09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Skúli Alexandersson hefur beint til mín fsp. í tveimur liðum.

Fyrri spurning hv. alþm. er tvíþætt. Annars vegar er spurt um þróun olíuverðs á heimsmarkaði síðustu 12 mánuði, hins vegar er spurt um útlit í verðlagningu á olíu á næstu árum að mati alþjóðlegra stofnana. Rétt þykir að svara spurningunni í tveimur liðum og verður nú gerð grein fyrir höfuðdráttum í þróun olíuverðs á dagmarkaði í Rotterdam árið 1981 og fram til febrúarloka.

Í grófum dráttum ríkti lengstum sæmilegur stöðugleiki á olíuverði á dagmarkaði í Rotterdam á s.l. ári. Lítum nánar á einstakar olíutegundir.

Meðalverð bensíntonns var 349.81 dollarar á 1. ársfjórðungi 1981 eða rétt um 350 dollarar. Síðan lækkaði bensínverðið á 2. ársfjórðungi niður 340.18 dala meðalverð eða um röska 9 dali tonnið. Á 3. ársfjórðungi hækkaði meðalverð hins vegar upp í 365.38 dali tonnið eða um röska 25 dali. Á 4. ársfjórðungi lækkaði hins vegar meðalverðið um tæpa 10 dali tonnið eða niður í 355.80 dali. Sé litið til ársmeðaltals reyndist það 351.38 dalir tonnið, sem er örlítið hærra en meðaltal 1. ársfjórðungs, en fáeinum dölum lægra en meðaltal 4. ársfjórðungs. Hæsta bensínverð á árinu var skráð 24. júlí 381.25 dalir, en lægsta skráning, á fimm síðustu dögum desember, 327.50 dalir og munar þar 54 dölum. Þótt 4. ársfjórðungur hafi að meðaltali orðið næsthæstur sýnir verðþróun tvo síðustu mánuði ársins svo ekki verður um villst að verulegrar tilhneigingar til lækkunar á bensíni gætir á þessum tveim mánuðum og hefur hún haldið áfram það sem af er þessu ári.

Ef við lítum á gasolíuna var meðalverð á gasolíutonninu á 1. ársfjórðungi seinasta árs 307.73 dalir. Það lækkaði síðan niður í 278.02 dali á 2. ársfjórðungi eða um tæpa 30 dali tonnið. Á 3. ársfjórðungi verður hins vegar hækkun á meðalverði sem fer upp í 295.24 dali tonnið og hækkar þá um ca. 14 dali frá fyrra ársfjórðungi. Á síðasta ársfjórðungi hækkar gasolían enn um ca. 27 dali í 318.91 dal tonnið. Ársmeðaltal var nálægt 300 dölum. Hæsta skráða gasolíuverð á árinu var á gamlársdag, 328.25 dalir tonnið, en lægsta verð var skráð 8. júní, 265 dalir tonnið, og nemur sveiflan yfir 63 dölum. Á sama tíma og bensín lækkaði verulega, þ.e. á síðustu mánuðum ársins, hækkaði gasolían allverulega. Verðið í byrjun október var um 300 dalir tonnið, en var komið upp í rúma 328 dali á gamlársdag.

Meðalverð svartolíutonnsins var 217.79 dalir á 1. ársfjórðungi ársins 1981. Svartolíuverðið lækkaði síðan á 2. ársfjórðungi í 187.97 dali og lækkar enn á 3. ársfjórðungi í 166.20 en hækkar örlítið á 4. ársfjórðungi eða upp í 172.38 dali tonnið að meðaltali. Ársmeðaltalið reiknaðist 186.08 dalir á tonn. Hæsta dagverð svartolíuvarskráð 20. janúar, 224.75 dalir, en lægsta skráning var 12. ágúst, 161.25 dalir tonnið. Munar þar á 63 dölum rúmlega, sem er nákvæmlega sama sveifla og á gasolíuverðinu. Svartolíuverðið lækkaði því verulega á 2. og 3. ársfjórðungi og var reyndar mjög stöðugt allan síðari helming ársins og er það enn.

