10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

221. mál, búnaðarmálasjóður

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af nefnd sem skipuð var 30. júní 1980 til að endurskoða lög um sjóðagjöld landbúnaðarins, þó fyrst og fremst þau sjóðagjöld sem renna eiga til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Nefndin taldi einnig nauðsynlegt að endurskoða lög um Búnaðarmálasjóð, en núgildandi lög um það efni eru nr. 38 15. febr. 1945. Lög um Búnaðarmálasjóð ákvarða í fyrsta lagi gjaldtöku til sjóðsins, en sú gjaldtaka er einnig grundvöllur álagningar á gjöldum Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Lífeyrissjóðs bænda og Bjargráðasjóðs. Nefndin skilaði því frv., sem hér er til umr., og er það lagt fram óbreytt eins og hún gekk frá því.

Búnaðarsjóðsgjald reiknast sem hlutfall af framleiðslu búfjárafurða og skulu tekjur Búnaðarmálasjóðs ár hvert skiptast að jöfnu á milli búnaðarsambandanna annars vegar og Stéttarsambands bænda hins vegar. Búnaðarfélag Íslands skiptir hlut búnaðarsambandanna á milli einstakra búnaðarsambanda með hliðsjón af áætluðu framleiðslumagni héraða af gjaldskyldum vörum og leyfum. Í frv. þessu eru gerðar breytingar á gjaldstofni til Búnaðarmálasjóðs m.a. með tilliti til breytinga á verslunar- og framleiðsluháttum í landbúnaði og með tilliti til nýrra búgreina.

Í 2. gr. frv. kemur fram hvernig þessi gjaldstofn er lagður á einstakar greinar, en hann skiptist að megindráttum í tvo gjaldflokka: Í fyrsta lagi þann flokk sem greiða skal 0.25% gjald, þ.e. af alifugla- og svínarækt, fiskeldi, fiskræki, land- og veiðileigu, og svo í öðru lagi að af afurðum annarra búgreina skal greiða 0.50% gjald, þ.e. af nautgripaafurðum úr sláturhúsum, mjólkurbúum og af heimaunnum nautgripaafurðum, af sauðfjárafurðum, af garð- og gróðurhúsaafurðum, af afurðum hrossa og enn fremur af sölu lífgripa, af skógarafurðum, hlunnindum o.fl.

Eins og fyrr segir eru ákvarðanir um þessa gjaldtöku ráðandi varðandi innheimtu til annarra sjóða á vegum landbúnaðarins er ég áður nefndi, og var skoðun nefndarinnar að nauðsynlegt væri að færa þetta til betra horfs miðað við breytta framleiðsluhætti og verslunarhætti.

Frv. hetta er einfalt að búnaði og vænti ég að um það megi takast samstaða hér á hv. Alþingi, svo sem var í þeirri nefnd sem undirbjó málið.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.