10.03.1982
Neðri deild: 50. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af nefnd sem skipuð var 30. júní 1980 til að endurskoða lagaákvæði um sjóðagjöld landbúnaðarins. Nefndin var þannig skipuð, að í henni áttu sæti að tillögu Framleiðsluráðs landbúnaðarins Gunnar Guðbjartsson, þáv. formaður Stéttarsambands bænda, Gísli Andrésson bóndi og Gunnar Jóhannsson bóndi. Enn fremur voru skipaðir í nefndina Stefán Pálsson forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Guðmundur Sigþórsson deildarstjóri í landbrn., sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Ingi Tryggvason, núv. formaður Stéttarsambands bænda, tók sæti Gunnars Guðbjartssonar í nefndinni í forföllum hans.

Tilefni þess, að þessi nefnd var skipuð, var að Framleiðsluráð landbúnaðarins óskaði eftir því við landbrh. og landbrn., að þessi sjóðagjöld og skipulag þeirra, sem fjallað er um í þessu frv. sem og í frv. sem mælt var fyrir áðan, frv. til laga um Búnaðarmálasjóð, yrðu tekin til endurskoðunar. Upp hafði komið ágreiningur um innheimtu þessara gjalda af til tekinni framleiðslu landbúnaðarins, einkum hinum svonefndu aukabúgreinum, alifugla- og svínarækt, og af veiðitekjum. Í ljósi þessa voru nm. valdir þannig að í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá framleiðendum í svína- og alifuglarækt, og náði nefndin einróma samkomulagi um það frv., sem hér liggur fyrir, sem og það frv. um Búnaðarmálasjóð sem var næst á undan þessu máli á dagskránni.

Þær breytingar, sem fram koma í frv. þessu, eru einkanlega þær, að gerðar eru tillögur um að framleiðendagjald til Stofnlánadeildar, sem er lagt á svína- og alifuglarækt, fiskeldi, fiskrækt, land- og veiðileigu, verði hálfu lægra en hið venjulega stofnlánadeildargjald sem lagt er á aðrar búgreinar. Stofnlánadeildargjald hefur verið innheimt frá því að ákvæði voru tekin í lög um þetta efni 1962.

Enn fremur er tekin upp í þessu frv. heimild til landbrh. til að endurgreiða eða ákveða niðurfellingu á neytendagjaldi og jöfnunargjaldi af landbúnaðarafurðum sem fara til sölu á markað erlendis og ekki njóta útflutningsbóta eða þegar útflutningsbætur hrökkva ekki lengur til. Hér er í fyrsta lagi átt við útflutning á loðdýraafurðum, en af þeim yrði greitt stofnlánadeildargjald sem yrði 1/2% af söluverði, en gefin heimild til að fella niður svokallað neytendagjald og svokallað jöfnunargjald sem hingað til hafa lagst á þessa framleiðslu.

Eins og kunnugt er, þá er tekna til Stofnlánadeildar landbúnaðarins aflað með því að leggja á svokallað stofnlánadeildargjald sem leggst á söluvörur landbúnaðarins og hér er gerð grein fyrir. Enn fremur er lagt á óniðurgreitt heildsöluverð landbúnaðarvara 1% gjald sem kallað er neytendagjald og jafnhátt gjald sem kallað er jöfnunargjald. Á móti þessum liðum er ríkissjóði gert skylt að leggja fram fé þannig að nemi jafnhárri fjárhæð. Það er að mínum dómi afar ósanngjarnt að þær greinar landbúnaðarins, sem flytja sínar vörur út í samkeppni við framleiðslu slíkra vara hjá öðrum þjóðum, svo sem er t.a.m. um loðdýraræktina, þeir framleiðendur þurfi að taka á sig að greiða umfram hið venjulega stofnlánadeildargjald bæði neytendagjald og jöfnunargjald sem ekki er hægt að innheimta af söluverði varanna svo sem gert er um neysluvörur á innlendum markaði. Sú heimild, sem er gefin í þessu frv. til að endurgreiða slík gjöld eða fella niður, er til að gera mögulegt að létta gjöldum af þessari grein. Á sama hátt tel ég óeðlilegt, þegar útflutningsbætur hrökkva ekki lengur til að greiða fullt verð fyrir söluvörur landbúnaðarins sem fluttar eru út, svo sem osta og dilkakjöt, að þá verði bændur að greiða af þeirri vöru þrefalt stofnlánadeildargjald. Í frv. eru heimildir til þess að létta þá gjaldtöku.

Í þessu felast að meginstofni þær breytingar sem varða gjaldtöku til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Í frv. er sambærileg skipting í tvo höfuðflokka á gjaldtöku af framleiðslu landbúnaðarins og gerð var grein fyrir í tengslum við frv. til l. um Búnaðarmálasjóð. Þannig er 1/2% gjald á söluvörur í alifugla- og svínaræki, fiskeldi, fiskrækt, landleigu og veiðileigu, en 1% á annað sem gjaldskylt er, og eru það fyrst og fremst höfuðgreinar landbúnaðarins.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir smávægilegum breytingum í þessu frv. á lagaákvæðum er varða Byggingarstofnun landbúnaðarins. Þar er einkanlega um breytingar að ræða sem miðast við að færa þau ákvæði til samræmis við aðrar breytingar sem orðið hafa í starfsemi Byggingarstofnunar landbúnaðarins og Búnaðarbanka Íslands. Þar er t.d. gert ráð fyrir því, að Byggingarstofnun starfi undir stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins og að deildarstjóri í Byggingarstofnun landbúnaðarins sé skipaður af stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, en ekki, eins og áður var, af landbrh. Þetta er í samræmi við það sem gerist varðandi aðrar deildir Búnaðarbanka Íslands og Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Getur tæplega talist eðlilegt að ráðh. skipi forstöðumann slíkrar tæknideildar þar sem bankastjórar bankans eru ráðnir af bankaráði og forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins af stjórn Stofnlánadeildarinnar.

Þetta eru þær meginbreytingar sem í þessu frv. felast. Ég vænti þess, að þar sem samstaða hefur tekist um þetta mál af hálfu þeirra aðila, sem unnið hafa að undirbúningi þess, og búið er að leggja í það mikla vinnu að ná samkomulagi um viðkvæmt mál, þá sjái hv. Alþingi sér fært að afgreiða það á yfirstandandi þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. landbn.