Eins og sagt var í upphafi ríkti sæmilegur stöðugleiki á Rotterdam-verði mestan part árs. Undir lok ársins mátti þó greina öfluga sveiflu niður á við í bensínverði. Verð á gasolíu sýndi stöðugleika, en jafnframt nokkra tilhneigingu til hækkunar að því er virtist. Verð á svartolíu virðist hins vegar vera stöðugt. Rétt er að geta þess að verðhegðun á Rotterdam-markaði er á sumum tímum eða í sumum mánuðum árstíðabundin. Þannig verður gjarnan hækkun á bensíni í byrjun sumars, enda er bensínverð hæst á 3. ársfjórðungi þegar eftirspurn eykst og akstur bifreiða er í hámarki. Á sama hátt vill verð gasolíu og svartolíu gjarnan hækka á 4. ársfjórðungi. Eftirspurnin eykst er menn huga að því að birgja sig upp af húshitunarolíu fyrir veturinn. Verðhegðun svartolíu, sem fyrst og fremst er notuð í atvinnurekstri, virðist ekki í sama mæli bundin af árstíðaskiptum og bensín og gasolía.

Að framan var sagt að á síðustu mánuðum fyrra árs hefði mátt greina ófluga verðsveiflu bensíns niður á við. Skráning í janúar 1982 staðfesti að lækkunin hélt áfram. Meðalverð í desember var 335 dollarar tonnið, en í janúar 320 og á fyrstu þremur vikum febrúar var meðalverðið 302 dalir. Hér er því orðið um verulega lækkun að ræða. Hinn 18. febr. var bensínverð skráð á 299.5 dali tonnið og var það í fyrsta skipti um langan tíma að verðið komst undir 300 dali. Seinasta skráning, sem ég hef í höndum, er 287 dalir. Svipuðu máli gegnir um gasolíu, nema hvað lækkunar tók ekki að gæta fyrr en á fyrstu dögum janúarmánaðar. Meðalverð í janúarmánuði reiknaðist 315.70 dalir, en á þrem fyrstu vikum febrúar var meðaltalið 282.48 dalir tonnið eða svipað verð og var um mánaðamótin júní–júlí. Allra seinasta verðskráning er 275.75 dalir tonnið. Svartolíuverðið hefur verið afar stöðugt það sem af er þessu ári. Meðalverð í janúar reiknaðist vera 166 dalir tonnið og meðalverð fyrstu þriggja vikna febrúar 166.5 dalir, sem er nánast sama verð og gilt hefur frá miðjum desember. Seinasta skráning, sem ég hef í höndum, frá 26. febr., er 167 dalir. Virðist því vera ákaflega stöðugt verðlag frá mánuði til mánaðar. Af skráningu þessa árs má því ráða að frá áramótum sé bensínverð enn lækkandi, sömuleiðis gasolíuverð, en svartolíuverð sé stöðugt.

Annar liðurinn í fyrri spurningu fyrirspyrjanda hljóðaði svo: „Hvernig er útlitið á verðlagningu olíu á næstu árum að mati alþjóðtegra stofnana?“

Tvær olíukreppur hafa riðið yfir heimsbyggðina á tæpum áratug, hin fyrri 1973–1974 og hin síðari 1978–1979. Frá því árið 1973 hefur olíuverð a.m.k. tólffaldast að nafnverði og fimmfaldast að raunverði. Árið 1973 var olíureikningur þjóðarinnar, þ.e. það sem þjóðin greiddi það ár fyrir olíuvörur, ca. 7.5% af innflutningi, en er árið 1981 kominn upp í 16 til 17%.

