09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

223. mál, brú yfir Hvalfjörð

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Það hefur lengi verið áhugamál þeirra, sem búa norðanvert við Hvalfjörð, að fá athugað hvort ekki væri hugsanlegt að leysa samgöngur um Hvalfjörð með brú yfir fjörðinn utanverðan. Þetta mál hefur, eins og tillögumaður kom að í sinni framsöguræðu, komið til kasta Alþingis oftar en einu sinni áður. Svo langt komst þetta mál að á sínum tíma samþykkti Alþingi að láta fara fram alhliða athugun á því, með hvaða hætti væri hagkvæmast að leysa samgöngur um Hvalfjörð. Einn liður í þeirri athugun var að kanna hvort ekki væri mögulegt að brúa fjörðinn utanverðan. Þær niðurstöður, sem birtar voru í svonefndri Hvalfjarðarskýrslu á árinu 1972, bentu til að það væri óheyrilega kostnaðarsamt að byggja brú yfir fjörðinn á þeim stað. Það var sem sagt niðurstaða þeirrar skýrslu, að það mundi kosta á verðlagi ársins 1972 4 milljarða kr. að byggja þessa brú. Til þess að gera okkur í hugarlund hvaða upphæð hér er um að ræða er það álit fróðra manna, að á árinu 1982 mundi þessi kostnaður verða um 2000 millj. nýkr.

Ef það verðlag, 2000 millj. nýkr., er borið saman við þekkt mannvirki má geta þess, að á verðlagi ársins 1982 kostar Borgarfjarðarbrúin 225 millj. kr. Það er m.ö.o. því sem næst níu sinnum dýrara að brúa Hvalfjörð utanverðan heldur en var að brúa Borgarfjörðinn. Til þess að bera þessar verðlagstölur enn þá betur saman við þekktar stærðir er áættað að öll vegagerð, hverju nafni sem nefnist, á árinu 1982 kosti 593 millj. kr. Kostnaður sá, sem upp var gefinn við að brúa Hvalfjörð, jafngildir því rúmlega þriggja ára framkvæmdum í vegamálum eins og þær eru áætlaðar í ár. Til þess að skýra þetta enn frekar má geta þess, að í drögum að langtímaáætlun um vegagerð er talið að það muni kosta 3800 millj. að koma samtals 3700 km stofnbrauta í viðunandi ástand. Þá er gert ráð fyrir að rúmlega 2 þús. km verði með bundnu slitlagi.

Og enn ein samanburðartala í þessum efnum er fróðleg í þessu sambandi. Nú er gert ráð fyrir að það mundi kosta 220 millj. kr. að fullgera veginn milli Akraness og Reykjavíkur með bundnu slittagi. M.ö.o.: hann mundi kosta aðeins brot af því sem ráðgert var 1972 að mundi kosta að byggja brú yfir Hvalfjörð utanverðan. En því er ekki að neita, að alla tíð frá því að þessi svonefnda Hvalfjarðarskýrsla kom út á árinu 1972 hafa menn mjög margir, stórlega efast um að þær tölur, sem upp voru gefnar í þeirri skýrslu um kostnað við brúargerð yfir Hvalfjörð, væru réttar. Talan, sem upp er gefin í skýrslunni, var nánast fengin með þeim hætti, að það var athugaður kostnaður við að gera þrjár brýr í Evrópu. Ein var í Danmörku, ein í Bretlandi og að mig minnir ein í Þýskalandi. Þessar brýr voru auðvitað ákveðinnar lengdar og þetta dæmi var nánast sett upp í þríliðu og fengið þannig út hver mundi hugsanlegur kostnaður við að brúa Hvalfjörð. Það eru ákaflega margir menn sem álíta að þessi aðferð hafi engan veginn verið nægilega ítarleg til þess að gefa viðhlítandi svör um það, hvað brúargerð yfir Hvalfjörð mundi kosta. Þessir sömu menn hafa bent á þó nokkrar brýr í Evrópu sem hafa verið byggðar fyrir mun minna verð. En Vegagerð ríkisins mun sennilega vera á þeirri skoðun, að slíkt mannvirki komi engan veginn til með að henta um Hvalfjörð. Vegagerðin lítur svo á, að til þess að brúa Hvalfjörð með viðunandi hætti þurfi til að koma hengibrú, og þær brýr eru, eins og kunnugt er, tvisvar til þrisvar sinnum dýrari en þær brýr sem við eigum að venjast. Þess vegna er mikil hætta á því, ef ekki tekst að sanna að nægjanlegt sé að byggja brú sem ekki sé hengibrú á þessari leið, að þá muni niðurstaðan af athugun sem þessari verða sú, að hér sé um ákaflega kostnaðarsamt mannvirki að ræða.

Ég tel nauðsynlegt að það verði eitthvað á sig lagt til þess að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hvort mögulegt sé að brúa Hvalfjörð með ódýrari hætti en Vegagerðin hefur gert ráð fyrir að það mannvirki muni kosta, og eytt verði þeirri óvissu sem verið hefur í þessum efnum um alllangt árabil. Ég tel brýnt að í þessa könnun séu lagðir einhverjir þeir fjármunir sem geta leitt okkur í allan sannleika um þetta mál. Þess vegna legg ég eindregið til að þessi till. verði samþykkt.