09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég gat eiginlega hvorki setið undir þessum svörum né heldur spurningunni. Ég hef ekki orðið var við það, að þó að verð lækki úti í heimi á olíu hafi það komið fram hér heima. Ég held að hv. þm., sem hér var með fsp., Skúli Alexandersson, 4. þm. Vesturl., hafi verið of bráður á sér að þakka viðskrh. fyrir svörin. Hvort þetta er innan flokksins hef ég ekki hugmynd um, en ég vildi gjarnan fá svör hvað þetta varðar. (Gripið fram í: Hér um bil innan flokksins.) Hér um bil innan flokksins, já. Jæja, það má vel vera. Ég er ókunnugur innan þessara veggja, eins og þið vitið. Þið hafið oft brosað að mér.

En ég vil fá svör frá viðskrh., ef ég má biðja um það á staðnum: Hvers vegna koma lækkanir úti í heimi á olíu aldrei fram hér heima? Er viðskrh. eins gráðugur og hann lýsti yfir á framboðsfundi á Austurlandi? Hann sagðist vera svo gráðugur að hann hækkaði skattana, sem Sverrir setti á, örlítið, pínulítið. Er hann enn að því? Er hann alltaf við sama heygarðshornið? Nú vil ég benda honum á, því að það er stutt eftir af kjörtímabili ríkisstj.. að það er mál til komið vegna flokksins, að snúa við blaðinu. Ég er nú svolítið honum tengdur því að tengdafaðir minn var ágætis framsóknarmaður. Það er von að þið brosið, strákar mínir. En ég vil fá svar um þetta: Vill hann ekki fara að lækka sig örlítið fyrir kosningarnar sem hljóta að verða þegar kjörtímabilið er búið?

Herra forseti. Það má vel vera að þið haldið að þetta sé gamanmál sem ég er að fara með. En það er ekkert gamanmál fyrir okkur á Austfjörðum, Vestfjörðum og hvar sem er þegar olían á fiskiskipin sérstaklega hækkar. Það er ekkert gamanmál, að þegar við heyrum um lækkanir úti í heimi á olíu er hækkað hér heima. Við viljum fá svör við þessu.

Hv. 4. þm. Vesturl. var að spyrja um birgðirnar og þakkaði ráðh. svörin. Ég heyrði ekki nokkurt svar hvað það varðar sem mark var á takandi.