Þjóðum heims hefur gengið örðuglega að laga sig að hinu stórhækkaða olíuverði og er olíukreppan talin eiga stóran þátt í vaxandi verðbólgu, staðnandi þjóðarframleiðslu og öðrum samdrætti í efnahagslífi iðnvæddra þjóða. Olíukreppan er talin hafa rýrt hagvöxt og viðskiptakjör, teflt velferð í tvísýnu og tafið endurreisn og uppbyggingu fátækra landa, sem sum hver hafa þurft að verja allt að 50% útflutningstekna sinna til olíukaupa, en sumum þjóðum hefur olíukreppan á hinn bóginn skapað skyndilegan auð og hagsæld. En olíukreppan og hækkandi olíuverð hefur einnig komið okkur til að hugsa. Olían en tæmanlegur orkugjafi. Sama olía verður ekki notuð tvisvar og við skynjum enn betur en fyrr að við getum ekki að eilífu ausið orku afolíubrunnum heimsins. Með allt þetta í huga er ekki óeðlilegt þó spurt sé: Hve lengi mun olían endast og hve mikið mun hún hækka á næstu árum eða næstu áratugum — og þar fram eftir götunum? Það er því afar eðlilegt að sérfræðistofnanir, sem hafa á að skipa færustu sérfræðingum, velti fyrir sér á hvern veg olíuverð muni þróast. S.I. haust gaf Alþjóðabankinn út skýrslu sem nefndist Alþjóðaviðhorf í orkumálum. Þar er spáð hækkandi olíuverði til lengri tíma litið og öðru fremur skoðað hversu mikið raunverð olíunnar kunni að hækka fram að árinu 2000. Sérfræðingarnir reyna að feta sig áfram eftir flóknum reiknilíkönum þar sem aðalforsendan er spá um hugsanlegt verð á tilbúnu eldsneyti. En hvað um verðspár til næstu ára? Þar vefst hinum færustu sérfræðingum tunga um tönn. Óvissuþættirnir eru svo margir og svo stórir að fátt verður um svör.

Að framan var sýnt fram á að olíuverð hafi verið stöðugt og jafnvel farið lækkandi á árinu 1981. Þessa dagana berast hvaðanæva að fréttir um ört lækkandi hráolíuverð svo að af því má draga vissar ályktanir. T.d. er talið að Rotterdam-verð haldi áfram að lækka út mánuðinn og lengur. Framleiðsluríkin og samtök þeirra, OPEC, munu á hinn bóginn gera sitt ýtrasta til að halda uppi a.m.k. óbreyttu verði.

Í París er starfandi, eins og kunnugt er, Alþjóðaorkustofnunin í tengslum við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD. Alþjóðaorkustofnunin hefur einkum fjallað um olíumál og er skipuð færustu sérfræðingum á því sviði. Sama dag og þessi fsp. kom fram sendi viðskrn. skeyti til fastanefndar Íslands hjá OECD og var hún beðin um að grennslast fyrir um það hjá Alþjóðaorkustofnuninni, hvort hún hefði gert spár þar sem fram kæmu horfur um verðlagningu á olíu á næstu árum. Svohljóðandi svar barst samdægurs: „Alþjóðaorkustofnunin hefur engar spár gert fyrir olíuverð komandi ára og má telja ómögulegt að það sé gert svo raunhæft sé.“ Þetta var svarið sem helsta alþjóðlega sérfræðistofnun heims á sviði olíumála gat veitt, og við þetta svar er í raun og veru engu að bæta öðru en því, að öllum kemur saman um að eitt byssuskot eða einhver alvarlegur stjórnmálaatburður, t.d. á því svæði sem OPEC-ríkin starfa á, geti valdið stórkostlegum breytingum fyrirvaralítið á þróun verðlags á olíuvörum.

