09.03.1982
Sameinað þing: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

127. mál, hagnýting orkulinda

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég styð í öllum meginatriðum þá þáltill. sem hér er til umr., enda er hún efnislega mjög í sama dúr og þáltill. sem þm. Alþfl. lögðu fram á fyrstu dögum þinghalds haustið 1980 þá á þskj. 8.

Hæstv. iðnrh. hafði margt út á þessa þáltill. að set ja, þó mest það, að Alþingi ætti að kjósa stóriðjunefnd. Hingað til hefur hæstv. ráðh. ekki flökrað við að fjölga nefndum. Hann virðist vilja velja í þær einn og stjórna þeim uppi í sínu rn., Alþingi má þar hvergi nærri koma að mati hæstv. ráðh. Tala nefnda má vera legíó, bara að Alþingi komi ekki nálgægt þeim.

Hann gat um nokkra stóriðjumöguleika, en allir eru þeir í athugun, endalausri athugun, og þegar einni athugun er lokið byrjar hin næsta. Þannig gengur þetta ár eftir ár. Ákvarðanir eru engar teknar. Án uppbyggingar á orkufrekum iðnaði er allt tal um virkjunaráform innantómt. Sé ekki ætlunin að reisa og reka iðjuver, sem byggja framleiðslu sína fyrst og fremst á stórnotkun raforku, er engin ástæða til stórfelldra virkjunarframkvæmda. Umr. um röðun eru þá líka harla tilgangslausar.

Virkjun orkunnar til að nýta orkufrek iðnaðartækifæri er á hinn bóginn álitlegasti valkosturinn sem Íslendingar eiga til að treysta lífskjörin í landinu og fjölga atvinnutækifærum. Verði ekki þegar snúið á þá braut má búast við sífellt vaxandi landflótta og stöðnun í efnahagsmálum. Til þess að nýta þau tækifæri, sem orkan í fallvötnum býður fram til að skapa hér betra og traustara þjóðfélag, þarf að fylgja fastmótaðri stefnu. Stefna í málefnum orkufreks iðnaðar og í virkjunarframkvæmdum verða að fylgjast að. Alþfl. telur brýnt að þegar í stað verði teknar ákvarðanir um slíka stefnumörkun í stað þess úrræðisleysis sem nú ríkir. Alþfl. telur að slík stefna eigi að fela í sér eftirfarandi meginþætti:

1. Samningagerð um sölu raforku til orkufreks iðnaðar verði falin sérstakri orkusölunefnd sem Alþingi kjósi, enda hafa iðnrh. og hæstv. ríkisstj. þegar sannað ónýti sitt í þessum efnum. Orkusölunefndin miði störf sín við það að sala til orkufreks iðnaðar a. m. k. fjórfaldist á næstu tveimur áratugum. Sérstaklega verði unnið að því að fljótlega rísi upp nýtt iðjuver á Austurlandi, eitt á Norðurlandi og eitt á Suður- og/eða Suðvesturlandi, auk stækkana á þeim iðjuverum sem fyrir eru.

2. Virkjunarundirbúningur og framkvæmdir eigi að vera á hendi eins aðila, Landsvirkjunar, sem öllum sveitarfélögum landsins sé gert kleift að gerast aðilar að eftir því sem þau óska.

3. Til þess að geta nýtt þau tækifæri, sem bjóðast, og tryggja samfelldar virkjunarframkvæmdir verði ávallt kappkostað að á hverjum tíma séu fyrir hendi fullkannaðir virkjunarvalkostir sem svara til a. m. k. 300 mw. umfram þær virkjanir sem unnið er að á hverjum tíma.

4. Landsvirkjun verði þegar heimilað að reisa og reka eftirtalin orkuver til viðbótar þeim sem þegar eru fyrir hendi: 1. Nýjar virkjanir eru viðbætur við eldri orkuver á Tungnaár/Þjórsársvæðinu með allt að 220 mw. uppsettu afli. 2. Blönduvirkjun með allt að 180 mw. uppsettu afli. 3. Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 mw. uppsettu afli. Þá er Landsvirkjun og heimilt að gera stíflu við Sultartanga og gera þær ráðstafanir aðrar á vatnasvæðum ofan virkjananna sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra.

5. Við þær framkvæmdir, sem þannig verði þegar heimilað að ráðast í, verði við það miðað að uppsett afl á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu geti hafið raforkuframleiðslu á árunum 1983–1985, Blönduvirkjun geti hafið orkuframleiðslu árið 1986, Fljótsdalsvirkjunaráfangar geti hafið orkuframleiðslu á árunum 1987–1989.

6. Einungis verði vikið frá ofangreindri virkjunarstefnu ef ekki nást samningar um hagkvæma orkusölu í samræmi við hana.

Með stefnumótun þessari yrði höggvið á þann úrræðaleysishnút sem drepur nú öll virkjunarmál í dróma. Öllum málsaðilum væri ljóst, hver stefnan er, og allir gætu einbeitt sér að því að framkvæma verkin í stað þess að eyða kröftunum í orðagjálfur, skýrslugerð og tilgangslausa togstreitu og úrræðisleysi, eins og nú viðgengst fyrir forgöngu hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég ítreka stuðning minn og Alþfl. við meginefni þeirrar þáltill. sem hér er til umr.