02.11.1981
Sameinað þing: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

Rannsókn kjörbréfs

Forseti (Jón Helgason):

Mér hefur borist svohljóðandi bréf:

„30. október 1981.

Eggert Haukdal, 6. þm. Suðurl., hefur ritað mér á þessa leið:

„Vegna sérstakra anna get ég ekki sótt þingfundi á næstunni. Því leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að vegna forfalla 1. varamanns taki 2. varamaður L-listans í Suðurlandskjördæmi, Jón Þorgilsson, sveitarstjóri á Hellu, sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fara fram rannsókn kjörbréfs í sameinuðu þingi.

Sverrir Hermannsson,

forseti Nd.

Hér liggur enn fremur fyrir símskeyti, svohljóðandi:

„Vegna annarra starfa get ég ekki tekið sæti á Alþingi í forföllum Eggerts Haukdals, 6. þm. Suðurl., í byrjun nóvembermánaðar 1981.

Siggeir Björnsson,

1. varamaður L-lista.“

Svo er hér enn fremur kjörbréf undirritað af Kristjáni Torfasyni með skírskotun til bókunar í gerðabók yfirkjörstjórnar Suðurlandskjördæmis.

Ég vil biðja kjörbréfanefnd að taka kjörbréf Jóns Þorgilssonar til athugunar. Verður gert fundarhlé á meðan. — [Fundarhlé.]