Annar liður fsp. Skúla Alexanderssonar er svohljóðandi: „Hvenær kemur lækkun fram í verði til neytenda hér á landi þegar olíuverð lækkar á heimsmarkaði, og hver er ástæðan fyrir því, að slík lækkun hefur ekki átt sér stað til neytenda hér.“

Sú regla hefur alltaf gilt við verðákvörðun verðlagsyfirvalda á olíu að heimila útsöluverð á olíuvörum samkv. innkaupsverði þeirra, en ekki endurnýjunarverði. Þar af leiðandi hafa verðhækkanir á olíu komið seinna fram hér en annars staðar, en um leið koma verðlækkanir einnig síðar fram. M.ö.o.: þegar olíuverð á heimsmarkaði eða í Rotterdam lækkar kemur breytingin ekki fram í verði til neytenda hér fyrr en eldri olíubirgðir eru að mestu seldar. Endingartími olíubirgða í landinu eru nú um það bil 2–41/2 mánuður eftir tegundum. Við seinustu áramót voru t.d. fjögurra mánaða birgðir til af gasolíu og svartolíu og þriggja mánaða birgðir af bensíni. Olía, sem keypt er til landsins á lægra verði í dollurum en það sem fyrir er í birgðum, veldur lækkun síðar svo framarlega sem gengi Bandaríkjadollars í krónum helst stöðugt og innkaupsverðið í krónum er ekki hærra en það sem til er í birgðum. Hér þarf einnig að hafa í huga stöðu innkaupajöfnunarreiknings hverrar olíutegundar. Áætluð staða innkaupajöfnunarreiknings bensíns, gasolíu og svartolíu við ákvörðun verðlagsráðs frá 30. jan. 1982 var samtals neikvæð um 22 millj. kr. Þessi halli á innkaupajöfnunarreikningi hverrar olíutegundar hefur orsakast m.a. af því, að eldri olíufarmar hafa verið seldir neytendum á lægra verði en innkaupsverð þeirra var og dregur því úr möguleikum til verðlækkunar síðar. Við verðákvörðun verðlagsráðs frá 30. jan. var tekið mið af þeim olíubirgðum sem til voru í landinu, samanborið við verðákvörðun þar á undan. (Forseti hringir.) Forseti. Ég á mjög skammt eftir af því að svara fsp. — Bensínverð hafði staðið í stað í dollurum miðað við fyrri verðákvörðun, gasolía hafði hækkað um 3.1% í dollurum, en svartolía hafði lækkað um 3.9%. Hækkun á gengi Bandaríkjadollars frá fyrri verðákvörðun í krónum var orðin 15.4%. Hækkun á gengi Bandaríkjadollars í krónum var því meginorsök síðustu hækkunar og gerði meira en að eyða áhrifum af lækkun á dollaraverði á svartolíu. Verðlagsráð ákvað hækkun á olíuvörum frá 30. jan. s.l. Bensín hækkaði þá úr 8.45 kr. í 8.95 kr. eða um 5.9%. Gasolía hækkaði úr 3.10 kr. á litra í 3.65 kr. eða um 17.7% og svartolía hækkaði úr 2200 kr. tonnið í 2470 kr. eða um 12.3%. Bensín hækkaði aftur 6. febr. s.l. úr 8.95 kr. á lítra í 9.45 kr. eða um 5.6% vegna fjáröflunar til vegagerðar. Að undanförnu hafa skráningar á heimsmarkaði á bensíni og gasolíu lækkað, en svartolía hefur hækkað miðað við dollaraverð birgða sem til voru í landinu við síðustu verðákvörðun.

Ég vil að lokum geta þess, að olíufélögin hafa ekkert með verðlagningu olíu að gera. Það er verðlagsráð sem fjallar um þau mál og ákveður olíuverðið hverju sinni. Olíufélögin sækja til verðlagsráðs um hækkanir. Verðlagsráð lætur síðan leggja faglegt mat á umsóknina og síðan er tekin ákvörðun um verðlagningu í verðlagsráði. Ég held að ég fari rétt með það, að yfirleitt hafi verðlagsráðsmenn, hvort sem það eru fulltrúar samtaka launafólks eða aðrir, verið sammála um ákvarðanir um verðlagningu á olíuvörum.