28.10.1981
Neðri deild: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að þurfa að fara yfir þetta einu sinni enn, en til mín hefur verið beint spurningu sem ég skal svara.

Hv. þm. hefur endurtekið það héðan úr ræðustól aftur og aftur að ég hafi lofað því að olíugjaldið yrði fellt niður. Ég hef lesið fyrir hv. þm. og reyndar fyrir þingheim bréf það sem frá mér fór í sambandi við deilu þeirra á Vestfjörðum. Þar kom skýrt fram, að ég hef ekki lofað því, að olíugjald verði fellt niður.

Hins vegar vil ég taka það skýrt fram við hv. þm., og ég veit að hann veit það í hjarta sínu, að ef olíugjaldið er fellt niður nú og ekkert kemur í staðinn stöðvast togaraflotinn. Það er alveg ljóst mál. Togararnir fara núna með frá 20 upp í 35% af aflaverðmæti sínu í olíukostnað. Þeir fá ekki staðist það án þess að fá eitthvað upp í þennan gífurlega kostnað, sem hefur hækkað svo mikið á undanförnum árum. Þess vegna hef ég lagt á það mjög mikla áherslu, að sú nefnd, sem fyrirrennari minn skipaði, skili áliti. Það hefur gengið hægara en ég hafði vonað.

Málið er ákaflega viðkvæmt. Fyrir þeirri nefnd liggja nú ákveðnar tillögur formanns, Bolla Bollasonar, sem hann hefur lagt fram í nefndinni og eru þar til umræðu, um breytingu sem felur í sér að afnema olíugjaldið, en mæta hins vegar olíukostnaði á annan máta, en tryggja sjómönnum að þeir beri svipað úr býtum og þeir gera nú. Hvort nefndin lýkur störfum sínum fyrir áramótin skal ég ekkert um segja. Því miður hafa þau gengið hægar en ég hefði óskað.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að taka á þessum olíumálum, og mín skoðun er óbreytt, að olíugjaldið, sem er greitt í hlutfalli við aflamagn, sé óeðlilegt, það eigi að greiða olíukostnað í hlutfalli við olíunotkun. Mín skoðun er að þessu leyti algjörlega óbreytt.

Þetta var sú meginspurning sem hv. þm. beindi til mín. En svo bætti hann því við, að ég hefði jafnframt lofað að athuga um vinnutíma sjómanna. Ég bauðst í sama tilviki og áður getur til að láta athuga vinnutíma sjómanna. En mér var svarað að það mundi vera óþarft því það yrði gert innan samtakanna sjálfra. Nú hefur það hins vegar ekki verið gert og þess vegna hef ég ákveðið að beita mér fyrir skipun slíks starfshóps sem ég nefndi áðan til að athuga það mál.