09.03.1982
Sameinað þing: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2912 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

187. mál, framkvæmd orkumálakafla stjórnarsáttmálans

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skil hv. 1. þm. Vesturl. á þá leið, að hann ásamt öðrum, sem hér hafa tekið undir verðjöfnunarstefnu varðandi húshitun, sé reiðubúinn til að standa að tekjuöflun eða sjóðmyndun til að ná fram markmiðum til jöfnunar á orkukostnaði. Ég fagna því, að sá vilji er fyrir hendi, og treysti að hann reynist vera til í raun þegar kemur að því að safna í slíkan sjóð.

Ég vil koma að því sem ég gleymdi raunar að víkja að varðandi mál hv. 5. þm. Vestf., þ.e. í sambandi við verðlagningu á orku til orkufreks iðnaðar. Þar er vissulega um að ræða einn verulegan þátt sem tengist þessum málum. Það er eðlilegt markmið og viðhorf að orkufyrirtækin standi undir kostnaði, það þurfi ekki að greiða með þeim á heildina litið og helst að þau gætu lagt eðlilegt fjármagn fram til viðhalds og að hluta til framkvæmda þó að lántökur hljóti að koma til þegar um stórátök er að ræða fyrir framtíðina. Þar skiptir verðlagningin á orku til orkufreks iðnaðar auðvitað mjög verulegu máli. Einn þáttur í því markmiði, sem hér er rætt um, er að ná fram verulegri breytingu á því sem nú er í þeim efnum. Um það þarf ég ekki að fjölyrða. Ég vil þó aðeins minna á athyglisverða staðreynd sem snertir verðlagningu á raforku hjá almenningsveitum í landinu.

Þegar litið er til kostnaðarsamanburðar á milli orkunnar, sem seld var til álversins í Straumsvík árið 1970 eða um það bil þegar það tók til starfa, þá var munurinn á heildsöluverði raforku til þess fyrirtækis og til almenningsveitna 81%. Nú er þessi kostnaðarmunur ekki 81%, heldur 413%. Þetta er staðreynd sem ég held að sé vert að hv. alþm. hafi í huga. Á bak við þessa þróun búa ákveðnar staðreyndir og saga sem við þurfum að leggja á minnið og hagnýta til að ná fram nauðsynlegum og réttmætum leiðréttingum á þeim þáttum sem þarna er um að ræða.

Varðandi verðlagninguna og verðsamanburðinn vil ég minna hv. 5. þm. Vestf. á að það eru fleiri en viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins, sem um er að ræða og við þurfum að hafa auga á, og fleira, sem taka þarf inn í dæmið en Reykvíkingar og viðskiptavinir Rafmagnsveitnanna. Við þurfum einnig að hafa auga á veitufyrirtækjum víða um landið sem eru með sína viðmiðun, þ. á m. fyrirtæki sem eru ekki langt frá núverandi heimahögum hv. þm. og nefnt var hér áðan, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, sem er með verðlagningu sem nemur samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef, 73% af niðurgreiddu olíuverði. En rafhitun er samkv. sömu upplýsingum frá byrjun febrúar hjá Rafmagnsveitum ríkisins 94% af niðurgreiddu olíuverði. Við verðum að hafa auga á þessu öllu í heild, þegar við erum að skoða þetta dæmi, sem er ekki einfalt, en engu að síður þurfum við að klóra okkur fram úr því.