.03.1982
Efri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var fyrst til umr. hér í hv. deild fóru fram ítarlegar umr. um það, vegna þess m.a. að fram hafði komið álitsgerð um frv. frá hópi þekktra og virtra lögfræðinga og kennara við Háskóla Íslands í lögfræði hér í borg, þar sem því var haldið fram að nokkur ákvæði frv., sérstaklega eitt þeirra, brytu í bága við stjórnarskrána. Var vakin athygli á, að það væri alvarlegt mál þegar haldið væri fram að breytingar á sjálfum hæstarétti landsins gætu hugsanlega falið í sér stjórnarskrárbrot, og bent var á þá sérkennilegu stöðu, að þar sem frv. væri samið af Hæstarétti sjálfum blasti við Alþingi sá vandi, að Hæstiréttur hefði e.t.v. sjálfur lagt drög að því, að stjórnarskráin væri brotin, og væri þá æðsti dómari í eigin sök. Enn fremur voru gerðar ýmsar aths. við að þessi leið væri farin til að ráða bót á seinagangi í afgreiðslu mála við Hæstarétt og bent á að ýmsar aðrar leiðir kynnu að vera réttari í bráð og lengd í þeim efnum.

Ég óskaði einnig eftir ýmsum upplýsingum sem vörpuðu nánara ljósi á starfshætti réttarins á undanförnum árum eftir að dómurum var fjölgað. Ég þakka hv. nefnd fyrir að hafa reynt að afla þessara upplýsinga, en hins vegar verð ég að segja strax að ég hefði kosið að nefndin hefði í fyrsta lagi óskað eftir skriflegri greinargerð frá Lögmannafélaginu, en ekki látið nægja að ræða víð stjórnarmenn á fundi, einkum og sér í lagi þegar ljóst og uppvíst er að mismunandi skoðanir komu fram hjá stjórnarmönnum á því, hvort hér væri á ferðinni stjórnarskrárbrot eða ekki. Stjórnarskrárbrot um sjálfan Hæstarétt Íslands er svo alvarlegt mál að nauðsynlegt er að þeir aðilar, sem eru kallaðir til nefnda þingsins til að segja álit sitt á því atriði, skili skriflegu áliti. Við óskum eftir skriflegu áliti af minna tilefni en þessu. Ég vil þess vegna spyrjast fyrir um hvort þess hafi ekki verið farið á leit við þessa fulltrúa, að þeir skiluðu skriflegri greinargerð um þetta atriði þar sem m.a. væri tekin afstaða til þeirrar greinargerðar kennara í lögfræði við Háskóla Íslands og ýmissa dómara hér í borg sem kynnt var við 1. umr. málsins í hv. deild.

Enn fremur sakna ég þess, að í nál. skyldu ekki vera birtir þeir valkostir sem forseti lagadeildar virðist hafa gert nefndinni grein fyrir að væru mögulegir til að leysa þennan vanda í dómstólakerfinu án þess að sú lausn leiddi til umræðna um hvort verið væri að brjóta stjórnarskrána eða ekki. Ég hefði talið nauðsynlegt að hv. alþm. fengju tækifæri til að kynna sér þá tvo aðra valkosti sem forseti lagadeildar hefur lagt fram á fundum nefndarinnar.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að formaður hv. allshn., hv. þm. Eiður Guðnason, hefur lagt fram sérstaka brtt. við 1. gr. frv. þar sem hann leggur til að hafnað verði þeirri tillögu frv. að fjölga hæstaréttardómurum. Það er veigamikil brtt. frá formanni nefndarinnar.

Þegar allt þetta er haft í huga vil ég óska eftir því við hæstv. forseta þessarar deildar, að afgreiðslu þessa máls verði frestað og mér og öðrum þm. þessara deildar, sem þess óska, gefinn kostur á að kynna sér álit forseta lagadeildar í fyrsta lagi, en í öðru lagi tækifæri til að ræða nánar við þann hóp kennara í lögum við Háskóla Íslands og dómara hér í borg sem sendi Alþingi álitsgerð um að hér væri verið að brjóta stjórnarskrána. Ég tel nauðsynlegt þegar í ljós hefur komið að nefndin hefur ekki viljað taka skýra afstöðu til þess, sem þar kom fram, og breyta frv. í samræmi við það, að við fáum tækifæri til að ræða á nýjan leik, einstakir þm., við þessa lögfræðinga svo að það verði ekki, eftir að nefndin hefur skilað störfum, fljótfærnisleg afgreiðsla á þessu veigamikla frv. þegar í húfi eru svör við spurningunni um hvort stjórnarskráin kunni að verða brotin þegar gerð er þessi breyting á störfum Hæstaréttar. Enn fremur vil ég óska eftir fresti til að geta hugleitt nánar, eftir að hafa heyrt í frsm., fulltrúa nefndarinnar, hvers konar brtt. verði fluttar við frv., ef einhverjar verða, til viðbótar við þá brtt. sem formaður nefndarinnar hefur nú þegar flutt.

