09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2911 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að við, sem höfum talað í þessum umr., erum allir sammála um nauðsyn þess, að það komist á meiri jöfnuður í upphitunarkostnaði landsmanna en nú er. Menn hafa verið að bera fram spurningar um hvað jöfnuðurinn ætti að vera mikill. Ég vék að frv. sem ég og meðflm. mínir úr öðrum stjórnmálaflokkum bárum fram á þingi 1979–1980. Þá reiknuðum við með að munurinn yrði mest um tvisvar og hálfum sinnum meiri hitunarkostnaður en hjá Hitaveitu Reykjavíkur eða vegið meðalverð hjá hitaveitum. Ég hygg að það væri gott ef við stefndum nú að þessu marki eða eitthvað svipuðu. Þetta er verðjöfnun. Þetta er jöfnun hitunarkostnaðar. Hún er ákaflega mikilvæg. En það er líka eitt sem er mikilvægt. Það er að hitunarkostnaðurinn sé sem lægstur. Það er lítil bót í því að hafa jafnan hitunarkostnað ef hann er hár um allt land og e.t.v. hærri en hann þyrfti að vera. Þess vegna megum við aldrei gleyma því, að skipulag þessara mála er ákaflega þýðingarmikið. Við verðum að hafa skipulagið á þann veg, að það stuðli í sjálfu sér að sem lægstu orkuverði um allt land.

Hér var aðeins vikið að því, og hæstv. iðnrh. sagði að hann væri á þeirri skoðun, að orkuframleiðslan ætti að vera öll eða aðallega á hendi eins virkjunarfélags, orkufyrirtækis. Hér er komið gamalt deilumál sem ég ætla ekki að fara inn á. En ég er andvígur þessu vegna þess að ég tel að ef það sé möguleiki fyrir fleiri en eitt fyrirtæki að starfa á þessum vettvangi höfum við bestu trygginguna fyrir því, að reksturinn geti stuðlað að sem lægstum hitunarkostnaði um allt land án þess að það hindri á nokkurn hátt að það geti verið hliðstætt orkuverð líka um allt land.