09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. iðnrh. var á árinu 1980 samþykkt hér á hinu háa Alþingi að leggja á orkujöfnunargjald, 1.5% hækkun söluskatts, til að bæta úr neyðarástandi fólks vítt um land vegna mjög hás upphitunarkostnaðar húsa. Á þessu ári er áætlað að innheimta 190.1 millj. kr. í orkujöfnunargjald. Af því á aðeins að nota 30 millj. í olíustyrki og veita lítils háttar styrk til lítilla hitaveitna, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, tveggja slíkra veitna. Eftir standa þá 140–150 mill j. kr. Ef því væri jafnað á þá, sem núna þurfa að greiða hæst eða mjög hátt upphitunargjald, væru til ráðstöfunar 10–15 þús. kr. á hverja fjölskyldu í landinu sem þarf að borga hátt upphitunargjald. Við innheimtum sem sagt nægilega mikið, en spurningin er bara sú, hvort hæstv. ríkisstj. vill nota orkujöfnunargjaldið til þeirra þarfa sem Alþingi ætlaðist til, m.ö.o. til jöfnunar á orkukostnaði fólks. Hæstv. ríkisstj. innheimtir féð, en notar það ekki í því skyni sem Alþingi ætlaðist til.