Það er rétt, sem hér kom fram hjá frsm. nefndarinnar að ég óskaði m.a. eftir upplýsingum um störf hæstaréttardómara við að sem ja frv. Það kemur hér fram, að á undanförnum árum hafi hæstaréttardómarar alls unnið að samningu 21 frv. Það er kannske ekki mjög há tala, en þar eru ýmsir mjög veigamiklir lagabálkar, sem leggja grundvöll að löggjöf á ýmsum mjög veigamiklum sviðum okkar þjóðlífs, og mjög umfangsmikil vinna liggur að baki þeim. Það er líka rétt sem frsm. nefndarinnar benti á, að einn hæstaréttardómari sker sig þar sérstaklega úr og hefur alls unnið að 7 verkefnum á þessu sviði. Það vekur sérstaka undrun mína, að á sama tíma og Hæstiréttur Íslands sjálfur og hæstv. dómsmrh. telja að slíkt öngþveiti ríki hjá réttinum að nauðsyn sé þess vegna bæði á sérstakri fjölgun dómara og tímabundinni ráðningu dómara, vegna þess að núverandi dómarar geti ekki annað þessu, þá er ákveðið að fækka í réttinum um eins árs skeið með því að veita einum hæstaréttardómara leyfi frá störfum til að vinna að því að semja laga frumvörp. Nú er ég ekki að lasta að þessum tiltekna einstaklingi sé gert auðvelt að vinna að verkefnum af því tagi. En ég spyr: Hefur verið ráðinn annar hæstaréttardómari í hans stað? Ef svo er ekki er það ærið sérkennileg ráðstöfun, svo að vægt sé til orða tekið, að á sama tíma og það eru meginrök Hæstaréttar sjálfs og hæstv. dómsmrh. gagnvart Alþingi, að það þurfi að fjölga dómurum til að greiða úr málaflækjunni við réttinn, óski Hæstiréttur sjálfur eftir að dómurunum sé fækkað til að einn þeirra geti sinnt því verkefni að semja lög fyrir dómsmrn. á sviði kirkjuréttar þótt ýmsir aðrir sérfræðingar í landinu gætu greinilega unnið að því verki. Það liggur við að ég spyrji: Hvert er samhengið í málflutningnum, að tefla á tæpt vað hvað snertir stjórnarskrána sjálfa í krafti þess, að það þurfi að greiða úr öngþveiti mála í réttinum, en síðan telur Hæstiréttur sjálfur fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt að fækka dómurum á sama tíma til að auðvelda að samin séu lög fyrir stofnanir framkvæmdavaldsins? Ég sé satt að segja ekkert samhengi í því að grípa til þessarar leyfisveitingar á þessum tímum, ef það er rétt, sem ég held að sé, en verður væntanlega upplýst nú eða síðar, að enginn hæstaréttardómari hafi verið ráðinn í starf þess sem vikið hefur úr réttinum um eins árs skeið. Væri fróðlegt að heyra rökin fyrir því að fækka í réttinum á þennan hátt á sama tíma og hér á Alþingi stendur hörð deila um að nauðsynlegt sé að fjölga í réttinum.

Ég óskaði einnig eftir upplýsingum um fjölda sératkvæða í Hæstarétti á undanförnum árum. Ég vakti athygli á því, að aukin tíðni þess, að Hæstiréttur skipaði sér í undirdómstóla í ýmsum málum, gæti leitt til vaxandi óvissu um efnislega túlkun laga þar sem oft munar e.t.v. einu atkvæði hver sé úrskurður réttarins, og það gæti þá verið háð því, hverjir skipuðu hópinn hverju sinni úr heildarfjölda hæstaréttardómara, hvers konar meiri hluti myndaðist. Í þeim upplýsingum, sem nefndin hefur fengið, kemur í ljós að á s.l. sex árum hefur sératkvæðum í Hæstarétti fjölgað svo ríflega að þau hafa sexfaldast á þessum tíma, en rétt er að vekja athygli á því, að heildarmálum afgreiddum af réttinum hefur ekki fjölgað á þessum tíma. Fjöldi þeirra hefur verið í grófum dráttum mjög svipaður.

