09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að vonandi finnum við leiðir til að draga verulega úr þeim mikla mismun sem ríkir í sambandi við húshitunarkostnað í landinu.

Hv. 6. þm. Reykv. kom þar að einum þættinum, sem ég drap á áðan að mundi draga úr mismun ef framkvæmdur yrði, þ.e. að hækkun yrði hjá þeim sem lægstar gjaldskrár hafa, sem minnstan kostnað hafa af sinni upphitun. Ég get staðfest það viðhorf mitt, að ég tel eðlilegt að þeim aðilum, sem bera fram skýr rök fyrir hækkunarþörf varðandi innlendan húshitunarkostnað, verði heimilað það innan þeirra marka og að teknu tilliti til almennra sjónarmiða og þeirrar stefnu sem stjórnvöld hafa í sambandi við verðlagsmálin.

Í samþykkt ríkisstj. um efnahagsmál nú ekki fyrir löngu er að þessu máli vikið og sett fram sú stefna að sveitarstjórnir fái heimild til að breyta gjaldskrám fyrirtækja sinna sem nemur hækkun byggingarvísitölu án sérstaks leyfis frá ríkisvaldinu. Þetta stefnumið er ekki gamalt og er að því unnið að átta sig á hvernig rétt sé að útfæra það, m.a. þá viðmiðun við byggingarvísitölu sem þarna er að vikið, frá hvaða tíma reikna skuli.

Nú voru veittar hækkanir á gjaldskrám 1. febr. s.l., þar á meðal hjá veitufyrirtækjum Reykjavíkurborgar, en aðeins að hluta að því sem óskað var af þeirra hálfu. Það hafði farið fram nýlega úttekt á vegum iðnrn. á hækkunarþörf Hitaveitu Reykjavíkur með hliðsjón af rekstri og framkvæmdum næstu ára. Að áliti meiri hl. nefndarinnar var talin þörf á hækkun sem næmi um 30%, þ.e. áður en hækkunin 1. febr. kom til framkvæmda, en minni hl. nefndarinnar, einn fulltrúi í henni, taldi að hækkunarþörfin væri meiri eða allt að 45%. Ég tel eðlilegt að reynt sé að verða við sanngjörnum óskum þessa veitufyrirtækis í áföngum, og á þetta mál og óskir, sem fram eru komnar til ráðuneytisins, verður litið með hliðsjón af því.

Hins vegar get ég ekki fallist á það viðhorf, að verksvið stjórnvalda — í þessu tilviki iðnrn. — sé það eitt að stimpla fram komnar óskir frá viðkomandi sveitarfélagi eða veitufyrirtæki. Í orkulögum, sem vitnað er til í þessu sambandi, er gert ráð fyrir að ráðh. staðfesti gjaldskrár viðkomandi veitufyrirtækja. Atbeini ráðh. í þessu sambandi getur ekki falist í því einu að segja já og amen við öllu sem fram kemur. Það verður að sjálfsögðu að leggja mat á þær óskir sem fram eru bornar.

Í þessu sambandi vil ég nefna það, að hækkanir á gjaldskrám veitufyrirtækja hafa yfirleitt ekki verið heimilaðar nema 10 dögum fyrir útreikning verðbóta og samkv. því kæmi ekki til að leggja mat á hækkanir fyrr en í lok aprílmánaðar vegna útreiknings vísitölu fyrir næsta verðbótatímabil. 1 umræddri efnahagsáætlun ríkisstj. var hins vegar að því vikið, að það yrði athugað hvort samstaða gæti tekist um að aðgerðir til jöfnunar orkukostnaðar kæmu ekki inn í útreikning verðbóta að einhverju marki. Það er atriði sem líta þarf á í þessu samhengi.

Ég vil því svara fyrirspurn hv. 6. þm. Reykv. með þeim hætti, að yfir þessi erindi verður farið og það verður litið af velvilja á fram komnar óskir. En á þessu stigi er ekki hægt að veita fyrirheit um að þær verði afgreiddar með jákvæðum hætti alveg á næstunni. Ég geri ráð fyrir að það verði haft samráð við veitufyrirtækin um úrlausn í áföngum varðandi þeirra óskir og erindi og tel rétt og skylt að taka þannig á málinu.