08.03.1982
Neðri deild: 49. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

108. mál, vátryggingastarfsemi

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Nefndin hefur haft þetta frv. til meðferðar alllangan tíma og leitaði umsagnar þriggja aðila: Tryggingaeftirlitsins, Sambands ísl. tryggingafélaga og Íslenskrar endurtryggingar. Í frv., eins og mælt var hér fyrir því og síðan vísað til nefndarinnar, var gert ráð fyrir að hækka verulega gjaldskyldu á endurtryggingariðgjöldum. Hins vegar var haldið því orðalagi laganna um vátryggingarstarfsemi í 46. gr., þar sem miðað er við næstliðið reikningsár. Mikil andstaða kom fram hjá þeim, sem leitað var umsagnar hjá, og sömuleiðis í nefndinni við að gera þessa breytingu. Hins vegar var samstaða um að Tryggingaeftirlitið fengi meiri tekjur svo að starfsemi þess væri tryggð. Sömuleiðis var samstaða um að Tryggingaeftirlitið sem slíki væri nauðsynlegt, eins og hefur sýnt sig frá því að það var sett á.

Höfuðtilgangur frv. er, eins og hæstv. trmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu, að auka tekjur Tryggingaeftirlitsins til þess að ríkissjóður þurfi ekki í vaxandi mæli að leggja fé til starfsemi þess. Til þessa atriðis var tekið fullt tillit í nefndinni. Nefndin varð sammála um að orða 46. gr. laganna eins og segir í brtt. á þskj. 409.

„Fyrir 1. des. ár hvert skal Tryggingaeftirlitið gera rökstudda áætlun um kostnað af starfsemi sinni næsta ár og um iðgjaldatekjur vátryggingarfélaganna á líðandi reikningsári“ — í staðinn fyrir næstliðið reikningsár — „sem álagningarstofn næsta fjárlagaárs.

Kostnaði Tryggingaeftirlitsins skal jafna á vátryggingarfélög þau, sem starfsleyfi hafa hér á landi samkv. lögum þessum, í hlutfalli við áætlun Tryggingaeftirlitsins samkv. 1. mgr.

Þegar endanlegir reikningar liggja fyrir um iðgjaldatekjur vátryggingarfélaganna skal álagning samkv. 2. mgr. leiðrétt til lækkunar eða hækkunar.

Gera má vátryggingarfélögum að greiða allt að 2.50/00 af frumtryggingariðgjöldum og 0.60/100 af fengnum endurtryggingariðgjöldum. Gjald þetta skulu vátryggingarfélög greiða ársfjórðungslega fyrir fram. Trmrh. skal setja nánari reglur um álagningu gjalds þessa og innheimtu.

Nægi þessar tekjur eigi til greiðslu kostnaðar við starfsemi Tryggingaeftirlitsins skal greiða það, sem á skortir, úr ríkissjóði.“

Og svo er hér nýtt ákvæði: „Tryggingaeftirlitið skal senda kostnaðaráætlanir og yfirlit um álagningu til Sambands ísl. tryggingafélaga svo og ársreikninga þegar þeir liggja fyrir.“

Þarna er sama prósentuálagning og verið hefur á öllum frumtryggingar- og endurtryggingariðgjöldum og fullt tillit tekið til endurtryggingariðgjaldanna, sem hefði komið ákaflega ójafnt niður ef frv. hefði verið samþykkt óbreytt. En með því að miða álagningu eftirlitsins á tryggingafélögin við líðandi ár nást tekjur fyrir það sem reiknað var með í þessari breytingu og vel það samkv. útreikningum sem gerðir hafa verið.

Fullt samkomulag náðist um afgreiðslu málsins í nefndinni með þessum hætti og um leið náðist það sem fyrir hæstv. ráðh. vakti með breytingunni: að auka tekjur Tryggingaeftirlitsins. Það næst á allan hátt og er hvergi frá upphaflega frv. vikið hvað það varðar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek það, að nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeirri breytingu sem fram kemur á þskj. 409.