09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður var að nefna orkujöfnunargjaldið og benti réttilega á hvernig farið er með það. Þetta er nú ekkert einsdæmi, að lagður sé á skattur undir fölsku yfirskini og fjármununum varið í aðrar þarfir. Þetta er alveg hliðstætt og er með launaskattinn, sem er lagður á undir því yfirskini að það eigi að efla byggingu íbúðarhúsnæðis í landinu, en fjármununum er varið í ríkissjóð.

En hæstv. ráðh. minntist á að árið 1980 hefðu verið sett lög um jöfnun hitunarkostnaðar. Það eru þau lög sem nú gilda. Þau eru mjög gölluð og ófullkomin. Þess vegna var gefin yfirlýsing af hæstv. viðskrh., þegar þau lög fengu lokaafgreiðslu hér í þinginu, um að þau yrðu þegar í stað endurskoðuð og þá höfð hliðsjón af frv. til laga um niðurgreiðslu olíu til jöfnunar á hitunarkostnaði sem ég ásamt meðflm. úr öllum öðrum stjórnmálaflokkum flutti. Það er nefnd núna að endurskoða gildandi lög, ég vænti á grundvelli þessarar yfirlýsingar.

Samkv. þessu frv., sem ég og félagar mínir fluttum, var gert ráð fyrir að hitunarkostnaður yrði hvergi meiri í landinu en sem svaraði að hann væri tvisvar og hálfum sinnum meiri en hjá Hitaveitu Reykjavíkur eða eins og það var orðað „vegið meðaltal hitaveitna í landinu“, en það þýðir nánast verð Hitaveitu Reykjavíkur.

Það er talað um núna að það þurfi að bæta úr því ástandi sem er. Það verður gert með tvennu móti. Það verður með því að greiða niður hitunarkostnað þar sem hann er hæstur og leyfa hækkun hitakostnaðar þar sem verið er að biðja um hækkun. Það hefur verið athugað hvað þetta kostar í framkvæmd ef t.d. væri gengið út frá því að hitunarkostnaður í landinu væri hvergi hærri en þrefalt hærri en hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Þá kemur út úr því dæmi að niðurgreiðslan kostar 133 millj. kr. á ári. Ef Hitaveita Reykjavíkur fengi hins vegar að hækka sitt verð um 30% væri þessi kostnaður kominn í 64 millj. á ári, og ef Hitaveita Reykjavíkur fengi að hækka sitt verð um 40% væri kostnaðurinn kominn niður í 45 millj. á ári. Ég tek fram að þessar tölur miða ekki við að það sé niðurgreidd upphitun á húsnæði til atvinnurekstrar, en það er annað reikningsdæmi. Ég er ekki með það hér fyrir framan mig. En þessar tölur, sem ég hef hér nefnt, eru miðaðar við verðlag í árslok 1981.

Hv. 1. þm. Vesturl. sagði að það væri ekki nægilegt að ræða þennan vanda, það yrði að takast á við hann. Þetta er hverju orði sannara. Ég vænti þess, að hv. stjórnarþingmenn, eins og hv. 1. þm. Vesturl. og aðrir slíkir, taki höndum saman við okkur í stjórnarandstöðunni sem erum að berjast fyrir þessu nú.