Árið 1974 voru 6 sératkvæði í réttinum, árið 1975 14, árið 1976 13, árið 1977 20, árið 1978 26, árið 1979 25 og árið 1980 35 sératkvæði í þeim 168 málum sem rétturinn afgreiddi á þeim tíma eða um það bil í fimmta hverju máli. Það er algerlega ný þróun í hæstarétti landsins að slíkur fjöldi sératkv. komi fram. Liggur í hlutarins eðli að það hlýtur að skapa vaxandi óvissu og ágreining um efnisinnihald þeirra dóma sem kveðnir eru upp þegar einhver dómari Hæstaréttar sker sig úr og er ósammála niðurstöðu meiri hl. réttarms í fimmta hverju máli. Auðvitað er rétt að niðurstaða meiri hl. hefur formlegt gildi og hún verður sú afstaða sem birtist sem niðurstaða réttarins. En þeir, sem fylgjast með röksemdum að baki slíkum úrskurði og eiga að taka tillit til hans hljóta eðlilega að vega og meta einnig röksemdir þess hæstaréttardómara sem kýs í það og það sinn að skila sératkv. Þessar upplýsingar, sem nefndin hefur fengið, sýna mér réttmæti þeirrar fullyrðingar sem ég setti fram, í spurnarformi að vísu, þegar þetta mál var fyrst til umr., að sú deildarskipting réttarins og þeir starfshættir, sem rétturinn hefði tekið upp á undanförnum árum, sköpuðu vaxandi óvissu um efnislegt réttmæti þeirra niðurstaðna sem Hæstiréttur kemst að, þar með vaxandi deilur um þá úrskurði sem dómurinn kveður upp og þar með vaxandi óöryggi í réttarkerfi landsins, einkum og sér í lagi þegar munur meiri og minni hl. í réttinum er kannske í fjölda mála aðeins eitt atkv. og rétturinn þá skipaður t.d. 5 af 7 hæstaréttardómurum í það og það sinn, þannig að ef annar hvor eða báðir hinna tveggja, sem utan réttarins eru í viðkomandi máli, hefðu verið innan hans hefði meiri hlutinn getað fallið á annan veg og niðurstaða Hæstaréttar í málinu efnislega orðið þveröfug við það sem hún var. Það vekur líka spurningar um hvort setja eigi einhverjar reglur um það, með hvaða hætti dómarar veljast í undirdeildir réttarins, hvort þeir eigi að gera það eftir röð eða hvort það eigi að vera þeim algerlega í sjálfsvald sett að vega það og meta.

Því miður, herra forseti, verð ég að segja að mér finnst afgreiðsla nefndarinnar á þessu frv. á engan hátt eyða þeirri óvissu um Hæstarétt, starfshætti hans og grundvöll og stjórnarskrárlegt eðli þeirra breytinga sem hér er verið að gera. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, áður en þessi hv. deild afgreiðir þetta frv. endanlega, að við, sem höfum haft verulegar efasemdir um þær brautir, sem hér er haldið áfram á, og ýmsa efnisþætti í þessu frv. sérstaklega, fáum tækifæri til að kynna okkur það álit, sem forseti lagadeildar lét í té, fáum tækifæri til að ræða við þann hóp lögfræðinga, sem skilaði Alþingi sérstökum varnaðarorðum, og fáum einnig tækifæri til að hugleiða niðurstöðurnar af þeim upplýsingum, sem hér hafa nú þegar komið fram af hálfu nefndarinnar, að sératkvæði í réttinum hafa sexfaldast á s.l. sex árum þótt engin umtalsverð breyting hafi orðið á heildarmálafjöldanum.

Mér hefur verið tjáð það, herra forseti, að þegar hæstaréttardómarar afgreiddu þetta frv. fyrir sitt leyti hafi ekki verið eining meðal hæstaréttardómaranna um þetta frv. og þetta frv. sé niðurstaða af vilja meiri hluta réttarins. Mér þætti fróðlegt að fá upplýsingar um það, annaðhvort héðan úr ræðustól eða annars staðar, hvort nefndin hefur kynnt sér hvort allir hæstaréttardómarar hafi verið samþykkir þessu frv. eða hvort einhver þeirra, ein eða fleiri, hafi verið andvígur einhverjum ákvæðum þess þannig að það hafi verið ríkjandi innan Hæstaréttar ágreiningur um þetta frv. Það hefur ekki komið hér fram, en ég hef frétt það á öðrum vettvangi og finnst nauðsynlegt að það verði upplýst á Alþingi, hvort þetta er einhuga tillaga frá Hæstarétti eða eingöngu tillaga meiri hluta réttarins.

Í öðru lagi vildi ég gjarnan að það væri upplýst, þótt réttast væri að hæstv. dómsmrh. gerði það, hvort tillagan um fjölgun dómara í réttinum hafi komið frá hæstv. ráðh. eða hvort hún hafi komið frá Hæstarétti sjálfum. Á ég þá bæði við þá fjölgun, sem getið er um í 1. gr., og eins þá sérstöku fjölgun sem er í ákvæði til bráðabirgða. Hvorugt af þessum atriðum, hvorki afstaða hæstaréttardómaranna allra né heldur spurningin um hvort það var hæstv. dómsmrh. eða Hæstiréttur sjálfur sem óskaði eftir þessari fjölgun, hefur komið fram áður. Ég tel nauðsynlegt að það liggi hér fyrir áður en málið verður endanlega afgreitt.

Ég vil svo, herra forseti, ítreka ósk mína um að umr. um málið verði frestað á þann veg að framhald 2. umr. geti orðið síðar, þegar gefist hefur tækifæri til að afla þessara upplýsinga og ræða við þá ábyrgu aðila utan þings, kennara í lögfræði við Háskóla Íslands og starfandi dómara hér í borg, sem hafa verið allt annarra skoðunar um efni þessa frv. en þeir sem það lögðu fram.