09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það eru fáein orð. Hér hafa hv. þm. lýst yfir annars vegar, að olíuverðið sé of hátt vegna þess, að olíufélögin sjái um þetta, og hins vegar, að það þyrfti að þjóðnýta olíuna og olíuverslunina til þess að lækka verðið. Svo hafa þm. lýst yfir að verðið sé allt of hátt vegna þess að innkaupin séu á vegum ríkisins og það þurfi að gefa þetta frjálst. Um þetta hafa menn deilt og munu áreiðanlega halda áfram að deila. Ég skal ekki við þetta tækifæri blanda mér svo mjög í það.

En varðandi innkaup á olíu er nauðsynlegt að hafa það í huga, t.d. í sambandi við samninga við Sovétríkin um olíuvörur, sem eru langstærsti verslunaraðili á því sviði, að það er gerður rammasamningur til fimm ára. Það hefur verið gert síðan 1953 að þáv. ráðh. Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir því. Þessi rammasamningur kveður á um það, að kaupa skuli svo og svo mikið af olíuvörum á ári hverju. Hins vegar eru ákvæði þannig í þessum samningi, að það er samið árlega um verð. Þess vegna getur farið svo að það náist ekki samkomulag um verð og þá verði engin viðskipti það árið. Samningurinn er m.ö.o. háður þessum verðákvæðum.

Síðan 1980 hafa málin þróast þannig að okkar olíuviðskipti við Sovétríkin hafa verið mjög hagstæð. Við lögðum á það nokkra áherslu þá að fá annan mælikvarða á olíuverð en verið hafði, þ.e. annan en Rotterdamverðið, uppboðsverðið, en Sovétríkin lögðust gegn því. Það var stefna hjá þeim að halda sig við uppboðsverðið. Við höfum verið heppnir fram að þessu að þessu skyldi ekki verða breytt, en hve lengi, um það skal ég ekki spá.

Varðandi verðlag á olíu er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig verðlag á olíuvörum hefur verið í landinu miðað við annað verðlag. Það hefur verið gerð athugun á því, hvernig verð á bensíni, gasolíu og svartolíu hefur verið t.d. á árinu 1981 samanborið við vísitölu framfærslukostnaðar, og það kemur á daginn að bensínverðið hefur verið mjög svipað, þó aðeins lægra, en aftur hafa bæði gasolía og svartolía verið talsvert lægri en nemur hækkun á framfærsluvísitölu. (Gripið fram í: Sagðir þú svartolíu líka?) Ég sagði svartolíu líka, já. Ef miðað er við 1981 og gert ráð fyrir að í janúar hafi verð á svartolíu verið 100 og vísitalan þá einnig 100, þá var verð á svartolíu í des. 1981 128.7 en framfærsluvísitala 142.5. Verð á svartolíu hefur því verið talsvert lægra en nemur hækkun framfærsluvísitölu á árinu 1981. Þetta vildi ég upplýsa.

Hv. þm. Albert Guðmundsson telur að það sé staðið vitlaust að þessum viðskiptum. Það kann vel að vera, að hægt sé að bæta þar um, ekki efast ég um það. En við komumst aldrei fram hjá því að greiða fyrir olíuna. Það hefur ekki árað þannig, að menn hafi getað sett olíuseljendum kosti, ekki síðan olíukreppan skall á 1973. Menn hafa yfirleitt ekki getað sett þeim kost: Menn hafa orðið að hlíta þeim kostum sem þeir setja. Auðvitað hafa verið sveiflur frá ári til árs, en það hefur verið meginreglan á undanförnum árum.

Varðandi innkaup á olíu til Íslands hefur verið lýst hvernig þau eru. Það eru um 60% af innkaupunum sem koma frá Sovétríkjunum og um 40% frá vestrænum aðilum. Við höfum keypt í vaxandi mæli bensín frá Portúgal. Það er vel, vegna þess að Portúgalar versla gífurlega mikið við okkur, kaupa af okkur sjávarafurðir fyrir um 100 millj. dollara á þessu og seinasta ári. Viðskipti okkar við Portúgal hafa verið ákaflega hagstæð, en við höfum keypt frekar litið af þeim. Þess vegna hefur það komið sér vel að kaupa af þeim bensín.

Við höfum hins vega gert samninga við vestræn félög, eins og t.d. BNOC, breska ríkisolíuhlutafélagið, sem hafa verið óhagstæðari en Rotterdam-verðið nú um sinn. Hvort það verður áfram er erfitt að segja. Það er léttara að tala um þessi mál eftir á heldur en fyrir fram, eins og er um fleiri mál, og getur verið býsna vandasamt að meta það, hvernig á að haga þessum viðskiptum, en það verður að gera þau nokkuð fram í tímann. Það er ekki hættandi á að gera viðskiptin eftir hendinni. Það þarf að gera þau nokkuð fram í tímann til þess að tryggja öryggi landsins í þessum efnum.