09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. vísaði til þess í sinni ræðu áðan, að Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur hefðu ákveðið að hækka sína gjaldskrá, Hitaveitan um 13% og Rafmagnsveitan um 22%, en þetta er sú hækkun sem mér er tjáð að hæstv. iðnrh. hefði á sínum tíma mælt með, en gjaldskrárnefnd ekki samþykkt. Þessi ákvörðun borgarráðs byggist á því áliti tveggja lögfræðinga, tveggja valinkunnra lögfræðinga á sviði stjórnsýsluréttar, að lagaákvæði um verðstöðvun hafi fallið niður um s.l. áramót og þess vegna sé frjálst fyrir borgarráð Reykjavíkur að setja umræddum fyrirtækjum gjaldskrár að því tilskildu að ráðh. staðfesti, en hins vegar er litið svo á að sú staðfesting sé meira formsatriði en efnis, þ.e. að ráðh. eigi að gæta þess í því tilviki að rétt hafi verið að hækkun staðið. Það mun hafa verið haft eftir hæstv. ráðh. í fjölmiðlum, að ég hygg í morgun frekar en í gær, að þetta mál yrði rætt í ríkisstj. í dag. Þess vegna vil ég leyfa mér af því tilefni og sérstaklega vegna þess að ráðh. minntist á þetta í ræðu sinni áðan að spyrja hann hver hafi orðið niðurstaða þess máls og hvert sé viðhorf hans í þessu máli, sem er gífurlega mikilvægt mál fyrir þessi tvö mikilvægu fyrirtæki Reykjavíkurborgar.