09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

223. mál, brú yfir Hvalfjörð

Flm. (Guðmundur Vésteinsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og tekið undir þá till. sem ég hef flutt.

Í sambandi við orð hv. síðasta ræðumanns, 4. þm. Austurl. vil ég aðeins leiðrétta það, að þær tölur, sem hann vitnaði til voru tölur úr skýrslu Hvalfjarðarnefndar sællar minningar. Þær hafa verið vefengdar og verið færð fram athyglisverð dæmi. Þau vekja spurningar og það mjög áleitnar spurningar um það, á hvaða grundvelli allt starf Hvalfjarðarnefndar hvað snertir undirbúning brúar og athugun í því efni var byggt. Eins og ég rakti í framsöguræðu minni var veikasti þátturinn í skýrslu Hvalfjarðarnefndar á sínum tíma einmitt brúarþátturinn. Það á sér kannske þær skýringar að hann útheimti auðvitað langítarlegastar og mestar og dýrastar rannsóknir ef ætti að gera honum viðhlítandi skil.

Bent hefur verið á það hér, að þm. Vesturlandskjördæmis hafi áður flutt till. um athugun á samgöngumálum um Hvalfjörð. Ég kannast við það og ég rakti einmitt í framsöguræðu minni dæmi um að þessi mál hafa verið lengi til meðferðar hér.

Í byggðunum norðan Hvalfjarðar hefur í sambandi við þetta mál verið bent á að líklegasta framtíðarlausnin á samgöngumálum Hvalfjarðar væri brú fremst yfir fjörðinn. Ég tel að slíkt mannvirki mundi hafa þá þjóðhagslega miklu þýðingu, að hv. Alþingi þurfi að láta það til sín taka. Hefur verið varpað fram mörgum spurningum í sambandi við það mál og bent á ýmis dæmi um slík brúarmannvirki annars staðar sem það hafi verið leyst á hagkvæman hátt. Ég tel að þessi dæmi séu þess eðlis og þessar spurningar að Alþingi sjálft verði að gera þær að sínum og beita sér fyrir því, að við þeim fáist viðhlítandi svör. Ég tel einmitt að nú sé tímabært að hv. Alþingi beiti sér fyrir því að fá þessi svör, og af því tilefni er umrædd þáltill. flutt.