28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er auðvitað hárrétt, sem hér hefur komið fram hjá ég held flestum, að sjómannastéttin í landinu hefur borið skarðan hlut frá borði varðandi verðákvarðanir og augljóst að það getur varla verið langt í að sú stétt láti meira í sér heyra og að þar fylgi á eftir aðgerðir sem stjórnvöld hljóta að koma til með að skilja. Ég held að hæstv. ríkisstj. þurfi ekki að búast við því, að sjómenn taki á sig aftur byrðar álíka því sem loðnusjómenn tóku á sig við verðákvörðun á loðnu nýverið. En það er eitt atriði í viðbót sem ég vildi skjóta inn í þær umr. sem hér fara fram varðandi fiskverðsákvörðun.

Nú eru aðeins tveir mánuðir í það að aftur eigi að ákveða fiskverð, þ. e. um áramót, og þá hlýtur að koma inn í þá fiskverðsákvörðun hvernig verður farið með hið margumtalaða olíugjald sem núv. hæstv. sjútvrh. er a. m. k. tvívegis búinn að lofa að fella niður, en hefur ekki gert. M. a. s. hefur hann hækkað það stórlega frá þeim tíma sem hann lofaði að leggja það niður. Ég held að það sé alveg augljóst mál, að verði olíugjaldið ekki fellt niður við fiskverðsákvörðun um áramót liggi flotinn í höfn. Ég held að það sé gott, ekki bara fyrir hæstv. sjútvrh., heldur og ríkisstj. í heild að gera sér grein fyrir þessu. Sjómenn líða það ekki lengur að marggefin fyrirheit þeim til handa varðandi niðurfellingu olíugjaldsins verði svikin. Auðvitað varðar þetta fiskverðsákvörðun, og ég vil spyrja hæstv. ráðh. um það. Það mun hafa verið í gangi lengi nefnd sem átti að kanna leiðir til að fetta niður olíugjaldið. Hvað líður störfum slíkrar nefndar? Er þess að vænta að hún verði búin að skila af sér um áramót, eða er hún kannske búin að skila af sér? Verður hún búin að skila af sér fyrir áramót, þannig að menn geti skoðað fiskverðsákvörðun í ljósi þess?

Vestfirskum sjómönnum var lofað því af hæstv. sjútvrh. í þeirri deilu, sem uppi var á sínum tíma við þá, að olíugjaldið yrði fellt niður. Hæstv. ráðh. lofaði að beita sér fyrir því, að olíugjaldið yrði fellt niður, en kom síðan þvert á það loforð með því að stórhækka það frá því sem það var. Það er ekki nema eðlilegt að sjómenn séu orðnir langþreyttir á því að fá slíki í bakið hvað eftir annað. Ég man ekki betur en því hafi líka verið lofað af hæstv. ráðh. í þeirri deilu, að það yrði sett á fót nefnd til að athuga um vinnutíma hjá sjómönnum. Þá er spurningin: Hvað er slíki nefndarstarf langt á veg komið, eða er það sá starfshópur sem hæstv. ráðh. er nú að tilkynna að hann hafi sett af stað nýverið eða ætli að setja af stað til að kanna þessi mál?

Það er aðeins tæp vika síðan hæstv. forsrh. og aðrir hæstv. ráðh. lýstu úr þessum ræðustól sem afskaplega mikilli glansmynd stöðu þjóðarbúsins og afrekum hæstv. ríkisstj. í sambandi við efnahags- og atvinnumál. Mér sýnist að sú glansmynd sé nú þegar orðin mött, af orðum þeirra sjálfra að heyra. Það skyldi ekki vera að næstu dagar eða vikur færðu landslýð frekar heim sanninn um að það er ekki allt eins slétt og fellt í þjóðarbúskapnum og hæstv. ríkisstj. vill vera að láta. Þar eiga eftir að koma í ljós æðimargar kynjamyndir, miðað við það sem hæstv. ráðh. hafa látið í skina.

Ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. sjútvrh. vegna þess að ég tel að það sé nátengt ákvörðun um fiskverð á næstunni: Hvað liggur fyrir í sambandi við að olíugjaldið verði afnumið eins og búið er að lofa?