09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

382. mál, norrænt samstarf á sviði menningarmála

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég yrði manna ánægðastur yfir því, ef hægt væri að fá seljendur olíuvara til að setja upp miklar birgðir af olíuvörum hér á Íslandi án þess að það kostaði íslenska neytendur nokkurn skapaðan hlut. Það verð ég að segja. Ég hef takmarkaða trú á að það sé mögulegt. Það getur vel verið að hægt sé að fá þá til að hafa hér olíubirgðir, ég skal ekkert um það segja. En að það kosti íslenska neytendur ekki neitt, ég er vantrúaður á það. Ef hv. þm. Albert Guðmundsson gæti komið því til leiðar að við gætum fengið hér olíubirgðir í landið án þess að það kostaði íslenska neytendur nokkurn skapaðan hlut, þá yrði ég fyrir mitt leyti mjög ánægður með það, svo ekki sé meira sagt.

Ég er búinn að svara ýmsu varðandi olíuvörur. Ég er búinn að svara því til, að hækkun verðlags á olíuvörum er minni en hækkun framfærsluvísitölu árið 1981. Ég er búinn að gera grein fyrir því varðandi bensínið, að um 55% álag kemur á bensínið vegna þess að um 22% renna til vegamála, 32% í ríkissjóð og um 1.1% í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það hefur áhrif á verðið á markaðnum, en þrátt fyrir það hefur verð á bensíni hækkað svipað og framfærsluvísitalan hækkaði á síðasta ári.

Varðandi það, að til landsins hafi komið aðilar sem hafi boðið olíu á hagstæðara verði, þá höfum við í viðskrn. gefið þessu gaum. Það úir og grúir, það er allt löðrandi af fjármálaspekúlöntum um allan heim sem reyna að koma á olíuviðskiptum og græða á þeim. Þeir eru að reyna að fá bréf frá ríkisstjórnum og ráðherrum til þess að hafa í vasanum og reyna svo að koma á viðskiptum. Þessi bréf eru kölluð í daglegu tali „hunting licenses“ eða „veiðileyfi“ og þetta eru gróðamenn sem vilja græða á þessum viðskiptum. Ég held að menn eigi að hafa varann á í sambandi við þá. Þeir sækjast ekki eftir neinu öðru en græða sjálfir á þessu. Um það ber öllum saman sem nálægt þessum málum koma. Ég hef látið kanna þetta talsvert, og viss blöð hafa skrifað um þessi mál. Ég hef t.d. í mínum fórum í rn. greinar sem fjalla einmitt um þessa fjármálaspekúlanta sem ferðast um heiminn og reyna að gera góð viðskipti fyrir sig í sambandi við þessi mál. Ég álit að menn þurfi að fara dálítið gætilega gagnvart þeim. Það hafa allir gert í þessum efnum og reynt að taka ekki of mikla áhættu.

Á árinu 1980 var t.d. ákaflega hagstætt að kaupa jarðolíu og það gerðu ýmis ríki og stórir aðilar, keyptu mikið af jarðolíu, óhreinsaðri olíu árið 1980. Þeir hafa yfirleitt stórtapað á þeim viðskiptum. T.d. hafa Svíar og ýmsir fleiri stórtapað vegna þess að verðþróunin í olíumálunum varð allt önnur en menn áttu von á. Framboðið varð miklu meira, jarðolían féll í verði og menn, sem höfðu birgt sig upp, töpuðu. Ég held því að menn þurfi að fara fram með vissri gætni í þessum efnum.

En ég vil endurtaka það, að ef hv. þm. Albert Guðmundsson getur komið hér upp miklum birgðum af olíuvörum í landinu án þess að það kosti íslenska neytendur nokkurn skapaðan hlut, þá yrði það áreiðanlega vel þegið af allri þjóðinni.