10.03.1982
Efri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þau eru efnisatriði þessa frv., að 6% af svonefndum gengishagnaði eða uppfærslu á verðmæti birgða við gengisbreytinguna, skuli renna í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Sá sjóður, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, hefur verið mjög grátt leikinn í tíð núv. ríkisstj. Fé hans hefur verið óspart eytt og jafnvel greitt úr honum við þau skilyrði að um hámarksverð hefur verið að ræða, hærra verð en menn hafa þekkt. Er það auðvitað öndvert við tilgang sjóðsins. Þá hefur það enn gerst, að þessi sjóður hefur stofnað til skulda, tekið lán og hlotið til þess ríkisábyrgð. Það er líka öndvert við tilgang sjóðsins og fyrir því engin fordæmi. Staða Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er því vægast sagt mjög slæm.

Sú braut, sem menn hafa farið í þeim efnum, sú veiking sjóðsins, skuldasöfnun og raunveruleg misbeiting hans, býður heim þeirri hættu, að þetta mikilvæga hagstjórnartæki verði ónýtt í höndunum á okkur. Þess vegna ber nauðsyn til að snúa af þeirri braut sem menn hafa fetað að undanförnu. Í ljósi þess er augljóst að hvað eina, sem má verða til að styrkja stöðu sjóðsins, er til bóta. Það framlag í sjóðinn, sem hér er gert ráð fyrir, getur þannig átt þátt í að koma í veg fyrir, að þetta mikilvæga stjórntæki verði eyðilagt, og koma í veg fyrir frekari veikingu sjóðsins. Af þessum ástæðum legg ég til að frv. um fjárframlag í sjóðinn verði samþykkt.