10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2947 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

144. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram í framsögu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir meirihlutaáliti hv. fjh.- og viðskn., að sjúkratryggingagjald, sem þetta frv. fjallar um, var lagt á í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið í skattamálum og skattar á þjóðinni hafa hækkað, eins og við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. gerðum grein fyrir við afgreiðslu fjárl., beinir og óbeinir skattar, um það bil um 20 þús. nýkr. á fimm manna fjölskyldu í landinu eða 2 millj. gkr.

Eftir að fjárlög voru afgreidd, en þau gera ráð fyrir skattvísitölu 150, sem þýðir að skattþrep og skattfrádrættir hækka um 50%, hafa komið fram upplýsingar um að tekjubreyting milli ára verður ekki 50%, eins og gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga, heldur 53% eða nálægt því. Í símtali við Þjóðhagsstofnun var þetta staðfest í gær. Ég átti raunar von á að fá bréf um þetta, eins og ég var búinn að óska eftir í hv. fjh.- og viðskn., en vegna misskilnings varð ekki úr því, að það kæmi til nefndarinnar. En mér er óhætt að fullyrða að tekjubreyting milli ára verður allmiklu meiri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Þetta þýðir að skattaálagning verður allverulega meiri, ef ekki verður breytt skattstigum eða skattvísitölu, en fjárlög gera ráð fyrir, bæði að því er varðar sjúkratryggingagjald og tekju- og eignarskatta. Samkv. lauslegri áætlun munu þessir skattar hækka frá áætlun fjárl. í álagningu um 50–55 millj. kr., sem jafngildir á innheimtugrundvelli, eins og fjárlög eru gerð upp, um 45–50 millj. kr. Þá hefur hæstv. ríkisstj. flutt frumvörp, sem sum eru orðin að lögum og önnur eru í meðferð Alþingis, sem enn þyngja skatta frá því sem orðið er.

Því hefur verið mjög haldið á loft í þeim umr. um skattabreytingar, sem hafa farið fram hér á Alþingi í tengslum við ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum, að verið væri að lækka skatta. Sannleikurinn er sá, að þar er um skattalækkun að ræða á þremur afmörkuðum sviðum, þ.e. lækkun launaskatts, stimpilgjalds og tollalækkun á heimilistækjum, en skattahækkanir eru miklum mun meiri en sem þessu nemur. Ef þetta dæmi er gert upp koma út úr því eftirfarandi tölur:

Hækkun tekju- og eignarskatts og sjúkratryggingagjalds er, eins og ég rakti áðan, mjög varlega áætluð 45 millj. kr. vegna þess að um meiri tekjur verður að ræða en gert var ráð fyrir í fjárl. Að óbreyttri skattavísitölu hækka þessir skattar um 45 millj. kr. a.m.k. Tollafgreiðslugjald er áætlað að gefi ríkissjóði 54 millj., söluskattur ofan á það 19 millj., framlengingargjald á sælgæti og kex 8 millj. og skattur á banka og sparisjóði 50 millj., lækkun launaskatts er 30 millj., stimpilgjald lækkar um 20 og tollalækkun nemur 22 millj. Hækkun skatta nettó samkv. þessu yrði umfram það, sem fjárlög gera ráð fyrir, 104 millj. kr.

Við undirritaðir nm. fjh.- og viðskn., sá sem hér talar og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, erum andvígir þessari skattastefnu og munum greiða atkv. gegn þessu frv. þar sem alger óvissa er um hvort hæstv. ríkisstj. ætlar með einum eða öðrum hætti að leiðrétta þessar skattaálögur sem ég hef hér gert ráð fyrir, t.d. með breytingu á skattvísitölu.